15.03.1937
Neðri deild: 19. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

13. mál, Kreppulánasjóður

*Jónas Guðmundsson:

Ég skil, að þetta sjónarmið hefir vakað fyrir till.mönnum. En ég vil benda á, að í tilefni af auglýsingum sjóðsstjórnarinnar hafa 82 sveitarfélög sótt um lán, auk kaupstaðanna, og frá nokkrum öðrum hafa komið fram beiðnir um að gera upp einstök lán þeirra, svo sem sveitarskuldir, og ennfremur um að gera upp þær sérstöku skuldir, sem ég hefi nefnt, nefnilega vegna sjúkrahúsa og skýla, og öllum hv. þm. er kunnugt, að mikil þörf er á að gera upp þau lán. Ef ætti í þeim efnum að halda sér aðeins við umsóknirnar, eru þær aðeins þrjár, sem fyrir liggja þess eðlis. Í fjárlfrv. 1938 er gert ráð fyrir nokkurri upphæð til afborgunar lána vegna vissrar tegundar sjúkrahúsa, og það má búast við, að fleiri komi á eftir. (BJ: Það eru læknisbústaðir). En það er ákaflega skylt, því þessir læknisbústaðir hafa víða verið byggðir sem sjúkraskýli jafnframt og notaðir þannig. Ef ætti að halda sér við þær umsóknir, sem fyrir liggja, þá hafa ekki komið umsóknir nema fyrir sjúkrahúsin í Hafnarfirði og á Húsavík, en ég álít, að svo mikið fé sé fyrir hendi, að það geri betur en að fullnægja þessum tveimur beiðnum. Því álít ég rétt, að stjórn sjóðsins hafi heimild til að sinna fleiri slíkum umsóknum. Mér dettur vitanlega ekki í hug að farið verði að framkvæma samskonar skuldaskil og síðastl. ár, en ég vildi, að ekki væri útilokað, að hægt væri að bæta við nýjum lánum, ef fé væri fyrir hendi, og því held ég, að óhætt sé að láta brtt. mína standa.

Hv. þm. Barð. talaði um, að komið gæti fyrir, að 50 sveitarfélög sæktu um lán, er ekki hefðu sótt um það áður, og þá yrði sennilega ekki hægt að gera nema helmingi þeirra úrlausn. En ég held, að það þurfi alls ekki að búast við svo mörgum umsóknum, því þetta hefir áður verið auglýst, og þau sveitarfélög, sem ekki hafa sótt um lán, hafa þó átt þess kost. Ég geri því ekki ráð fyrir, að hér kæmu til mála annað en viðbótarlán og svo lán vegna skulda, sem nýmyndaðar eru.