23.02.1937
Sameinað þing: 3. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (1473)

1. mál, fjárlög 1938

Jóhann Jósefsson:

Það leiðir af sjálfu sér, að ekki verður hægt í þeirri hálftímaræðu, sem Sjálfstfl. er ætluð í þetta sinn, að gagnrýna þegar í stað þær fullyrðingar, sem fram komu í ræðu hæstv. fjmrh. Þær byggðust að mestu á miklum fjölda af tölum, sem eigi verða krufðar til mergjar, þótt þær heyrist einu sinni nefndar. Við sjálfstæðismenn álítum það hinsvegar hlutverk okkar sem andstöðuflokks, að nota þessa hálfu klukkustund, sem okkur er skömmtuð, til þess að ræða almennt við ríkisstj. um aðgerðir hennar á sviði fjármálanna. Og þó verður, að því er þetta snertir, sökum hins stutta tíma, sem hér er til umráða, að takmarka þetta við svo að segja nokkrar athugasemdir.

Þetta mun vera í fjórða sinn, að hæstv. núv. fjmrh. leggur fjárlagafrv. fyrir Alþingi. Á það var bent við sama tækifæri á síðasta þingi, þegar einn flokksmanna minna gerði aths. við fjárlagafrv. ráðh. fyrir árið 1937, að útgjöld ríkisins virtust stöðugt fara hækkandi í höndum hæstv. fjmrh., miðað við þær áætlanir um útgjöld, er kæmu fram í fjárlagafrumv. hans. Og taldist þá svo til, að sú hækkun, miðað við áætlanir í þingbyrjun, næmi 4,1 millj. kr. þau árin, sem þessi hæstv. ráðh. hefði haft fjármálin með höndum.

Hæstv. ráðh. virðist enn við samningu þessa fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, hafa reynzt þessari hækkunarstefnu sinni trúr, því að mér telst svo til, að samkv. frv. nemi hækkanirnar alls frá síðasta fjárlagafrv. hæstv. fjmrh. 701461 kr. Lækkanir aftur á móti 77161 kr. Og verður þá hækkunin frá síðasta fjárlagafrv. 624300 kr. Rekstrarútgjaldaáætlunin á fjárlagafrv. er nú 15,8 millj. kr. Að vísu er gert ráð fyrir, að um ¾ millj. kr. rekstrarafgangur verði af þessari upphæð, en telja má víst, að hækkanir Alþingis og umframgreiðslur muni nema a. m. k. þeim rekstrarafgangi, sem í frv. er áætlaður, og er því ekki leggjandi allt of mikið upp úr honum.

Nú er þess að gæta, að það er ekki svo sem að öll útgjöld ríkisins séu talin, þegar nefndar eru niðurstöður hins svonefnda rekstraryfirlits í þessu fjárlagafrv. Hér við bætast afborganir lána, sem nema 1407 þús. kr., aukningar ríkisstofnana, 143 þús., byggingar nýrra vita, 65 þús., og lögboðnar fyrirframgreiðslur, 10 þús. kr., eða samtals 1625000 kr. Nema útgjöldin þá samkvæmt sjóðsyfirlitinu 16715557 kr. Og enn eru hvergi nærri öll kurl komin til grafar, því að mikið er samt sem áður ótalið af raunverulegum útgjöldum ríkisins, t. d. kostnaður við landssíma, póst og útvarpið o. fl. ríkisstofnanir, sem ekki er talinn í rekstraryfirliti þessa frv. En þessi kostnaður nemur alls um 3½ millj. kr.

Það var árið 1931, að framsóknarstjórnin breytti til um fyrirkomulag á færslu landsreikningsins frá því sem áður var. Áður hafði kostnaður við stofnanir, sem ég nefndi hér að ofan, verið talinn með til útgjalda í hinum einstöku gr. fjárl., en nú var því hætt samkvæmt hinni nýju breytingu. Þessi breyting gerir að vísu stj. hægra fyrir um að láta fjárlögin líta sæmilega út á pappírnum og almenningi erfiðara að átta sig á útgjöldunum, en hinni raunverulegu niðurstöðu um útgjöld ríkisins í heild getur þessi bókfærslubreyting ekki haggað.

