25.02.1937
Neðri deild: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í C-deild Alþingistíðinda. (1516)

29. mál, talstöðvar í skipum

*Flm. (Páll Þorbjörnsson):

Það er löngu orðið viðurkennt, að tæplega verður kosið á öllu heppilegra öryggistæki fyrir mótorbáta heldur en talstöðvar. A. m. k. er ekki kunnugt um tæki, sem eru jafn kostnaðarlítil, en veita þó jafnmikið öryggi eins og þessar talstöðvar. Nú er það ekki svo, að þessi tæki séu eingöngu öryggistæki í bátum, heldur veita þau ýmsan stuðning við fiskveiðarnar, sem bezt má marka af því, að það þykir nú tæplega gerlegt að fara á síldveiðar norður fyrir land á bezta tíma ársins, nema hafa talstöðvar í bátunum. Þetta er fyrst og fremst vegna þess, að bátarnir, sem hafa talstöðvar, geta haft samband hverjir við aðra og fengið fréttir úr landi og því um líkt. Ennfremur má benda á, hve mikill munur það er fyrir báta, sem eru með veiðarfæri sín úti í sjó, ef vél bilar, að geta kallað upp annaðhvort önnur skip eða stöð í landi og beðið um hjálp. Ég veit, að þess eru nokkuð mörg dæmi, þótt ekki sé komin löng reynsla á þessar stöðvar, að fyrir þær hefir verið hægt að bjarga mörgum skipum og þeim mannslífum, sem þar hafa verið innanborðs, og ennfremur, að bátar hafa fríast við venjulegt veiðarfæratap eingöngu fyrir, að þeir höfðu þessar stöðvar.

Nú eru komnar talstöðvar í um rúma 100 báta, og beiðnir liggja fyrir um talstöðvar í um 50 báta. Eftir upplýsingum frá landssímastjóra eru líkur til, að þeirri eftirspurn verði fullnægt á þessari vertíð. Þá eru komnar talstöðvar í um 150 vélbáta. Eftir því, sem mér hefir verið tjáð, þá munu vera komnar talstöðvar í þvínær hvern bát í verstöðvunum hér við Faxaflóa. En aftur eru aðrar verstöðvar, þar sem er langt í land, að þessu verði fullnægt. T. d. er svo í Vestmannaeyjum. Þar eru aðeins örfáir bátar, sem hafa talstöðvar. Eigendur bátanna eiga þó ekki sök á þessu, heldur hafa stöðvarnar ekki fengizt ennþá, þrátt fyrir þótt þær hafi verið pantaðar fyrir rúmu ári síðan. Ég skal ekki segja, hver ástæðan er til þess, að svona dræmt hefir gengið að fá þær til landsins, en það er önnur ástæða, sem nokkru ræður um það, hve seint hefir gengið að fá þessar stöðvar í bátana. Það er sá kostnaður sem þær hafa í för með sér. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi aflað mér, þá mun uppsetningarkostnaður fyrir eigendur bátanna hafa verið frá 400–600 kr. Þetta er kostnaður við uppsetningu á loftneti, lömpum, „batteríum“ og öðru slíku. Eitthvað svipaður þessu mun rekstrarkostnaðurinn hafa verið. Landssíminn hefir átt allar þessar stöðvar og leigt þær fyrir 120 kr. á ári. En landssíminn hefir gert kröfu til þess, að stöðvarnar væru tryggðar fyrir um 1200 kr., og iðgjald af þeirri upphæð mun hafa numið rúmlega 100 kr. á ári. Ennfremur hafa bátarnir orðið að greiða ríkisútvarpinu 30 kr. á ári í afnotagjald. Mér finnst það nú alveg óviðeigandi, að ríkisútvarpið sé að taka afnotagjald af þessum tækjum, sem eru ætluð til alls annars en þau viðtæki úti um land, sem krafizt er afnotagjalds af. Þess vegna gerði ég ráð fyrir í frv., að afnotagjaldið yrði fellt niður. Ennfremur geri ég ráð fyrir því, að landssíminn eigi stöðvarnar eftir sem áður og leigi þær út þannig lagað, að hann fái sitt til baka, en græði ekki meira og minna á því. Því til tryggingar er svo fyrir mælt, að leigan skuli ákveðin fyrir eitt ár í senn af þar til skipaðri matsnefnd, sem í eiga sæti landssímastjóri, einn fulltrúi frá Slysavarnafélagi Íslands og annar frá Fiskifélaginu. Þar með er tryggt, að leigan verði ekki skrúfuð upp.

Þá vil ég geta þess, að eftir því sem mér telst til, eru nær því 240 vélbátar á stærðinni frá 15 til 100 smálestir í landinu. Eftir þeim upplýsingum, sem ég gat um áðan, eru komnar stöðvar í um 150 vélbáta, svo að það verða um 90 bátar, sem þessi lög koma til með að ná til.

Ég hefi ekki enn getað fengið nægilegar upplýsingar um það, hvert sé raunverulegt verð þessara stöðva, en ég hefi þó getað hlerað utan að mér, að stofnkostnaður þeirra fari ekki yfir 800 kr.

Þá vildi ég geta þess, sem kemur fram í þessu frv., að Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja hefir boðizt til þess að lána bátaeigendum sem svarar því, er kostar að setja upp svona stöðvar í byrjun, og ennfremur að sjá um að tryggja stöðvarnar endurgjaldslaust. Mér telst svo til, ef önnur vátryggingarfélög gera það sama, sem mér skilst þau verði að gera til þess að bjóða viðlíka kjör, og ef afnotagjaldið til útvarpsins yrði fellt niður, að þá mundi mega draga frá árlegum rekstrarkostnaði um 130 kr. En hvort annar rekstrarkostnaður getur færzt niður til muna, skal ég ekki segja.

Ég veit, að það er mikill áhugi fyrir því bæði hjá útgerðarmönnum og sjómönnum, að talstöðvar komi sem fyrst í vélbátaflotann. Ég sé því ekki ástæðu til að ætla, að frv. sæti neinum mótbárum frá þeim aðiljum. — Ég vil svo óska þess, að frv. verði vísað til sjútn. að aflokinni þessari umr.