27.02.1937
Neðri deild: 11. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (1533)

36. mál, vinnudeilur

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Við þessa umr. málsins mun ég ekki tala langt mál um vinnulöggjöf.

Það er eðlilegt, að þetta mál hafi verið borið fram á hv. Alþingi, og get ég endurtekið það, sem ég sagði í fyrra, að það er mjög æskilegt, að þessu máli sé hreyft. Það, sem staðið hefir í vegi fyrir því, að vinnulöggjöf hafi verið komið á hér, er tvímælalaust, hve lítill áhugi virðist hafa verið hjá báðum aðiljum málsins — hjá báðum næstum jafnt — fyrir því að leysa þetta mál. Það er þess vegna ávinningur, þegar kemur fram vilji hjá öðrum aðiljanum til þess að leysa þetta mál. Hins vegar er hér um að ræða eitthvert stærsta hagsmunamál milli þessara stétta, kaup og kjör verkamanna, og því eðlilegt, að þessu frv., sem kemur fram og samið er af öðrum aðiljanum, sé mætt með mikilli athugun frá hinum, svo að ekki sé meira sagt. Nú sýnir það sig, að Alþfl., sem heldur ekki virðist hafa haft mikinn áhuga fyrir þessu máli, hefir lýst yfir, að hann vildi taka þetta mál til athugunar og úrlausnar. Það, sem raunverulega veltur á nú, er ekki áhugaleysið, sem ríkt hefir í þessu máli í mörg ár, heldur, að nú verði náð samkomulagi um, á hvern hátt þetta mál verði leist. Þar sem aðiljar þessa máls eru sammála um, að það sé þörf á að leysa málið, þá ætti það samkomulag að vera nægur grundvöllur undir það, að unnið yrði af báðum aðiljum að því, að finna samkomulagsgrundvöll í málinu. Það þarf tæpast að draga rök að því, að þeirrar lausnar er þörf fyrir þjóðfélagið, og fyrir báða aðilja raunverulega jafnmikil, því að það er vitað, að það hefir orðið báðum aðiljum til hagsbóta, þar sem tekizt hefir að leysa málið með samkomulagi, eins og t. d. í Danmörku. Það ætti líka að takast að finna samkomulagsgrundvöll, þar sem nú liggur fyrir mjög verulegt starf frá hendi þeirrar n., sem skipuð var til þess að athuga þetta mál. Ég hygg, að sú n. hafi þegar unnið verulega mikið starf, sem getur verið til stuðnings og undirbúnings fyrir þá, sem starfa að þessu máli. Ég vænti þess vegna, að hv. allshn. taki við þessu máli með þeim ásetningi, að vinna að því með gaumgæfni.