03.03.1937
Neðri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (1546)

39. mál, atvinnubótavinna og kennsla ungra manna

*Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Út af ummælum hv. síðasta ræðumanns um það, að ástæða væri til að fagna sinnaskiptum borgarstjórans, vil ég mælast til þess við hv. 1. landsk., að hann reyni að beita áhrifum sínum til þess að hafa áhrif á Framsfl. og fá hann til að fylgja málinu, því að hann var á móti málinu 1935 og felldi það.

Ég sagði í minni síðustu ræðu, að ég efaðist um heilindin af hálfu Alþfl. í þessu máli, vegna þess að hann, sem vitanlega er ráðandi flokkur í stjórninni, hafði ekki getað knúið sinn samstarfs- og undirlægjuflokk, Framsfl., til þess að ganga inn á þetta mál. Ég vil því beina þeirri áskorun til hv. 1. landsk., að hann og Alþfl. reyni að hafa áhrif á Framsfl., til þess að hann verði fylgjandi þessu máli.

Ég vil svo að lokum lýsa yfir ánægju minni út af því, að svo virðist sem Sjálfstfl. og Alþfl. séu sammála í þessu máli, og þess vegna má vænta þess, að málið fái viðunanlega úrlausn þegar á þessu þingi.