25.02.1937
Neðri deild: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (1501)

26. mál, landaurar og verðlagsskrár

*Flm. (Jón Pálmason):

Ég get verið stuttorður um þetta frv., bæði vegna þess, að það lá fyrir á síðasta þingi, og í grg. frv. er tekið fram svo að segja aðaltilgangur þessa frv. Mér og öðrum hv. flm. er fullljóst, að það er brýn þörf, að hafa ákveðinn grundvöll til að styðjast við um það, hverjar raunverulegar breyt. eru á þeim verðmætum, sem framleiðsluhagur landsins byggist á, og hvernig breyt. eru frá ári til árs, en eins og nú standa sakir, er fyrirkomulag á samningu verðlagsskrár Íslendinga þannig, að hún gefur ekki rétta mynd af því, sem henni er ætlað að gefa.

Þetta frv. stefnir í þá átt, að tryggja öruggari grundvöll í þessum efnum, og er leitazt við að ná því takmarki, að þetta verði miklu meira notað í viðskiptalífinu heldur en gert hefir verið nú á síðustu árum, síðan farið var að miða allt við peninga, án alls tillits til þess sambands, sem á hverjum tíma hlýtur að vera á milli framleiðsluvara landsins og annars í viðskiptalífi landsmanna.

Ég sé ekki ástæðu, ef engin andmæli koma fram við 1. umr. gegn þessu frv., að fara nánar út í málið, en legg til, að því verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og fjhn.