Væri útgjaldabálkur fjárl. settur upp á sama hátt nú og gert var fram að árinu 1931, en þá var póstur og sími t. d. taldir með samgöngumálum 13. gr. fjárl., og væru útgjöldin að öðru leyti áætluð eins og þau eru nú áætluð samkvæmt till. hæstv. fjmrh., þá næmu útgjöld þessa fjárlagafrv, um 20 millj. kr.

Fyrir 10 árum síðan, eða þegar fjárlagafrv. fyrir árið 1927 var samið, var af þáv. fjmrh. áætlað til allra útgjalda ríkisins 10,4 millj., eða um 10½ millj. kr. Nú er hin raunverulega útgjaldaáætlun, eins og ég hefi áður tekið fram, um 20 millj. kr. Hafa því útgjöld ríkisins að jafnaði aukizt um tæpa 1 millj. kr. á hverju ári á þessum síðustu 10 árum.

Þessu fjárlagafrv. fylgir skrá yfir starfsmannahald ríkisins, sem sýnir, að í launagreiðslur einar til starfsmanna ríkisins fara nú 5040557 kr., eða sem svarar um helmingur þeirrar upphæðar, sem ríkisstj. fyrir einum 10 árum síðan lét sér nægja að áætla til allra útgjalda ríkisins og ríkisstofnana. Þessi skrá um starfsmannahald og launagreiðslur hæstv. stjórnar mun þó tæplega vera að öllu leyti tæmandi.

En fáein dæmi nægja til þess að sýna, hversu geipilegar upphæðir fara nú orðið í launagreiðslur við ýmsar stofnanir ríkisins, þær sem núv. stj. hefir sett á laggirnar. T. d. nema launagreiðslur í áfengisverzlun ríkisins 139760 kr., í tóbakseinkasölunni 76660 kr., við ríkisútvarpið 131200 kr., við viðtækjaverzlunina 34660 kr. og við raftækjaeinkasöluna 65440 kr.

Ég vil þá lítillega minnast á fjáröflunarleiðir hæstv. ríkisstjórnar.

Eins og kunnugt er hafa núv. stjórnarflokkar mjög haft það á oddi, að þeir vildu létta álögum af alþýðu manna. Og enginn vafi er á því, að fjöldi fólks hefir kosið alþýðuflokksmenn fyrir það, að þeir hafa ávallt talið það sitt stefnumál, að létta öllum tollum og öðrum óbeinum gjöldum af þjóðinni. Þeir hafa látið svo sem ekkert gjald til hins opinbera væri þeim eins mikill þyrnir í augum eins og tollarnir á neyzluvörunum. Ég mun síðar sýna fram á það, hversu langt þeir eru komnir frá þessari stefnu sinni og hversu geipilega kosningaloforð Alþfl. í þessu efni hafa verið svikin.

Á árinu 1934, þegar núv. stjórnarflokkar komust til valda, voru þjóðinni gefin tvöföld fyrirheit í þessu efni. Sósíalistar lofuðu í 4 ára áætlun sinni að létta af tollum og beita aðallega beinum sköttum. Og þegar stjórnarflokkarnir gáfu síðan út sína sameiginlegu pólitísku trúarjátningu, er þeir kölluðu málefnasamning, var því þar fyrst og fremst yfirlýst, að byrðarnar — vitanlega útgjöld ríkisins — skyldu fyrst og fremst hvíla á háum tekjum og miklum eignum skattþegnanna. Samkvæmt þessu voru hinir svo kölluðu beinu skattar líka sleitulaust hækkaðir. Stj. var heimilað að innheimta aukreitis tekju- og eignarskatt fyrir árið 1934, sem námu 40% af hinum áður álagða tekju- og eignarskatti fyrir það ár, og sú heimild var notuð. Á þessu þingi, 1934, var svo enn haldið áfram í sömu átt og sett ný lög um tekju- og eignarskatt, og hvorttveggja hækkað til stórra muna. Það urðu nú að vísu ekki hátekjumennirnir einir, sem þessi l. náðu til, því að ákvæði l. náðu einnig til lægst launuðu mannanna í landinu.

Með þessum lögum voru hin gömlu tekju- og eignarskattslög frá 1921 og allir viðaukar og breyt. á þeim úr gildi numin. Hækkunin á tekjuskattinum var gífurleg samkvæmt hinum nýju lögum. Nokkur dæmi því til sönnunar skulu tilfærð.

