23.02.1937
Sameinað þing: 3. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í C-deild Alþingistíðinda. (1474)

1. mál, fjárlög 1938

*Þorsteinn Briem:

Herra forseti! Hæstv. fjmrh. byggði mjög upp ræðu sína sem árás á stjórnarandstæðinga, og verð ég því ofurlítið að svara honum.

Þegar ég hlustaði á ræðu hæstv. fjmrh. áðan, kom mér í hug stjórnmálamaðurinn Pótemkin. Pótemkin var ráðamaður og gæðingur Katrínar II. Rússadrottningar og réð þar mestu í ríkinu um skeið. Þegar hann vildi festa sig sem bezt í sessi, fékk hann drottninguna til að ferðast um þá hluta ríkisins, sem hann stjórnaði. Á þeirri ferð báru hvarvetna við í fjarska fögur sveitaþorp og reisuleg bændabýli eða borgir með verksmiðjum og turnbyggingum. Allt þetta hafði Pótemkin látið reisa frá grunni. Meðfram vegunum stóðu svo á viðkomandi stöðum bændur og borgarar og önnur alþýða, allt saman prúðbúið fólk, sællegt og ánægjulegt. Svo vel leið fólkinu undir hans stjórn. Allt var þetta árangur hinnar ágætu og glæsilegu stjórnar Pótemkins. En þessi ágætu bændabýli, þessi fögru sveitaþorp og borgirnar með verksmiðjunum og turnbyggingunum voru raunar bara leiktjöld, sem Pótemkin hafði látið gera og reisa upp til að villa drottningunni sýn. Sællega fólkið og ánægða, það voru ekki landsins vinnandi stéttir, heldur málalið Pótemkins sjálfs, sem hann flutti milli viðkomustaðanna, þar sem leið drottningarinnar lá um.

Af þessum tiltektum er Pótemkin frægur orðinn í veraldarsögunni. Og sagan endurtekur sig. Nú er það hæstv. ríkisstj. og málpípur hennar, sem grípa til Pótemkins ráðanna og tildra upp sífelldum leiktjöldum til að villa liðsmönnum sínum og þjóðinni sýn um aðgerðir sínar að því að bæta afkomu landsins. Ein síðustu leiktjöldin, sem eiga að sýna afrek hæstv. fjmrh., eru það, að það sé hans verk, að fengizt hefir þessi viðskiptajöfnuður við útlönd. Það er nú látið heita svo, að það hafi ekki áður þekkzt, að viðskiptajöfnuður hafi verið hagstæður, jafnvel í vondum árum.

Ég hefi þó ekki úr þeim Pótemkins herbúðum heyrt upp á síðkastið neitt sérstakt hrós um þá stj., sem sat að völdum í ársbyrjun 1933, og skilaði hún þó hagstæðum viðskiptajöfnuði, svo að útflutt vara var hálfri 11. millj. kr. hærri en innflutt árið á undan, og það þrátt fyrir það, þó að þáv. ríkisstj. tæki við undir þeim markaðshorfum út á við, að kjötmarkaðurinn var þá í bili raunverulega lokaður í aðalmarkaðslöndunum, bæði Bretlandi og Noregi. Söluhorfur með sjávarafurðir voru á þá lund, að saltfiskurinn var að komast niður undir 50 kr. skippundið, þegar þáv. stj. tók við völdum í júlíbyrjun 1932.

Þrátt fyrir þetta tókst þó eigi aðeins að opna aftur markaðinn fyrir landbúnaðarvörurnar, þótt lágur væri, heldur og með atbeina fisksölusambandsins að hækka fiskverðið, svo að útflutt vara varð 10½ millj. kr. meiri en innflutt. — Það sama ár gat Landsbankinn minnkað skuldir sínar við útlönd um 2 millj. kr. En hvað hafa skuldir bankanna við útlönd minnkað mikið á síðastl. ári? Hefir ekki aðstaða þeirra til útlanda versnað æði mikið á 2. millj. kr. síðastl. ár? En viðskiptajöfnuður bankanna segir ekki síður til um hina raunverulegu afkomu en inn- og útflutningsskýrslur.

