24.02.1937
Neðri deild: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í C-deild Alþingistíðinda. (1489)

25. mál, alþýðutryggingar

*Stefán Jóh. Stefánsson:

Enda þótt ég geri ráð fyrir, að ég fái sem mn. í allshn. að fjalla um þetta mál, þá finnst mér, að ég verði að gefnu tilefni, bæði í framsöguræðu hv. þm. Sk. og í grg. frv., að láta nokkur almenn orð fylgja þessu máli, áður en það fer til n.

Það er uppistaðan í grg. og ræðu hv. þm. V.-Sk., að þessi lög hafi strax í upphafi orðið svo illræmd, að slíks séu fádæmi um nokkra aðra

lagasetningu, og að þau í annan stað hefðu verið svo illa undirbúin, að með eindæmum væri. Hvorutveggja þetta er gripið úr lausu lofti. Ég þykist þess fullviss af nokkurri kynningu, sem ég hefi haft af þessu máli, að lögin séu síður en svo óvinsæl, jafnvel þótt menn finni á þeim ýmsa galla. Ég hefi átt kost á að hlusta á umr. um þetta mál milli fulltrúa verkamanna alstaðar að af landinu, sem voru á alþýðusambandsþinginu á síðastl. hausti. Þeir voru allir á einu máli um, að það hefði verið eitthvert mesta framfarasporið, sem stigið hefði verið með lagasetningu, þegar lögin um alþýðutryggingarnar voru sett. En hitt kom og í ljós í þessum umr., að margir fulltrúarnir höfðu sitt hvað út á lögin að setja, og töldu ýms ákvæði laganna þess eðlis, að þau þyrftu endurbóta við. En eins og hæstv. atvmrh. drap á áðan, þá var engum það betur ljóst en þeim, sem stóðu að þessari lagasetningu, að það mundi þurfa að breyta l., áður en langt liði. Það kom til af þeirri ástæðu, að hér var ráðizt inn á ný svið, sem voru óþekkt í íslenzkri löggjöf. Það var því gefið, að hvenær sem þessi lög vóru sett, og hversu mikill undirbúningur sem viðhafður hefði verið um setningu þeirra, þá hlaut reynslan að leiða það í ljós, að á þeim þyrfti að gera ýmsar breytingar. Það er nú svo um löggjafana og jafnvel hv. þm. V.-Sk., þó að hann sé fjölfróður og margvitur, þá á lífið fleiri tilbrigði til en hann og við, sem fáumst við löggjafarmálin, erum færir um að sjá á hverjum tíma, og ekki hvað sízt, þegar farið er inn á ný og óþekkt svið, eins og með þessi lög. Ég vil því mótmæla fyrir mitt leyti þessum fullyrðingum um óvinsældir laganna og slæman undirbúning.

Að öðru leyti þykir mér rétt í því sambandi að benda á það, að þegar að því er fundið, að alþýðutryggingalögin hafi verið lítið undirbúin, þá koma flm. þessa frv. fram með breytingar, sem voru þess eðlis, að það var sýnilegt, að þeir gerðu sér enga grein fyrir þeim afleiðingum, sem þær hefðu haft í för með sér. Ellitryggingaþátturinn í alþýðutryggingalögunum var byggður á útreikningum tryggingafræðingsins Brynjólfs Stefánssonar. Ellitryggingasjóðsgreiðslan og aldurstakmarkið var miðað við að koma á fullkomnum tryggingum, þegar stundir líða fram. Ellitryggingarnar voru byggðar á fræðimannlegri athugun þess manns, sem hafði sérþekkingu til að bera í þessu máli. En flm. þessa frv. gerbreyta út í loftið þeim grundvelli, sem lagður var með alþýðutryggingalögunum að því er snertir ellitryggingar. Þeir leggja sem sé til, að nefskatturinn verði lækkaður úr 7 kr. í 5 kr. og úr 5 kr. í 3 kr., og í öðru lagi, að gjald af skattskyldum tekjum greiðist aðeins ½% í staðinn fyrir 1%. Í þriðja lagi er lagt til, að iðgjaldagreiðsla á aldrinum 60–67 ára falli niður. Þetta er stórmikill tekjumissir fyrir ellitryggingarnar. En þar við er ekki látið sitja, því að lagt er til, að aldurstakmarkið til að fá ellilaun, verði fært úr 67 árum ofan í 65. Nú vil ég ekki segja, að þetta sé ekki æskilegt, — en því ekki að gera sér grein fyrir, hvernig það mundi verka, hvort hægt væri að framkvæma nokkrar ellitryggingar, ef þessu yrði breytt? Það er meginveilan hjá flm., sem eflaust hafa góðan vilja á því, að breyta lögunum í réttlátara horf frá þeirra sjónarmiði. Þeir gæta þess ekki, að ellitryggingarnar eru byggðar á fræðilegum grundvelli, sem þeir hugsa sér að breyta með nokkrum pennastrikum án þess að gera sér grein fyrir þeirri röskun, sem það mundi valda. Þess vegna kemur það illa við að segja, að alþýðutryggingarnar hafi verið illa undirbúnar, þegar þessir sömu menn koma með breytingar, sem sýnilega eru fluttar út í bláinn, svo að ekki sé sterkara að orði komizt.

Annars furðar mig á því, úr því að hv. flm. þessa frv. fóru að flytja breyt. við alþýðutryggingarlögin, að þeir skyldu ekki koma inn á það atriði, sem var höfuðágreiningsatriðið milli alþýðuflokksmanna og framsóknarmanna annarsvegar og fulltrúa Sjálfstfl. hinsvegar, sem var sjúkratryggingarnar. Fulltrúar Sjálfstfl., hv. þm. Snæf. og hv. 8. landsk., voru okkur sammála mn nauðsyn á setningu ellitryggingalaganna, en þeir vildu ekki koma á sjúkratryggingum og lögðu til, að þeim hl. laganna yrði frestað. En við sjúkratryggingunum hrófla ekki hv. flm. þessa frv., jafnvel þótt ástæða væri til að ætla af þeirri reynslu, sem fengin er, að þær þyrftu ekki hvað minnstrar athugunar við. Ég sé ekki ástæðu til á þessu stigi málsins að fara út í einstök atriði frv., en vildi ekki láta það fara í gegnum þessa umr. án þess að benda á þessi atriði. Hinsvegar mun það verða athugað í allshn. og þó að ég álíti, að frv., eins og það er, nái ekki nokkurri átt, mun ég samt greiða atkv. með því til 2. umr. Til allshn. munu koma fleiri breyt. við alþýðutryggingalögin og mun þá þetta frv., sem hér liggur fyrir, verða athugað í því sambandi.