Af 500 kr. tekjum nam hækkunin 66%. Af 2 þús. kr. tekjum nam hún 67%, af 6 þús. nam hún 110%, af 15 þús. 68% og af 50 þús. kr. og þar yfir nam hún 58%.

Eftirtektarvert er það, hve gífurleg hækkunin er á lægstu tekjunum, þar sem hún var 66% á þeim, en á hæstu tekjum, sem lögin gera ráð fyrir, 50 þús. kr. og þar yfir, er hækkunin þó ekki nema 58%. Eftirtektarverðast er þó það, að hækkunin er langmest á miðlungstekjum, 5–6 þús. kr. tekjum. Þar er hún yfir l00%.

Sé þetta athugað í sambandi við margendurteknar yfirlýsingar stjórnarflokkanna um það, að byrðarnar eigi að hvíla að mestu leyti á hátekjum og stóreignum, en aftur eigi að létta þær á lágtekjumönnum, verður nokkuð bersýnilegt ósamræmið milli loforða þeirra og framkvæmda. Með þessum sömu l. var eignarskatturinn yfirleitt hækkaður um 50%, og verður þar eins hins sama vart, að stjórnarliðið brýtur svo kallað „princip“ sitt alveg eins og við tekjuskattshækkunina. Þessi hækkun varð tiltölulega hin sama á smáeignum eins og stóreignum.

Það er engin tilviljun, að skattstiganum er hagað svo í þessum frv. stj. að hækkunin verður geipilegust einmitt á lágum miðlungstekjum. Það er nefnilega vitað, að þrátt fyrir hinar háværu kröfur stjórnarflokkanna um hátekjuskatt, að þessir svo kölluðu hátekjumenn eru varla til í landinu. Og þó að glepja megi alþýðu manna með þessu tali um hátekjumenn og gera skattránið á hendur hennar aðgengilegra á pappírnum með því að tala um hátekjumenn, hátekjuskatt o. s. frv., þá eru það bök þeirra manna, sem aðeins eru bjargálna og jafnvel berjast í bökkum um afkomu sína, sem mestur skattþunginn hvílir á.

Á þinginu 1935 var svo enn haldið áfram að hækka hina beinu skatta með l. nr. 128 31. des. 1935, er kölluð voru l. um bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs. Var tekjuskatturinn enn hækkaður um allt að 80%, og var talið, að sú hækkun út af fyrir sig mundi nema um 400000 kr. Annars færðu þessi lög fleiri álögur yfir á bak gjaldþegnanna, eins og síðar mun að verða vikið.

Með þessari síðustu hækkun tekju- og eignarskattsins komust beinu skattarnir svo hátt, að hvergi eru dæmi til annars eins.

Og þegar við þá bætast — sem nauðsynlega verður að vera — útsvörin á hvern og einn gjaldþegnanna, þá er óhætt að fullyrða, að dæmi til slíkra beinna skatta finnist hvergi hjá menningarþjóð annarsstaðar en hér.

Þessi skattastefna er ein út af fyrir sig næg til þess að hefta alla framþróun í atvinnurekstri, jafnvel þótt engir krepputímar væru.

Í þjóðfélagi, þar sem svo að segja engin auðsöfnun er til, en aðkallandi þörf bæði hjá landbúnaði, hjá sjávarútvegi og hjá iðnaðinum fyrir rekstrarfé, er það harla óviturlegt, að haga skattaálögum þann veg, að enginn sjái sér hag í því að safna fé eða spara, þar eð það er aðallega spariféð, sem bankarnir hafa að lána til atvinnuveganna, og svo að segja sé tekið fyrir hvöt manna til þess að ráðast í nokkrar framkvæmdir, með því, að atvinnurekandinn njóti að engu eða að sáralitlu leyti ávaxtanna af atorku sinni eða iðju, en verði hinsvegar að bera áhættuna.

Jafnframt þessum hernaði á hendur skattþegnanna gengst núv. stj. fyrir því, að þröngva kosti og auka byrðar bæjarfélaganna, án þess að sjá þeim fyrir neinum tekjum til að standast hin auknu útgjöld, og eru þau því þannig af valdhöfunum knúin til þess að gera sífellt frekari kröfur um fjárframlög til þeirra, sem í bæjunum búa. Af þessu leiðir, að útsvörin fara stórum hækkandi.