Árið 1933 er hið eina ár, sem fyrrv. stj. ber fulla ábyrgð á, með því að það var hið eina heila ár, er hún sat að völdum. Það ár var viðskiptajöfnuðurinn við útlönd einnig hagstæður, og það nokkru betur en árið 1935, sem mikið hefir verið af gortað. Og þá hafði aðstaða bankanna gagnvart útlöndum einnig batnað. Á engu ári síðan 1928 hafa skuldir þjóðarinnar við útlönd minnkað eins mikið og það ár. Samkv. skýrslu hagstofunnar hafa erlendu skuldirnar 1933 minnkað um nær 4 millj. kr. að skráðu gengi, en nær 3 millj. kr. að gullgengi það ár, en samkv. útreikningi skipulagsnefndar atvinnumála í hinni stóru bók, sem nú er nýútkomin, hafa útlendu skuldirnar minnkað um 12? millj. kr. eftir „vörugengi“, sem hún svo kallar. Á engu öðru ári síðan 1922 hafa breyt. á erlendum skuldum þjóðarinnar verið hagstæðari en verzlunarjöfnuðurinn að „duldum“ greiðslum meðtöldum. Og þó tönnlast hæstv. fjmrh. stöðugt á því, að hagurinn sé stöðugt að batna fyrir sínar aðgerðir.

Þá þykir honum ekki lítil framförin í því, hve miklu minna sé nú eytt framyfir það, sem fjárlög gera ráð fyrir, en í tíð fyrrv. stj.

Um rekstrarafkomu ríkissjóðs á því ári (1933) er til óvefengjanlegt plagg sem er landsreikningurinn fyrir það ár, sem sýnir 62 þús. kr. betri afkomu en fjárl. það ár gerðu ráð fyrir. — En bráðabirgðayfirlit hæstv. fjmrh. í fyrra sýndi, að þrátt fyrir hinar gífurlegu skattahækkanir og þrátt fyrir hinn gífurlega óvænta áfengisgróða stj., þar sem hún seldi vin fyrir meira en sem svarar landverði allra jarða í 5 sýslum landsins, þá varð rekstrarútkoman samt 150 þús. kr. lakari en gert var ráð fyrir í fjárl. fyrir það ár, og hefir orðið enn lakari á síðastl, ári. Þó eru ekki, eins og vita má, nærri öll útgjöld komin fram, þegar bráðabirgðayfirlitið er samið. Þó var á árinu 1935 fært miklu meira af útgjöldum þess árs aftur fyrir sig á reikning ársins á undan en venja hefir nokkru sinni verið áður. Venjan er að loka reikningi hvers árs hjá ríkissjóði í marz næsta ár á eftir, en 1935 var sá háttur á hafður, að verið var að færa útgjöld inn á reikning ársins á undan fram á hásumar, og nemur síðasta upphæðin, sem þannig er ranglega færð á reikning ársins á undan, mörgum tugum þúsunda. Á þennan hátt tókst núv. hæstv. ríkisstj. að láta bráðabirgðayfirlitið fyrir árið 1935 líta betur út, en reikningur ársins 1934 varð auðvitað þeim mun óhagstæðari. Þetta gerði núv. ríkisstj., vegna þess að hún tók fyrst við völdum í júlí 1934, og þóttist hún því sjá leik á borði að kenna fyrrv. stj. um allan greiðsluhalla á því ári. En af áðursögðu er ljóst, að núv. hæstv. ríkisstj. verður að bera sinn hluta af ábyrgðinni á afkomu ársins 1934, þar sem hún sat ekki aðeins um helming þess árs sjálf að völdum, heldur notaði sér óvenjulegt og villandi reikningsuppgjör til þess að gera útkomu ársins 1934 lakari en hún í raun og veru var, til þess að geta heldur fegrað sínar fjaðrir á næsta ári á eftir.

