25.02.1937
Neðri deild: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (1510)

28. mál, viðgerðir á skipum

*Ólafur Thors:

Aðeins nokkur orð út af ræðu hv. þm. Hafnf. Mér þótti nokkuð bera á því hjá honum, sem ég hefi reyndar áður veitt athygli, að það muni vera ofarlega í hans huga að verða framarlega eða helzt fyrstur að marki í því kapphlaupi, sem háð er af sumum mönnum um það, að vera sem ljúfastir í orðum í garð iðnaðarins, hvað sem líðum gerðunum. Hann kvað mig hafa sagt, að sjávarútveginum hafi verið mjög íþyngt vegna fríðinda til handa iðnaðinum. Ég sagði reyndar, að ráðstafanir, sem gerðar hafa verið iðnaðinum til framdráttar og ég tel í sjálfu sér góðar, hafi íþyngt sjávarútveginum. Í fyrsta lagi með því, að sjávarútvegurinn er neyddur til að kaupa nokkuð af sinni notaþörf hérlendis, án þess að geta leitað samkeppnitilboða erlendis, því að það er bannað með gjaldeyrisráðstöfunum til verndar innlendum iðnaði. Mér er a. m. k. sagt, af útvegsmönnum í mínu kjördæmi, og ég held, að sama sé álit útvegsmanna á Akranesi, í Vestmannaeyjum og líklega um allt land, að það sé, að heita má, ómögulegt að fá fluttar inn línur og net, en þessar vörur er hægt að kaupa allmiklu ódýrar erlendis en hér á landi. Og ég man, að á þingi því, er útvegsmenn áttu með sér í fyrravetur, var ein aðaltill. sú, að þeim væri ekki meinað að kaupa net og línur frá útlöndum. — Þetta var eitt sjónarmiðið.

En ég get dregið fram annað sjónarmið. Ef aukning íslenzks iðnaðar færir með sér aukna dýrtíð í landinu, sem líklegt er, að ekki verði hjá komizt, og allir eru víst reiðubúnir að horfast í augu við að vissu marki, þá hlýtur þetta vitaskuld að lenda að miklu leyti á sjávarútveginum. Og það eru fleiri stoðir en iðnaðurinn einn, sem renna undir atvinnulíf landsins. Eftir því sem fólkið þarf að kaupa vörur sínar dýrara verði, eftir því aukast kröfurnar á hendur útveginum.

Í þriðja lagi ber að athuga það, að er við förum að búa til margar vörutegundir, sem við höfum ekki áður framleitt, þá þýðir það, að við getum minna selt af þeim vörum, sem við höfum hingað til framleitt fyrir erlendan markað. Er því mikil ástæða fyrir Íslendinga, sem hafa framfleytt sér á sölu til útlanda, að hafa hugfast það sjónarmið, að hver sú vara, sem framleidd er innanlands handa landsins börnum, dregur úr sölumöguleikum á útflutningsvörum okkar. Menn hafa haft of einhliða sjónarmið gagnvart eflingu innlends iðnaðar. Það er auðvitað gott að vilja efla slíkan atvinnurekstur, en afleiðingar þess hafa þó enn ekki verið skoðaðar ofan í kjölinn. Verð ég því að vara við að leggja stöðugt meiri og meiri viðjar á útveginn, auk þess sem allar framkvæmdir eru stöðvaðar, þar sem það er að koma í ljós, að þjóðin mun súpa seyðið af þeirri stefnu.