17.03.1937
Neðri deild: 20. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (1581)

57. mál, kaup á hlutabréfum í Útvegsbanka Íslands h/f

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Frv. þetta hefir verið áður hér í þinginu, og mælti ég þá gegn því, eins og ég geri enn. Þeir, sem á sínum tíma lögðu fram sparifé sitt til hlutafjárkaupa í Útvegsbankanum, gerðu það á sama tíma og ríkissjóður og ýmsir erlendir kröfuhafar lögðu fram mikið fé til sömu hluta. Ég sé því enga ástæðu til þess að fara að taka þessa einstaklinga sérstaklega út úr og veita þeim ákveðin fríðindi. Væri það gert, yrði ekki hjá því komizt, að bæta a. m. k. hinum erlendu kröfuhöfum eitthvað upp. Annars var það svo, að sparifjareigendur við Íslandsbanka vissu ofurvel að hverju þeir gengu, þegar þeir lögðu fram fé þetta. Þeir hafa því engan kröfurétt á hendur ríkisvaldinu vegna þessara hluta.

Því hefir verið haldið fram sem rökum fyrir þessum kröfum, að á sama tíma og innstæðueigendur við Íslandsbanka hafi lagt fram helming af sparifé sínu til viðreisnar bankanum, hafi ríkisvaldið tekið ábyrgð á innstæðum manna við Landsbankann. Ég fæ ekki séð, að þetta sé nein röksemd, því að menn voru og eru vitanlega alveg sjálfráðir um það, hvar þeir geyma sparifé sitt. Þeir, sem því trúðu Íslandsbanka betur fyrir fé sínu en Landsbankanum, mega því alveg sakast um þetta við sig sjálfa. Ég vil svo að síðustu óska þess, að frv. þetta nái ekki fram að ganga.