Þegar núv. hæstv. ríkisstj. er að reyna að koma af sér sínum hluta ábyrgðarinnar á árinu 1934 og fegra sínar fjaðrir síðan með því, að bera sig saman við það ár, þá er skotið framhjá marki. Það er auðvitað aðeins einn þátturinn í því Pótemkinsleiktjaldatildri, sem núv. hæstv. ríkisstj. reynir að villa mönnum sýn með, ef unnt væri með því að bjarga sér í augum fjöldans.

Sama er að segja um viðskiptajöfnuð þessa síðastl. árs. Hann er að vísu hagstæður, en hann er 4 millj. kr. óhagstæðari en árið 1932. En hvernig er þessi hagstæði viðskiptajöfnuður til kominn? — Hann er ekki því að þakka, að innflutningsnefndin hafi ekki veitt leyfin. Hún hefir veitt innflutningsleyfi fyrir miklu meira en inn var flutt. Viðskiptajöfnuðurinn er þannig til kominn, að bankarnir sáu sér ekki fært að yfirfæra meiri gjaldeyri fyrir nauðsynlegum innkaupum á síðari hluta ársins. Aðstaða bankanna gagnvart útlöndum hefir versnað á síðastl. ári, eins og hagtíðindin bera vott um. Þjóðin stóð því gagnvart útlöndum eins og maður, sem fær ekki meiri úttekt í viðskiptareikning sinn fyrr en eftir ársuppgjörið um nýjár.

Þeir, sem eru miðaldra menn og meira, þeir muna þá dagana, þegar útlenda selstöðuverzlunin neitaði fátækum bændum um alla úttekt síðustu mánuði ársins, af því að skuldin mátti ekki hækka meir fyrir nýjárið, en lét svo sömu bændur fá vörur með hækkuðu verði eftir nýjár. Við þessa sömu aðstöðu hefir þjóðin búið síðustu mánuði næstl. árs; hún gat ekki fengið meira út í útlendu búðinni, þ. e. a. s., það var ekki hægt að yfirfæra fyrir meiri innflutningi fyrr en eftir nýjár, og það þrátt fyrir það þó að ríkisstj. hefði selt heilt herskip úr landi, sem bætir þó viðskiptajöfnuðinn um mörg hundruð þús. kr., þó að það færi ekki fyrir helming kostnaðarverðs, en ríkisstj. hefir, eins og hæstv. fjmrh. upplýsti, eytt öllu andvirði þessa herskips með því að taka það að láni úr landhelgissjóði. Vegna þess að ekki var hægt að yfirfæra meiri gjaldeyri, verður þjóðin að sæta hækkaða verðinu eftir nýjárið, eins og fátæki bóndinn í gamla daga. Með þessu móti varð viðskiptajöfnuðurinn síðastl. ár hagstæður á pappírnum, þó að sýnilega vanti 2 millj. a. m. k. til þess, að greiðslujöfnuður við útlönd hafi náðzt, eins og líka viðskiptajöfnuður bankanna erlendis ber vott um. Þess vegna verður það undarlega fyrirbrigði, að innflutningurinn er stórum mun minni en sem nemur þeim innflutningsleyfum, sem innflutningsnefndin hefir veitt.

Hæstv. fjmrh. hefir alveg sérstakt lag á því að búa til á sjálfan sig dyggðir úr vesaldóminum. Þegar Hambrosbanki í Lundúnum bannaði honum að taka meiri lán og setti það sem skilyrði fyrir síðustu lántöku, að hann lofaði því skriflega, að hann stæði við það, þá tekur hæstv. fjmrh. að hrósa sér fyrir það hástöfum, að nú hafi ríkisstj. algerlega breytt um stefnu. Þegar hæstv. fjmrh. fór sjálfur til Bretlands og talaði við brezkan bankamann, þá bar hann ekki verr hryggbrotið en það, að þegar hann er kominn heim, lætur hann skrifa um sig, að nú hafi ríkisstj. tekizt að koma í veg fyrir alla skuldasöfnun erlendis. Og þegar innflutningurinn verður verulegum mun minni en útflutningurinn, af því að ekki var hægt að yfirfæra meira og þjóðin fékk ekki meiri úttekt í útlöndum fyrr en eftir nýjársuppgjörið, þá ræður hæstv. fjmrh. sér ekki fyrir monti, af því að þetta sé sér að þakka og innflutningsnefnd. En hvernig hefði útkoman orðið, ef bankarnir hefðu yfirfært fyrir öllum þeim innflutningsleyfum, sem innflutningsnefndin hefir veitt? Það er upplýst, að ef innflutningsleyfin hefðu að fullu verið notuð, þá hefði viðskiptajöfnuðurinn orðið óhagstæður um álíka margar millj. og árið 1934. Það eru því hrein Pótemkinsleiktjöld, sem verið er að villa fólki sýn með, þegar hinn hagstæði viðskiptajöfnuður er þakkaður hæstv. fjmrh. og innflutningsnefnd hans. Að útflutningurinn varð í meðallagi þrátt fyrir fiskileysi að vetrinum, var að þakka hinum óhemju síldarafla; en það mun nú álíka smekklegt að þakka hæstv. fjmrh. fyrir hann eins og þegar kónginum var þakkað fyrir góða veðrið í gamla daga.

