18.03.1937
Neðri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

13. mál, Kreppulánasjóður

*Sigurður Einarsson:

Ég þakka hv. þm. Borgf. fyrir þessar upplýsingar. Ég vil taka það fram, að þetta hefir farið framhjá mér við þessar umr.

Í sambandi við þetta mál vil ég segja það, að þar sem hv. þm. Borgf. hefir sérstaklega í huga erfiðleikana í þeim hreppum, sem orðið hafa fyrir fjárpestinni, þá er litlu einu borgið, — eins og hann sagði sjálfur —, þótt gerð verði þessi breyt. á meðferð eftirstöðvanna í kreppulánasjóði.

Ég verð að hallast að því, að fengnum þessum upplýsingum — þótt hv. þm. sé mikil vorkunn vegna afstöðu sinnar —, að það sé réttara og sanngjarnara að fara þá leið, sem ætlazt er til, að farin verði í brtt. á þskj. 70. Ég verð nefnil. að líta svo á, að ekki sé beinlínis verið að opna sjóðinn, heldur sé sjóðsstjórninni falið að ráðstafa því fé, sem eftir er. En vitanlega er öllum heimilt að sækja um og nota sér þau fríðindi, sem kreppulánasjóður hefir upp á að bjóða.