Í útvarpsumræðum þeim um stjórnmál, er fram fóru fyrir skömmu, var af hálfu sjálfstæðismanna sýnt fram á, að eftir gildandi tekjuskattslöggjöf og samkvæmt reglum um útsvarsálagningu hér í Reykjavík yrðu atvinnufyrirtæki, sem hefðu umfram 28 þús. kr. skattskyldar tekjur, að greiða af því, sem umfram væri þessar tekjur, 54% til bæjarfélagsins, og 44% til ríkisins. Og þó í viðbót 1% til ellitryggingar. Skattarnir mundu því nema á slíku fyrirtæki 99% af umræddum tekjum, en 1% félli í hlut þess, er teknanna aflaði.

Það mun nú fyrir löngu vera farið að vera alþýðu manna í þessu landi nokkuð ljóst, að beinu skattarnir koma niður, jafnvel beinlínis, á öllum þorra fólksins. Að þeir gera það óbeinlínis, er líka vitanlegt, þar sem þeir veikja aðstöðu atvinnurekenda og gera þeim erfiðara fyrir að hafa fólk í vinnu. En hinn langi armur fjármálastjórnarinnar teygir sig nú til fleiri en hátekjumannanna eða atvinnutækjanna við innheimtu tekjuskattsins. Jafnvel hinir fátækustu verða að sýna skattpeninginn, og alþýðu manna um allt land verður það með hverjum deginum ljósara, að kenningar jafnaðarmannanna um það, að beinu skattarnir komi eingöngu niður á hátekjumönnum, eru hinar mestu falskenningar.

Nú er rétt að víkja nokkuð að því, hvernig hefir farið um loforð Alþfl. — það að létta af tollum á nauðsynjavörunum. Hæstv. ráðh. var nú í ræðu sinni að mótmæla því harðlega, að núv. stj. hefði hækkað tolla á nauðsynjavörum, en játaði þó jafnframt, að tekjur ríkissjóðs af tollum og sköttum 1930 hefði numið 12338 millj. kr., en áætlaðar hefði verið 12065 millj. kr., þ. e. 273000 kr. umfram, þrátt fyrir minnkandi innflutning. Hvað skyldu gjaldþegnarnir segja? Skyldu þeir ekki hafa orðið varir við neina hækkun?

Hafi þeim verið alvara að láta byrðarnar hvíla fyrst og þyngst á háum tekjum, eins og þeir orðuðu það, þá er hitt engu síður opinbert mál nú orðið, að þeir hafa ekki látið sér síður annt um að kroppa inn tekjur í ríkissjóð af lágum tekjum og lægstu tekjum allrar alþýðu. Um þetta bera vott hin mörgu lagaákvæði, sem stjórnarflokkarnir hafa samþ. síðan árið 1934, um margskonar og síhækkandi tolla og gjöld af neyzluvörum almennings, og aukin gjöld til hins opinbera fyrir þær þjónustur, sem bæði ríkir og fátækir verða þangað að sækja. Skal hér drepið á nokkur slík lagaákvæði:

Á haustþinginu 1934 eru hækkaðir tollar á allri innlendri tollvöruframleiðslu, frá 100 til 200%. Samtímis eru gerðar breytingar á tolllögunum og aðflutningsgjöld á tollvörum hækkuð frá 25 til 100%. Gjöld fyrir fógetagerðir, þinglýsingargjöld, dómsmálagjöld, uppboðsgerðir og því um líkt — allt hækkað um 25%. Og stimpilgjaldið er líka hækkað um 25%. Þá var og ennfremur innleitt nýtt stimpilgjald, hin svokölluðu greiðslumerki. Vitagjaldið var hækkað um 25% og tollur á tegrasi hækkaður að sama skapi.