Ég efast ekki um, að innflutningsnefnd hafi neitað um leyfi fyrir ýmiskonar óþarfa, og hún má hafa mína þökk fyrir það. En hún hefir ekki neitað um eða takmarkað innflutning á skaðlegasta óþarfanum, þar sem vínið er. Ríkisstj. hefir hennar vegna enn getað selt brennivín og annað áfengi fyrir landverð 5 sýslna, eins og síðastl. ár. Ríkisstj. hefir hennar vegna getað komið vinunum þangað, sem helzt var atvinnan og hinum vinnandi landslýð bárust helzt peningar í hendur fyrir störf sín. Hún hamlaði ekki ríkisstj. frá að selja fólkinu, sem fór til Siglufjarðar, áfengi, sem nam yfir bezta bjargræðistímann á 2. þús. kr. að meðaltali á dag af þeim vinnupeningum, sem sjálfsagt hefði verið full þörf fyrir, þegar heim kom og harðnaði á með haustinu.

Ég veit, að hæstv. fjmrh. talar hér á eftir og segir, að vín séu leyfileg vara skv. landslögum og því megi ekki takmarka þau. En ég vil spyrja: Er ekki t. d. þakjárnið líka leyfileg vara að lögum? Og mátti þá ekki takmarka innflutning á víni eins og á því, úr því að nauðsyn þótti að takmarka svo innflutning á því, að þegar þökin voru að fjúka af hlöðunum í ofveðrinu í sept. síðastl., þá var a. m. k. í einu héraði ekki nokkur þakplata fáanleg í allri sýslunni? Ekki er því þó hægt við að bera, að við höfum neyðzt til að kaupa vín af Spánverjum, því að þeir hafa lítið keypt af oss síðastl. ár, eins og allir vita; við höfum keypt nær 30% meira af þeim en þeir af okkur síðastl. ár. Minnst af sterku vínunum mun og vera keypt frá Suðurlöndum.

