03.03.1937
Neðri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í C-deild Alþingistíðinda. (1551)

39. mál, atvinnubótavinna og kennsla ungra manna

*Sigurður Einarsson:

Af því að talsvert hefir borið á góma í þessum umr. frv. um skylt efni, sem ég hefi borið fram á 2 undanförnum þingum, þá er ástæða til að taka það fram, að um það frv. á það nákvæmlega við, sem hv. þm. Snæf. sagði, og hann hefir lært af umr. um þetta mál, að það var borið fram til að koma málinu á rekspöl frekar en að þar væri um endanlegar till. að ræða. Þar var ætlazt til, að komið skyldi upp námskeiðum, þar sem lögð væri stund á bæði bóklegt og verklegt nám.

Það var eitt atriði í ræðu hv. þm. Snæf., sem ég sé ástæðu til að vekja athygli á. Þetta frv. er borið fram, segir hann, til þess að skylda ríkissjóð til að gera eitthvað í þessum málum, en mitt frv. var borið fram til þess að skylda bæjarfélögin til að gera eitthvað, ef ríkissjóður skuldbyndi sig fyrir sitt leyti. Þetta er mergur málsins. Það eru nokkrir ungir menn í Sjálfstfl., sem alltaf þykjast vera að vinna fyrir unga menn, sem bera þetta mál fram. En af því að mitt frv., sem ég flutti í fyrra, þótti koma of mikið við pyngju bæjarfélags Reykjavíkur, þá snerist forseti bæjarstjórnar, hv. 5. þm. Reykv., á móti málinu og gerði sitt til þess, að það næði ekki fram að ganga. Hv. þm. Snæf. var að tala um, að mitt frv. væri losaralegt; þetta er rétt, því að eins og ég tók áðan fram, þá var frv. borið fram til þess að koma málinu af stað frekar en það væri á nokkurn hátt endanlegar till. Sjálfstæðism. bera það blákalt fram, að þeir hafi hrundið þessum málum af stað með því að hefjast handa um framkvæmdir í þessum málum í Reykjavík. Þetta er algerlega rangt. Sjálfstfl. hreyfði ekki þessu máli, fyrr en hann var knúinn til þess með bréfi, sem hæstv. atvmrh. skrifaði bæjarstjórn Reykjavíkur. Ég vil taka undir það hjá hv. 1. landsk., að þess megi vænta, að með framkomu þessa frv. komi skriður á þetta mál, þar sem meirihlutavilji virðist vera orðinn fyrir að leysa málið á viðunandi hátt. Ef sú lausn ekki fæst, hlýtur það að stafa af því, að sá vilji meirihlutans er ekki svo sterkur sem þeir vilja vera láta til þess að gera eitthvað í þessu máli. — Ég tel ekki ástæðu til að fara að gera frekari samanburð á mínu frv. og þessu; það gefast eflaust nóg tækifæri undir meðferð málsins til að athuga það nánar. Ég sé ekki ástæðu til að taka neitt sérstaklega upp hanzkann fyrir Framsfl. hér í hv. d.; til þess ættu nógir að vera. En ég vildi beina því til hæstv. forseta, hvort hann telji það leyfilegt og sæmilegt að óvirða og svívirða heilan þingflokk með því að kalla hann undirlægjuflokk og öðrum miður viðeigandi nöfnum. Ég vildi yfirleitt mega vænta þess fyrir mitt leyti, að sú regla verði tekin upp, að tala virðulega um þingflokka, og að þeir séu ekki að ástæðulausu kallaðir allskonar skrípanöfnum.