04.03.1937
Neðri deild: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í C-deild Alþingistíðinda. (1573)

50. mál, Raufarhafnarlæknishérað

*Flm. (Gísli Guðmundsson):

Á síðasta Alþ. flutti ég frv. um Raufarhafnarlæknishérað. Það náði þá ekki fram að ganga, það varð ekki útrætt.

Ég hefi nú fyrir endurtekna beiðni íbúa í þessu héraði leyft mér að flytja frv. um þetta efni aftur. Ég hefi þó breytt frv. nokkuð frá því, sem það var í fyrra þannig, að ég geri ekki ráð fyrir því, að sérstakt læknishérað verði stofnað þar, fyrr en landlæknir mælir með því. Í öðru lagi hefi ég tekið upp í frv. bráðabirgðaákvæði um, að ef þetta kemst ekki í framkvæmd, þá sé séð svo um, að settur sé læknir þar 4 mánuði ársins eða rúmlega þann tíma, sem síldarvertíðin stendur yfir. Af ýmsum ástæðum er þess sérstaklega þörf, að læknir sé þar þann tíma, enda geri ég ráð fyrir að mönnum sé það ljóst, þegar þeir athuga, að þarna er verksmiðja og fjöldi skipa leitar þangað, oft með veika eða lasna menn, sem þurfa á læknishjálp að halda.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa mörg orð um þetta mál, því það er svo einfalt. Ég læt nægja, að vísa til grg. fyrir frv., og sérstaklega til þess fylgiskj., sem er bréf til Alþ. frá þeirri nefnd, sem á sínum tíma var falið að vinna að þessu máli.

Ég leyfi mér svo að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.