25.02.1937
Neðri deild: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í C-deild Alþingistíðinda. (1520)

29. mál, talstöðvar í skipum

*Jóhann Jósefsson:

Mér er það vel ljóst, að þegar 200–300 bátar hafa talstöðvar, þá þarf að setja reglur um, á hvaða bylgjulengd þær eigi að starfa. Það er síður en svo, að ég vilji bera á móti því, enda veit ég, að landssíminn hefir látið það í ljós, að slíkar reglur þyrfti að setja, og frvgr. sú, sem talar um þær reglur, er náttúrlega í fullu gildi. Hitt var mér ekki ljóst, að það hefði vakað fyrir hv. flm., að fara að breyta til, eins og hann lýsti yfir, og panta tækin smíðuð frá útlöndum, enda gefur frv. ekkert í skyn um, að það sé tilætlunin. Hafi það verið ætlun hv. þm., þegar hann samdi frv., þá geri ég ráð fyrir, að réttara hefði verið að láta það koma fram einhversstaðar. Það hefir líklega runnið upp ljós fyrir honum, fyrst þegar hæstv. atvmrh. var að benda á, að það væri ef til vill torvelt fyrir landssímann að uppfylla kröfur frv. allar í einu.

Að öðru leyti þarf ég ekki að svara hv. 3. landsk. frekar í þessu máli, enda sýndi hann ekki fram á, að ég hefði farið með rangt mál í einu einasta atriði í ræðu minni, og heldur ekki þar, sem ég sýndi fram á, að með þessu frv. væri ekkert gert til þess að létta kostnaðinn á bátaeigendum við að hafa þessar talstöðvar, nema till. um að 30 kr. gjaldið til útvarpsins falli niður. Það sjá allir, hvað mikil hjálp er í því, þegar stofnkostnaðurinn er samt 600–700 kr. Í seinni ræðu sinni var hv. þm. að tala um það, að ef horfið væri að því, að kaupa hin útlendu tæki, þá væri kostnaðurinn 1000 kr. Ef á að leggja þetta á bak fátækra bátaeigenda, sem ekki hafa haft tök á því, að panta tæki, er lítil hjálp í þessum 30 silfurpeningum, hvort sem kostnaðurinn er 700 kr. eða 1000 kr.

Um gremju í mér þarf hv. þm. ekki að tala. Ég hefi enga ástæðu til þess að vera gramur yfir gangi þessa máls. Ég veit, að þessi 20 tæki, sem ég og björgunarfélagsstjórnin höfum pantað, verða afgreidd frá landssímanum undir eins og það er mögulegt. En ef hv. þm. vill greiða fyrir þessu máli, þá ætti hann að snúa sér til þeirra, sem hafa umráð yfir gjaldeyri, svo að landssíminn geti innleyst efnið í tæki þau, sem eiga að fara til Vestmannaeyja, en efnið bíður, á meðan ekki fæst gjaldeyrir til þess að leysa það inn. Landssíminn er reiðubúinn að smíða úr efninu, þegar það kemur. Það er sjálfsagt, að bent sé á, að sú hjálp, sem frv. hefir inni að halda, er svo vesæl, að það verður að gera stóra bragarbót í sjútn., þegar málið kemur þar til meðferðar.