03.03.1937
Neðri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (1558)

39. mál, atvinnubótavinna og kennsla ungra manna

*Guðbrandur Ísberg:

Ég skal ekki blanda mér mikið inn í umr. um þetta mál.

Ég tók eftir því, að hæstv. fjmrh. sló því hér fram, og mér virtist hann hafa það eftir einhverjum ræðumönnum, að þetta mál væri flokksmál Sjálfstæðisfl. Mér er ekki kunnugt um, að svo sé, né að það hafi verið gerðar neinar flokkssamþykktir um það innan þess flokks, að allir þm. þess fl. fylgdu þessu máli. Annars er þetta mál þannig vaxið, frá mínu sjónarmiði skoðað, að hér sé að ræða um einskonar sjúkdómslækningu. Við vitum, að við eigum við atvinnuleysi að búa í kaupstöðum landsins, ekki aðeins fullorðinna manna, heldur einnig unglinga. Þetta frv. á að ráða nokkra bót á böli atvinnuleysisins, að því er unglingana snertir. Bæjarstj. Reykjavíkur hefir með aðstoð ríkisins haldið uppi slíkri atvinnu. Sú vinna hefir gefizt vel, sem er yfirlýst og viðurkennt. Og það er í fullu samræmi við stefnumál og venjur Sjálfstæðisflokksins að fylgja því, sem vel hefir reynzt. Og að því er þennan sjúkdóm snertir, þá er vitanlega ekki um fylgi við slíkar ráðstafanir að ræða lengur en þeirra er þörf. Við höfum líka það atriði fyrir augum, að þetta kostar bæjar- og ríkissjóð fé, og þeim kröfum til bæjar- og ríkissjóðs verður að stilla í hóf.

Það eru þessi 3 sjónarmið, sem ég hefi í þessu máli og hafa fengið mig til þess að vera meðflm. að þessu frv., að fyrst og fremst er hér um aðkallandi þörf að ræða, og í öðru lagi liggur fyrir reynsla um ráðstafanir í þessu efni, sem hafa gefizt vel. Og í þriðja lagi, að frv. þetta, sem hér liggur fyrir, geymir ákvæði, sem tryggja, að kröfur þær, sem gera má eftir því til ríkissjóðs og bæjarsjóðs, geta ekki orðið takmarkalausar. Um þær takmarkanir í frv. má vitanlega deila, hvort þeim megi hagga til. En ef þær verða felldar alveg eða að verulega miklu leyti úr frv., gæti það orðið til þess, að ég sæi mér ekki fært að greiða atkv. með málinu.