03.03.1937
Neðri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (1547)

39. mál, atvinnubótavinna og kennsla ungra manna

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vil taka undir það, sem hv. 1. landsk. sagði, að það væri ánægja að þeim sinnaskiptum, sem virðast hafa orðið hjá Sjálfstfl. Mér er kunnugt um, að það var nokkur tregða á því, að meiri hluti bæjarstjórnar gengi inn á að hefja þessa vinnu, og það var ekki fyrr en loforð lá fyrir frá ríkisstj. um framlag, að bæjarstjórnin samþ. það. Síðan hefir verið samvinna um þetta, og á síðasta ári voru veittar 46000 kr., og er það 11 þús. kr. hærra en í þessu frv. Til Sogsvegarins hafa verið lagðar 15000 kr. úr ríkissjóði og 5000 kr. úr bæjarsjóði, og til atvinnuleysis ungra manna hér í Reykjavík 13000 kr. úr ríkissjóði og 13000 kr. frá bæjarsjóði.

Ég tel rétt að geta þess, sem gert hefir verið í þessu máli, um leið og því er hreyft hér; annars mun það koma í ljós í þeirri n., sem fær málið til athugunar, og vil ég vænta þess, að það verði góð samvinna um málið, svo að það fái viðunanlega lausn.