03.03.1937
Neðri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í C-deild Alþingistíðinda. (1556)

39. mál, atvinnubótavinna og kennsla ungra manna

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég verð að segja það, að hér er deilt dálítið öðruvísi á okkur framsóknarmenn heldur en þegar við erum á fundum úti um sveitir, Þá er okkur fundið það til foráttu, að við séum allt of leiðitamir við okkar samstarfsmenn, Alþfl. Nú heyri ég hinsvegar hér, að hv. sjálfstæðismenn segja, a. m. k. sumir þeirra, og ég heyrði ekki betur en að hv. 11. landsk. segði það líka, að það sé flokksmál Sjálfstfl., að koma þessu máli fram. Og nú erum við framsóknarmenn helzt ásakaðir fyrir íhaldssemi í því, að leggja fram fé til atvinnubóta fyrir unglinga. Mér kemur það undarlega fyrir, að flokksmaður Sjálfstfl. reynir að pína sem mest fé út til atvinnubóta fyrir unga menn í kaupstöðum. Og mér virðist það koma mjög svo þvert við þá stefnu, sem eftir orðum sjálfstæðismanna úti um land má ráða, að sé ríkjandi í þeim flokki.

Það er enginn vafi á því, að þetta mál, atvinnuleysi ungra manna yfirleitt, og ekki sízt við sjávarsíðuna, er mikið vandamál. Og ekki er sízt vandasamt að ákveða, ef eitthvað er gert til að leysa það vandamál, hversu langt á að fara í því, að halda uppi atvinnubótavinnu fyrir þessa menn. Ég hefi ekki athugað þetta mál svo vel, að ég treysti mér við þessa umr. að taka afstöðu til þess. Ég hygg þó, svona fljótt á litið, að bezt muni vera að láta ráðstafanir þær, sem eiga að vega upp á móti atvinnuleysinu meðal ungra manna í kaupstöðum, líkjast meira fræðslustarfsemi en atvinnubótavinnu, því að ég óttast mjög afleiðingarnar af því, ef fyrstu kynni unglinga af verulegu starfi eigi að vera þau, að ganga í þá atvinnubótavinnu, sem líkist þeirri atvinnubótavinnu, sem hér hefir verið haldið uppi. Það má ásaka mig fyrir íhaldssemi fyrir það, ef menn vilja.

Ég óttast það kapphlaup, sem menn gera sig seka um í sambandi við þetta mál, til þess að vaxa í augum unga fólksins, með því að telja sig bjóða því gull og græna skóga með atvinnubótavinnunni í kaupstöðunum. Ég óttast afleiðingarnar af þessu kapphlaupi, sem stjórnmálaflokkarnir virðast hafa tekið upp í þessu sambandi. Ég álít mjög litla ástæðu til að byrja á kapphlaupi í þessu efni.

Það, sem ég vildi sérstaklega benda á í þessu sambandi, er, að mér virðist einkennilega mikill tvískinnungur koma fram hjá sjálfstæðismönnum í þessu efni, þar sem þeir annarsvegar halda fram, og það mjög fast, þar sem það þykir henta, að við séum óeðlilega leiðitamir við alþýðuflokksmenn um að halda uppi atvinnubótavinnu. Og svo erum við hinsvegar hér á Alþ. ásakaðir um íhaldssemi í að leggja fram fé í þessu skyni. En ég geri ráð fyrir, að Framsfl. taki til athugunar bæði þessi frv., sem komin eru fram um þetta mál. Og ég hygg, að mér sé óhætt að segja, að það sé ekkert minni vilji innan þess flokks en innan annara flokka á að leysa þetta vandamál á skynsamlegum grundvelli. Hygg ég, að e. t. v. finnist jafnvel meiri ábyrgðartilfinning í sambandi við þetta mál innan okkar flokks, og virðist mér sá grunur minn hafi staðfestst af umr. þeim, sem ég nú hefi heyrt, því að það er vandasamt að hitta á það rétta í þessu sambandi, þannig að ráðstafanir þær, sem nauðsynlegar kunna að vera og gerðar verða, verði ekki til þess að draga unglingana óeðlilega frá eðlilegu atvinnulífi.