24.02.1937
Neðri deild: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í C-deild Alþingistíðinda. (1487)

25. mál, alþýðutryggingar

*Flm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Ég gat ekki um það í flutningsræðu minni, að vera mundi í undirbúningi hjá ríkisstjórninni eða á vegum hennar frv. til breytinga á tryggingalöggjöfinni, enda þótt ég ætti þess nokkra von, að svo mundi vera, og vildi ég mega vona, að það gengi í líka átt og frv. það, er hér liggur fyrir.

Það er nú komið í ljós, þótt ekki sé langt liðið á þingið, að fulllangur dráttur ætli að verða á þessu máli frá hendi stjórnarinnar eða tryggingarstjóra. Það virðist ætla að verða eins með þessa stofnun og sumar aðrar þessar nýju ríkisstofnanir, að þó þar sýnist vera nógur mannskapur að starfi, þá ganga verkin ekki vel að sama skapi. Ennþá er ekki farið að greiða úr lífeyrissjóði það fé, sem greiða ber eftir þeim skýrslum, sem sveitarstjórnir hafa verið krafðar um og þær sendu stofnuninni síðastliðið haust. Hvað veldur? Hvað dvelur tillögin frá lífeyrissjóði? Hvers vegna fær almenningur ekki þau hlunnindi, sem hann á heimtingu á? Sveitastjórnirnar hafa lagt fram þær skýrslur, sem þær voru krafðar um, og þær hafa tilkynnt greiðslur hreppanna, sem tillög lífeyrissjóðs á að leggjast á móti, en ekki á að útborgast til gamalmennanna, fyrr en tillagið úr lífeyrissjóði er komið í hvern hrepp. Þetta verða þó hrepparnir að gera, því að fólkið getur ekki beðið, og svo er enn óvíst, hvort tillag lífeyrissjóðs verður jafnhátt tillögum hreppanna, því að ekkert kemur frá lífeyrissjóði, hvað sem veldur. Það er að sjá, að hér fylgist fyllilega að form og framkvæmd. Hæstv. ráðh. hefir ekkert fram að bera í þessu máli nema einhverjar till. frá tryggingarstofnuninni. Það er að heyra svo, að hann sé ekki mikið inni í málinu; hann segir, að l. hafi ekki haft í för með sér neina gjaldahækkun úti um sveitirnar. Það er dálítið hart, að hæstv. ráðh. skuli ekki fylgjast betur með í þessu efni. Það væri í sjálfu sér ekki svo alvarlegt, þótt óánægja ríkti í einu kjördæmi út af þessum l., en hún er miklu almennari. Óánægjan er um allt land. Það mætti spyrja hvern af hv. þm. sem er; allir hafa sömu sögu að segja úr sínum kjördæmum. Ef þeir vildu segja satt, þá gætu þeir ekki annað en viðurkennt það, að almenningur stynur undir þessum gjöldum, sem hæstv. ráðh. heldur, að ekkert hafi hækkað. Og þó eru þau nú 5 kr. á hverja einustu manneskju, en voru áður 3 kr. fyrir karla og 1,50 kr. fyrir konur. Þetta er gífurleg hækkun, og það er ekki óþekkt fyrirbrigði, eins og ég tók áðan fram, að gjöld þessi yfirgnæfi sumsstaðar alla aðra skatta, og verði jafnvel margföld við þá. En hæstv. ráðh. hefir sýnilega ekki kynnt sér þetta atriði og ber ekki sérlega mikla umhyggju fyrir þessari alþýðu, sem hann þykist vera ráðh. fyrir, ef hann heldur, að það sé í hæsta lagi óánægja með þessi lög í einu kjördæmi. En úr því hæstv. ráðh. vefengir þetta, vil ég benda honum á að fara um landið og kynna sér þetta, og hann mun komast að raun um, að þetta er svona, og það er síður en svo, að það sé flokksmál. Það er nú svo, að þegar komið er að þröskuldi hvers manns og hann krafinn um að borga fyrir einhver hlunnindi, sem hann sér, að ekki eru nein hlunnindi, eða koma a. m. k. ekki í bráð, þá er eðlilegt, að menn kveinki sér undan slíku. En það er þetta, sem þeir vara sig ekki á, að þótt takist að leggja á tolla, sem alþýðuflokksmenn telja svívirðileg gjöld, þá kveinkar alþýðan sér, þegar komið er við hana eins og með þessum lögum.

Ég hefi alltaf gengið út frá því sem gefnu, að við það, að gjöldin til ellitrygginganna lækka, þá rýrni þær tekjur, sem tryggingarnar hafa.

Þegar svo hæstv. ráðh. spyr, hvar eigi að taka fé til þess að mæta þeirri rýrnun, þá er tvennt til, hvorutveggja getur komið til greina. Þegar menn vilja og geta ekki staðizt slíkar álögur, þá verða tekjurnar að rýrna, og það, sem koma átti á móti, verður að rýrna líka. Ég þori að fullyrða, að almenningur kýs það heldur. En hitt er, að til þess að mæta þessari rýrnun komi tillag frá ríkissjóði.

Ég sé nú þrátt fyrir allt, að hæstv. ráðh. er í svo miklum vanda í þessu máli, að hann hefir fengið tvo samherja sína til þess að tala við út af þessu máli. En upp úr þessum „conference“ mætti ætla, að hann gæti svarað einhverju af þeim rökstuddu fullyrðingum, sem ég hefi borið fram.