Á þinginu 1935 var enn haldið áfram með það að hækka gjöld af nauðsynjavörum almennings. Ég minntist áðan á það, að í lögunum, sem kölluð voru bráðabirgðatekjuöflun til handa ríkissjóði og fólu í sér stórkostlega hækkun á sköttunum, hefði líka verið fyrir því séð, að hygla þeim gjaldþegnum, sem beinu skattarnir næðu ekki til. Með þeim lögum var lagður frá 2 til 25% aukaverðtollur á flestallar vörur, sem fólk daglega notar. Þarm voru taldar allar fatnaðarvörur og allar vefnaðarvörur, að undanskildum nokkrum tegundum, sem samkvæmt samningum við Breta gátu ekki þar fallið undir. Ennfremur voru skattlagðir búshlutir, hreinlætisvörur, smávarningur og því um líkt, sem öll heimili þurfa daglega á að halda, að ég ekki tali um ávexti og þvílíka hluti, sem stjórnarflokkarnir virðast lita á sem lúksusvöru.

Þá var benzínskatturinn tvöfaldaður úr 4 au. upp í 8 au. á lítrann á þessu sama þingi, og ennfremur breytt lögum um vörutoll, og hann

látinu ná til nokkurra vörutegunda, sem hann ekki hafði áður náð til. Og að lokum var verðtollurinn hækkaður til stórra muna.

Hér hefir nú nokkuð verið lýst því, hvaða leiðir hæstv. stj. hefir farið til þess að ná fé í ríkissjóð, þótt eftir sé ennþá að minnast á hinar mörgu ríkiseinkasölur, sem núv. stj. hefir komið á stofn, eins og kunnugt er. Hvað beinu skattana snertir, þá er það vitað, að nú er svo langt gengið í þá átt til fjáröflunar, að jafnvel stjórnarflokkarnir munu sjá, að ekki verður lengra komizt. Og hvað tolla og gjöld á neyzluvörum almennings áhrærir, þá er þar skemmst frá að segja, að núv. ríkisstj. hefir sem engu létt af. Gengisviðauki á kaffi og sykri hefir að vísu verið felldur burt, en þar var tekið aftur með annari hendi það, sem gefið hafði verið með hinni, því að með viðskiptagjaldinu var 5% verðtollur aftur lagður á þessar vörur. Efni í tunnur, hampur og hampgarn hefir líka verið undanþegið aðflutningsgjaldi, en þá munu líka upptaldar vera tolllækkanir hæstv. stj. á aðfluttu vörunni. Hinsvegar hefir hæstv. ríkisstj. og þeir flokkar, sem að henni standa, stórhækkað tolla og gjöld á svo sem öllum nauðsynjavörum almennings, frá því sem áður var, með nýjum lagaákvæðum, sem ég hefi hér að framan nokkuð drepið á.

Álögurnar á aðfluttum varningi eru nú orðnar svo margskonar og með svo mörgum nöfnum, að það má heita að vera fræðigrein út af fyrir sig að vita um öll þessi gjöld. Hefi ég það fyrir satt, að samin hafi verið heil handbók, og hún hreint ekki lítil, handa tollheimtumönnum víðsvegar um land, þeim til leiðbeiningar við innheimtu aðflutningsgjaldanna.

Samkvæmt þeim frv., sem hæstv. stj. hefir lagt fyrir þetta þing, er svo að sjá, að hún sé ráðin í því að lögfesta til frambúðar alla skatta og tolla, þá sem hún á undanförnum 2 síðustu þingum hefir sótt svo fast að lögleiða, sumpart undir því yfirskyni, að aðeins um bráðabirgðatolla væri að ræða. Meðal annara slíkra frv., sem stj. leggur nú fyrir Alþingi til framlengingar, er frv. til l. um framlenging á gildi ýmsra lagaákvæða um tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Það frv. fjallar um viðaukaverðtoll, álag á skemmtanaskatt, álag á tekju- og eignarskatt, nýtt gjald af innlendum vörum, viðskiptagjaldið svo kallaða, og loks benzínskattinn. Grg. fyrir þessu frv. er talsvert eftirtektarverð. Þar segir svo:

„Frv. gerir ráð fyrir framlengingu allra þeirra lagaákvaða um tekjuöflun til ríkissjóðs, sem nú gilda, til ársloka 1937, að undanskildum verðtollinum, en um framlenging hans er lagt fram sérstakt frv. Má ríkissjóður ekki við því að missa af tekjum af þessum ákvæðum, ef halda á uppi framlögum til atvinnuveganna og verklegra framkvæmda, sem fjárlagafrv. fyrir árið 1938 gerir ráð fyrir“.