Það þarf ekki annað en að líta í suma búðargluggana hér í Rvík til að sjá, að enn er nóg flutt inn af sumum óþarfanum. Og það þarf ekki annað en að tala við suma iðnaðarmennina hér í Rvík, sem ekki hafa getað fengið leyfi hjá innflutningsnefnd fyrir nema helmingi þess, sem þeir þurftu til starfs síns, en hafa hinsvegar oft getað keypt sér nægileg innflutningsleyfi af öðrum, til þess að sjá, hve innflutningsnefndinni hafa verið tilfinnanlega mislagðar hendur, því að það var þó ekki tilgangurinn með innflutningsnefndinni, að skapa sérstaka atvinnugrein fyrir milliliði í innflutningsleyfum. Á þennan hátt er sýnilegt, að innflutningsnefndin missir allt taumhald á innflutningnum, þegar innflutningsleyfin ganga kaupum og sölum frá einum til annars, og nefndin getur ekkert vitað um, hvar leyfin lenda að síðustu. Þetta hefir líka sýnilega orðið svo síðastl. ár, þar sem innflutningur hefir verið leyfður fyrir stórum meira en bankarnir gátu yfirfært. Er þetta þeim mun óafsakanlegra, sem innflutningsnefndin hafði brennt sig á þessu sama soði í fyrra, þegar vörur, sem innflutnings- og gjaldeyrisleyfi var fengið fyrir, voru settar fastar á skipaafgreiðslunum hér í Rvík af sömu ástæðu, til stórhnekkis fyrir viðskiptatraust Íslendinga erlendis. Það leiðir af sjálfu sér, að þegar innflutningsnefnd heldur ekki betur á en þetta og skapar nýja milliliði, sem hún hefir ekkert vald yfir, þá gengur þetta að meira eða minna leyti út yfir nauðsynjavörurnar, sem hafa verið að hækka í verði síðan í haust. Þetta varð og átakanlega okkar hlutskipti á síðustu mánuðum ársins. Menn gátu ekki keypt útgerðarvörurnar fyrir áramót eins og þeir þurftu. Menn gátu ekki einu sinni byrgt sig að kolum til útgerðarinnar, þó að þau væru síhækkandi og séu nú þegar hækkuð um 20%. Og við gátum ekki dregið nema það allra minnsta að okkur af þeim nauðsynjum, sem nú hafa stigið á erlendum markaði, sumar jafnvel 50–60%. Rúgmjöl hefir stigið á erlendum markaði um 56%, miðað við fobsölu, sykur um 25% og kaffi um 37% frá því í september. Hverju ætli það muni alla þjóðina, að þurfa nú að kaupa með hækkaða verðinu, móts við það, ef hún hefði getað fengið út meiri vetrarforða í haustkauptíð, en ekki þurft að bíða fram yfir uppgjörið um nýjár? Hverju ætli það muni alla þjóðina á okkar daglega brauðefni, rúgmjölinu, sem hefir hækkað um 56%? — Ætli það hefði ekki verið eins gott að takmarka eitthvað innflutninginn á víninu, sem flutt var norður í beztu vinnustöð landsins í sumar og selt þar fólkinu jafnóðum og það vann sér eitthvað inn? Og ætli það hefði ekki líka mátt takmarka eitthvað leyfin til þeirra, sem seldu þau aftur? Ætli það hefði ekki líka mátt takmarka eitthvað innflutning á tóbaki og margvíslegum óþarfa sem hér sést í búðum, til þess að ögn væri hægt að draga meira að sér af því óhjákvæmilega og allra nauðsynlegasta, sem var að hækka í verði með haustinu og nú hefir stórum hækkað?

Bóndi einn skrifar mér fyrir skemmstu, að í kaupfélaginu, sem hann verzlar við, hafi mjöltunnan hækkað um þriðjung. Hann þarf ekki að ásaka kaupfélagið sitt fyrir það, því að það hefir sjálfsagt ekki fengið að flytja inn vöruna, fyrr en verðið var hækkað, en hann getur minnzt hæstv. fjmrh. fyrir það, að hann hefir eytt óskertum sínum hluta af hinum dýrmæta gjaldeyri landsmanna í tóbak og áfengi, þegar meiri var þörfin að draga að sér hinar óhjákvæmilegustu nauðsynjavörur, er þær fóru að hækka í verði erlendis.

Að hagur þjóðarinnar sé að batna, það sýna útlendu skuldirnar. Þær komust aftur niður í 74 millj. kr. árið 1933, en eru nú skv. skýrslu skipulagsnefndar atvinnumála orðnar fullar 100 millj. kr. Að hæstv. ríkisstj. sé að hefja viðreisn, það eru bara leiktjöld, sem hún og gæðingar hennar tildra upp.

