24.02.1937
Neðri deild: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í C-deild Alþingistíðinda. (1488)

25. mál, alþýðutryggingar

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. þm. V.-Sk. kvað mig hafa sagt rangt frá þeirri gjaldahækkun, sem orðið hefði á almenningi vegna alþýðutryggingalaganna. — Ég sagði, að hækkun á gjöldum karlmanna hefði orðið úr 3 kr. upp í kr. 5,00, en gjöld kvenna voru lægri; það vissu allir hv. þm., og þurfti því ekki að taka það fram. Hinsvegar kemur mér ókunnuglega fyrir sjónir það, sem hv. þm. sagði, að stj. bæri að álasa fyrir það, að ekkert væri búið að greiða út af tillagi lífeyrissjóðs í ár. Þetta er fjarri öllum sanni. Hvert einasta hrepps- og bæjarfélag, sem óskaði eftir að fá greitt fé úr sjóðnum, fékk það eftir þeim skýrslum, sem fyrir lágu, og áhættulaust þótti að greiða út. En skýrslur um heildarframlag voru ekki komnar fyrr en um miðjan febrúar, svo að ekki var hægt að ákveða hlutfallslega greiðslu úr lífeyrissjóði á móti hreppunum. Þess vegna var ekki hægt að ákveða heildarframlag úr lífeyrissjóði á móti framlagi bæjar- og sveitasjóðanna. En eftir upplýsingum frá tryggingarstjórn lætur nærri, að hlutfallið verði um 75% á móti því, sem sveitar- og bæjarfélögin hafa lagt fram. Meira hefir verið lagt fram til ellilauna af hálfu bæjar- og sveitarfélaga heldur en nemur framlagi lífeyrissjóðs, og er ekki nema gott um það að segja. Hinsvegar hafa orðið mjög leiðinleg mistök á framkvæmd þessara laga, þar sem borið hefir á tilhneigingu hjá sveitar- og bæjarfélögum til að létta af sér fátækraframfærslunni, sem ekki snertir það efni, sem lögin fjalla um, með því að fá styrk úr lífeyrissjóði á móts við það, sem kallað er fátækraframfærsla.

Um innheimtu lífeyrissjóðsgjaldanna er ekki hægt að segja með fullri vissu ennþá, en það er enginn vafi, að það, sem lífeyrissjóði hefir borið að greiða, hefir verið greitt, þegar um hefir verið beðið og fullnægjandi skýrslur hafa legið fyrir hendi.