Hér er því beinlínis slegið föstu, að ef þingið vill ekki viðhalda öllum þeim sköttum og tollum, sem nú hvíla eins og drápsklyfjar á almenningi hér á landi, skuli það fyrst og fremst bitna á framlögum til atvinnuveganna og verklegra framkvæmda.

Ríkisstj. virðist ekki koma til hugar, að létta megi af tollum, nema það komi þá beinlínis atvinnavegunum í koll eða hinum svo kölluðu verklegu framkvæmdum. Fái hæstv. ráðh. ekki allt það fé í kassann, sem hann heimtar, samkvæmt framlögðum frv., á fyrst og fremst að varpa fyrir borð framlögum til atvinnuveganna og framlögum til verklegra framkvæmda. Að koma fram sparnaði á öðrum liðum virðist stj. eftir þessu ekki geta komið til mála.

Nú hefir stj. margsinnis verið á það bent af okkur stjórnarandstæðingum, að það eru atvinnuvegir þjóðarinnar, sem verða að bera, beint eða óbeint, hita og þunga dagsins af öllum sköttum og tollum, sem hið opinbera heimtar, hvern veg sem þeir eru teknir. Hæstv. fjmrh. virðist ekki hafa átt gott með að átta sig á, að svo sé, á undanförnum þingum, og samkvæmt því, sem enn er fram komið á þessu þingi; a. m. k. hefir hann verið ærið tregur til þess að kannast við þá staðreynd, að atvinnuvegirnir verði að bera gjöldin.

Þetta kom einna skýrast fram á þinginu 1935, þegar rætt var um hinar fjölmörgu nýju álögur, sem hæstv. ráðh. reyndi að gera aðgengilegri með því að láta í veðri vaka, að þetta ætti aðeins að gilda til bráðabirgða, og nú orðið er augljóst, að lítið hefir verið meint með. Um eitt slíkt frv., bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs, sem kölluð var, sagði hæstv. ráðh., að meginstofninn í frv. væri viðskiptagjaldið, en það er bara annað nafn á verðtolli, því að í því eru aukatollar frá 2 til 25% lagðir á fjöldamargar hinar helztu neyzluvörur og nauðsynjavörur, eins og landsmönnum er nú orðið kunnugt af reynslunni.

En þrátt fyrir það þó að ráðh. kannaðist við, að viðskiptagjaldið væri meginstofn frv., fullyrti hann eigi að síður, að þetta gjald íþyngdi ekki framleiðendum, vegna þess að nokkuð margar vörutegundir, sem beint eru notaðar til framleiðslunnar, sluppu við að falla undir þetta gjald. Flestum öðrum mun vera ljóst, að gjöld á neyzlu- og nauðsynjavörum, hverju nafni sem þær nefnast, gera vöruna dýrari, og eins hitt, að þessar vörur þurfa framleiðendur jafnt og aðrir landsmenn að kaupa handa sér og sínum, og allur aukinn dýrleiki þeirra torveldar afkomu framleiðandans og kemur harðara niður á framleiðendum en öðrum, vegna þess að þeir hafa oft menn í vinnu, sem óhjákvæmilega gera hærri kaupkröfur, þegar dýrtíð eykst, Ennfremur geldur framleiðandinn oft hluta af kaupinu með því að fæða verkamenn sína.

Vitanlega getur það nokkuð afsakað hæstv. ráðh. í þessu efni, að hann hefir sjálfur enga þekkingu af eigin reynslu á kjörum framleiðenda. Það hefir ekki fallið í hans hlutskipti að hafa önnur afskipti af framleiðendum eða yfir höfuð af atvinnuvegum landsins en þau, að ná af þeim skatti í ríkissjóð. Og má vel vera, að þetta sé orsök þess, að honum virðist ósýnna um það en flestum öðrum, að skilja erfiðleika atvinnuveganna og framleiðslunnar.

Nú er fróðlegt að athuga, hvaða áhrif haftastefna hæstv. stj. og skattapólitík hennar hafa haft á atvinnumöguleika verkamannsins.

Skráðir atvinnuleysingjar voru í Rvík:

1934 .......................... 554

1935 .......................... 703

1936 .......................... 690

1937 .......................... 936

Miðað við byrjun febrúar ár hvert, 80% hækkun frá 1934.