Ein leiktjöldin, sem þessi Pótemkinstjórn tildrar upp í fjarska fyrir landsfólkinu, er það, að hún sé að uppfylla loforðin fyrir kosningar um að útrýma atvinnuleysinu. En þessi leiktjöld henta nú bezt í fjarska meðal þeirra, sem ekkert þekkja til atvinnuleysisins í kaupstöðunum. Þeir, sem vilja kynnast raunveruleikanum, geta lesið atvinnuleysisskýrslurnar. 1. maí síðastl. voru atvinnuleysingjarnir hér í Rvík orðnir 720; þeim hafði fjölgað um 530 manns frá því 1. maí 1934, þegar ástandið átti að vera sem voðalegast, en þá voru þeir 190. Og enn hefir þeim fjölgað. Við síðustu talningu voru þeir komnir upp í 936 hér í Rvík einni saman. Hvað þeir eru í hinum kaupstöðunum, vantar mig skýrslur um, en ef marka má þær fréttir, sem útvarpið flutti nýlega um ástandið í þorpi einu á Vestfjörðum, þar sem loka varð skóla og kirkju vegna eldsneytisvandræða og þar sem fólkinu lá við sulti af skorti, þá virðist svo sem atvinnuleysinu sé þar ekki með öllu útrýmt. Það skartar að vísu allvel svona á leiktjöldum, að kalla sig stjórn hinna vinnandi stétta, en það er ekki gagn að einu saman skrautinu, þegar staðreyndirnar eru hinsvegar, og þær segja vissulega annað.

Þá skal vikið að því fjárlfrv., sem hér liggur fyrir. Eins og menn vita, hafa útgjaldaáætlanir fjárl. farið síhækkandi í tíð núv. hæstv. stj., og nú nemur útgjaldaáætlun á sjóðsyfirliti nær hálfri 17. millj. kr.

Þessi hækkun hefir að miklu leyti verið varin með því, að áríðandi væri að áætla útgjöldin nógu hátt, til þess að eigi yrðu umframgreiðslur framyfir það, sem stæði í fjárl. — En reynslan sýnir, að það hafa orðið umframgreiðslur fyrir því, þó að fjárl. væru hærri en áður gerðist. T. d. námu umframgreiðslur á árinu 1935 á 3. millj. kr. þrátt fyrir hin háu fjárl., og nú heyrðist manni, að bráðabirgðayfirlitið kæmi ekki nákvæmlega heim við fjárl, síðasta ár. Nú gerir hæstv. fjmrh. enn ráð fyrir hækkuðum útgjöldum á fjárl. Ætla mætti, að mestur hluti þeirrar hækkunar kæmi þá fram í auknum framlögum til atvinnuveganna og verklegra framkvæmda, en það er síður en svo.

Ég skal aðeins drepa á nokkra liði viðvíkjandi landbúnaðinum og verklegum framkvæmdum í sveitum til að sýna þetta. Eins og menu muna, felldi hæstv. stj. niður lögbundið framlag til ræktunarsjóðs 45 þús. kr. Þetta hefir ekki verið lagfært. Hún lækkaði lögboðið framlag til búfjárræktarinnar um 10 þús. kr. Þetta hefir ekki verið lagfært. Hún lækkaði framlög til sandgræðslu um 13 þús. kr., og það hefir ekki heldur verið lagfært. Hún lækkaði framlag til sýsluvegasjóðanna um ca. 50 þús. kr., og nú á enn að vega í þann knérunn. Þá lækkaði hún framlagið til áburðarkaupa niður í þriðjung þess, sem áður var, og hún lækkaði framlagið til Búnaðarfélags Íslands og búnaðarsambandanna um 20 þús. kr. Ekkert af þessu hefir verið lagfært á því fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir. En í þess stað eru í þessu frv. færð niður framlög ríkissjóðs til ýmsra framkvæmda í sveitum. T. d. hefir framlagið til sýsluveganna enn verið lækkað um 22 þús. kr. Framlagið til brúargerða er lækkað um 20 þús. og framlagið til nýrra akvega á þjóðvegum landsins lækkað um 88 þús. kr. Hvað hefir þá hækkað? Ýmsir styrkir á 17. gr. hafa verið hækkaðir, og skal hér ekki um það rætt. Það sem stingur meira í augun, er hin mikla hækkun í skrifstofukostnaði og launagreiðslum til ýmsra starfsmanna, gamalla og nýrra, skv. nýútunguðum lögum og stjórnarráðstöfunum. Nema þær hækkanir aðeins á sjálfum fjárl. á milli 150 og 160 þús. kr. við lauslegan samanburð. Ofan á þetta er svo heimildin til að fjölga dómurum í hæstarétti, en í það munu fara um 20 þús. kr. árlega.

