18.03.1937
Neðri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

13. mál, Kreppulánasjóður

*Frsm. (Bergur Jónsson):

Allshn. hefir athugað brtt. á þskj. 70 við þetta frv., og það gat ekki orðið samkomulag um hana í n., svo að við þrír nm. berum fram á þskj. 99 brtt., sem er umorðun á brtt. hv. 6. landsk. á þskj. 70. Ég veit ekki um afstöðu hinna nm. tveggja, því að hún kom aldrei ljóst fram í n. Ástæða okkar flm. fyrir brtt. á þskj. 99 er sú, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er eingöngu um heimild til þess að gefa út 1½ millj. kr. kreppulánasjóðsskuldabréf, til þess að ljúka við skuldaskil sveitarfélaganna, en lögum, sem sett voru um skuldaskil bæjar- og sveitarfélaga, var skipt í tvo kafla; annar kaflinn var um skuldaskil bæjarfélaga og hinn um skuldaskil sveitarfélaga, og ef setja á ákvæði um, hvernig eigi að nota þennan afgang, sem heimilað er með frv., sem flutt er, eins og menn vita, til staðfestingar á bráðabirgðalögunum frá í haust, þá verður að láta þetta fyrst og fremst ganga til skuldaskila fyrir sveitarfélögin, svo framarlega sem halda á samræminu milli bráðabirgðalaganna og þessa frv. Það er að vísu rétt, að sum af bæjarfélögunum þurfa einnig á hjálp að halda. Þess er að vænta, að ef þeir hreppar, sem standa í mestum framfærsluskuldum við bæjarfélögin, ganga undir skuldaskil, þá verði beinlínis um ný bein framlög að ræða til bæjarfélaganna um leið og framfærsluskuldirnar eru gerðar upp, sem bæjarfélögunum kemur enn betur en þó að þeim væri veitt lán til að bæta úr óhagstæðum lánum, sem fyrir eru. Mér finnst því engin ástæða fyrir þá, sem vilja sérstaklega líta á nauðsynina á því, að bæjarfélögunum sé lánað, að vera að ráðast á móti þessari brtt., vegna þess að hún getur orðið bæjarfélögunum til gagns, þar sem svo er gert ráð fyrir, að það, sem afgangs verður að skuldaskilunum loknum, megi lána þeim bæjarfélögum, sem á síðasta ári fengu ekki fullnægjandi afgreiðslu hjá sjóðnum.

Þurfi meiri hjálp handa bæjarfélögunum en þarna er reynt að veita, þá verður, til þess að halda samræminu milli frv. og bráðabirgðalaganna, að setja sérstök ákvæði um það.