Í þessu sambandi má geta þess, að það er talið víst, að hér í Rvík séu nú í aðsigi kauphækkunarkröfur hjá verkamönnum vegna vaxandi dýrtíðar og atvinnuleysis. Stóran þátt í þeirri dýrtíð eiga hinar takmarkalausu tollaálögur ásamt verzlunarófrelsi, sem í landinu ríkir.

Hér á landi ríkir nú haftastefna í algleymingi. En meðal nágrannaþjóða vorra er nú svo litið á, að haftastefnan sé böl, og gangast hinir beztu menn meðal Norðurlandaþjóðanna og nálægra þjóða fyrir því nú, að auka verzlunarfrelsi sem unnt er. Hæstv. stj. virðist vera talsvert upp með sér af að hafa náð því, sem kallað er greiðslujöfnuður. Er þar átt við það, að innflutningnum hafi verið haldið niðri svo mikið, að hann hafi ekki orðið meiri en útflutningurinn, og þar að auki hafi verið nægilegt fé afgangs til þess að inna af hendi hinar svo kölluðu ósýnilegu greiðslur, en þær voru af hæstv. ráðh. taldar í ræðum hans á fyrri þingum 7–8 millj. kr.

Stj. segist nota innflutningshöftin til þess að koma á þessu jafnvægi, sem kallað er, greiðslujöfnuðinum við útlönd. Og þetta á að vera landsmönnum uppbót fyrir öll óþægindin, allan dýrleika vörunnar og vöruskortinn, sem af innflutningshöftunum leiðir.

Útfluttar íslenzkar afurðir námu á síðasta ári eftir bráðabirgðaskýrslum hagstofunnar 48,2 millj. kr., og innflutningurinn nam 41631000 kr. Búast má nú við, að innflutningurinn reynist mun meiri, sennilega allt að 45 millj. kr. við endanlegt yfirlit, samkv. reynslunni síðastl. ár. Þá var innflutningurinn talinn 42 millj. kr. samkv. bráðabirgðauppgerð, en reyndist 45,6 millj. kr., þegar endanlega var upp talið. Þetta lítur út fyrir að vera, þegar á það er litið frá því sjónarmiði, að greiðslujöfnuðurinn sé fyrir öllu, ekki óglæsileg niðurstaða. En eftir er að athuga, hvaða þátt hæstv. ríkisstj. og verkfæri hennar, innflutningsnefnd, eiga í þessu. Þegar það hefir verið athugað, er það sýnt, að ríkisstj. hefir hér ekki unnið fyrir neinu hrósi.

Innflutningsleyfi voru sem sé veitt á þessu sama ári fyrir rúmum 50 millj. kr., og hefðu þau öll verið notuð, þá hefði vantað 2 millj. kr., til þess að viðskiptajöfnuður næðist, og allt að 10 millj. kr., til þess að greiðslujöfnuður næðist.

Hvers vegna varð þá innflutningurinn ekki meiri en 41,5 millj. kr., þegar innflutningsleyfi voru gefin út fyrir yfir 50 millj. kr.?

Ástæðurnar eru sjálfsagt fleiri en ein, en mikinn þátt í þessu mun þó eiga það jafnvægisleysi, sem hjá n. er á veitingu innflutnings- og gjaldeyrisleyfa.

Það er vitanlega engin hjálp í því fyrir þann, er flytja þarf inn vöru, þótt hann fái innflutningsleyfi, ef honum er samt sem áður neitað um gjaldeyrisleyfi.

Það er sama n., sem hvortveggja leyfin veitir, og fyrir því er þetta ósamræmi í leyfisveitingunum enn einkennilegra. Svo er og mögulegt, að einhverjir hafi ekki notað að fullu þau leyfi, er þeir hafa fengið, og bendir þetta á, að það sé rétt, sem andstæðingar hinnar skefjalausu haftastefnu hafa haldið fram, sem sé, að ekki sé eins hættulegt að hafa innflutninginn nokkru frjálsari en nú er hann eins og stjórnin heldur fram.

En þegar litið er á þá upphæð í heild, sem innflutningsleyfi hafa verið veitt fyrir, er það augljóst, að hæstv. stj. hefir með þeim út af fyrir sig ekki skapað eða efnt til jafnaðar á greiðslum við útlönd síðastl. ár.