Um nýjar persónulegar launauppbætur ætla ég ekki að ræða; aðeins verður það að teljast óvenjulegt, að einn nýr embættismaður á að fá persónulega launaviðbót strax á fyrsta ári, áður en reynsla er fengin, og það þó að embættisveitingin þætti mjög orka tvímælis og væri beinlínis gegn áskorunum bæjarstjórna og hreppsnefnda, sem mannsins áttu að njóta, og alþýðu manna víðsvegar af landinu. En það eru ekki launagreiðslur til hinna föstu starfsmanna á launalögum, sem mest stinga í augun, heldur eru það launagreiðslurnar og starfsmannafjöldinn í hinum nýrri stofnunum ríkisins. Kostnaður við útvarpið er nú með áætlaðri fyrningu á 5. hundr. þús., þó að vextir og afborganir komi ekki til greina, enda virðist svo sem sumum sé þar vel borgað lítið starf. Áfengisverzlunin hér í Rvík hefir 37 manns í sinni þjónustu og greiðir þeim 140 þús. kr. í laun, þar af eru ýmsu „lausafólki“, sem fjárlögin svo kalla, greiddar 25 þús. kr. Það er yfir 40 þús. kr. hærra en laun allra sýslumanna og bæjarfógeta á landinu. Innflutningsnefndin og starfslið hennar fær rúmar 74 þús. í laun; það eru að vísu 18 menn, að riturum og vélriturum meðtöldum, en þessi laun samsvara líka sem næst öllum ríkissjóðslaunum 137 barnakennara í lægsta launaflokki. Hin nýja tryggingarstofnun ríkisins fer nú þegar með sömu laun og 10 sýslumenn og bæjarfógetar. Fiskimálanefnd þarf með aðstoðarmönnum milli 60 og 70 þús. í laun fyrir utan annan kostnað, og síldarútvegsnefndin er þar hálfdrættingur. Bifreiða- og raftækjaeinkasölurnar komast hér ekki af með minna en 80 þús. kr. í laun. Og ein landsins minnsta stofnun, sem sett var á laggirnar nú síðastl. sumar, þarf nú þegar ekki minna en 25600 kr. í laun og annað eins í annan kostnað. Það er svonefnd Ferðamannaskrifstofa ríkisins. Hún hefir að vísu ekki nema 4 starfsmenn, forstjóra, „landkynni“, ef ég kann að nefna það, og svo skrifstofustjóra og bréfritara, en þeir 4 hafa sömu laun og allir kennarar Eiðaskóla, Hólaskóla og Hvanneyrarskóla, að skólastjóralaununum og bústjórnarlaununum meðtöldum öllum til samans.

Ef maður tæki nú í eitt félag þessi tvö yngstu reifabörn hæstv. ríkisstj., ferðamannaskrifstofuna og raftækjaeinkasöluna, og bætti svo við aðeins þessum 5 nefndum, sem skýrslan er um, aftan við fjárl., þá eru þar á forum nýir launamenn upp á 322 þús. kr., eða rétt um 50 þús. kr. dýrari menn en allir kennarar háskólans, menntaskólans í Rvík og menntaskólans á Akureyri, stýrimannaskólans, vélstjóraskólans, Eiðaskólans og bændaskólanna beggja, að öllum skólastjórum meðtöldum til samans, og þó hafa ýmsir þessara manna bein og bitlinga og heil embætti þar fyrir utan. En þess er líka að gæta, að í þessum og því líkum nýlaunamannaflokki eru mennirnir, sem eru ánægðir með núv. hæstv. ríkisstj., menn sem hæstv. stj. getur notað til að reisa upp leiktjöldin að hætti Pótemkins, menn sem hæstv. ríkisstj. getur flutt á milli og sýnt, hvar sem er á landinu eins og Pótemkin, þegar hún vill sýna drottningu sinni, þjóðinni, hve vel hún haldi þegna sína og láti sér annt um ríki sitt.