Þá er athugandi, að það er alls ekki einhlítt til velfarnaðar þjóðinni, að greiðslujöfnuður á pappírnum náist við útlönd í árslok.

Til álita hlýtur hér að koma, hvernig honum er náð og hvernig ástæður þjóðarinnar eru að öðru leyti. Þó að vér hefðum ekki náð greiðslujöfnuði um áramótin, en ættum gjaldeyri eða gjaldeyrisgildi til þess, og ennfremur til þess að standa straum af kostnaði venjulegs innflutnings, miðað við þarfir þjóðarinnar, eftir því sem hann fellur til, eða hefðum eðlilegan forða af þeim vörum fyrirliggjandi, sem mestu varðar, að til séu í landinu, væri þjóðin nú betur á vegi stödd heldur en raun ber vitni um þrátt fyrir greiðslujöfnuðinn, sem svo mjög er gumað af. Hér er nú svo ástatt, að nauðsynjavörur allar eru á þrotum í landinu, engar birgðir fyrirliggjandi af þeim vörum, sem allur almenningur óhjákvæmilega þarf til lífsins. T. d. skýrði útvarpið frá því á dögunum, að í einu þorpi vestanlands hefði orðið að loka skóla og kirkju vegna kolaleysins, og almennur skortur væri einnig á annari nauðsynjavöru. Hér í Rvík eru svo litlar eldiviðarbirgðir fyrir hendi, og hafa verið síðan fyrir áramót, að menn hafa rétt haft til daglegra þarfa.

Svona er þá ástatt með nauðsynjavörubirgðir landsmanna, þær sem inn þarf að flytja.

Ofan á þetta bætist svo það, að allar vörur hafa stigið stórkostlega í verði síðustu mánuðina, og verða landsmenn nú að greiða miklu meira fyrir þessar vörur, sem þeim hefir verið meinað að afla sér í tíma, áður en aðalverðhækkunin dundi á.

Og enn ber eins að gæta, þegar meta skal raunverulega þýðingu þess greiðslujafnaðar, sem hæstv. stj. þykist hafa náð, og það eru þær birgðir af óseldri íslenzkri vöru, sem til eru í landinu um áramótin.

Um síðustu áramót lágu hér fiskbirgðir fyrir a. m. k. 4 millj. kr. minna en við áramótin 1935–1936.

Þetta m. a. sýnir bezt, hversu lítið er að byggja á þeim greiðslujöfnuði á pappírnum út af fyrir sig, sem hæstv. stjórn telur sig hafa náð.

Ástandið er því miður allt annað en glæsilegt, landið vörulaust, að telja má, afskapleg dýrtíð í hönd farandi og vaxandi atvinnuleysi í landinu.

Stjórnarflokkarnir lofuðu að létta sköttum og tollum af almenningi.

Efndirnar hafa orðið þær, að þeir hafa lagt drápsklyfjar af álögum á alla landsmenn.

Þeir lofuðu að auka atvinnu í landinu, en atvinnuleysið eykst með hverju ári, síðan þeir tóku við stjórn landsins.

Þeir lofuðu að létta undir með atvinnuvegum landsmanna, en með geipilegum sköttum og höftum hafa þeir lagt á atvinnuvegina þær byrðar, er þeir fá ekki undir risið.

Og enn hefir hæstv. ríkisstj. fyrirheit á reiðum höndum til þings og þjóðar, en það kveður bara við annan tón nú heldur en gerði fyrir kosningarnar 1934.

Stjórnin gefur þjóð og þingi nú það fyrirheit, að ef ekki séu samþ. og framlengdir allir tollar og allir skattar, sem nú hvíla á þjóðinni, þá skuli það bitna beinlínis á atvinnuvegunum og verða til niðurskurðar verklegra framkvæmda.

Það er með þessu fyrirheiti, að hæstv. fjmrh. leggur nú fyrir Alþingi gjaldahæsta fjárlagafrv., sem nokkur fjmrh. nokkru sinni hefir lagt fyrir Alþingi.

Minn tími er nú víst búinn, en ég vil geta þess að lokum, að útvarpsreglurnar meina það, að við sjálfstæðismenn tölum meira hér. Verður því ekki unnt fyrir mig að gera frekari aths., þó að tilefni gefist til.