10.04.1937
Neðri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (1594)

63. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

*Jónas Guðmundsson:

Ég vil nota tækifærið og gera fyrirspurn til fjhn. um afgreiðslu þess máls, sem ég flutti fyrir nokkru. Hvaða afgreiðslu hyggst n. að veita því máli? En ef það verður afgr. óbreytt, er í raun og veru óþarft að samþ. frv. eins og þetta, sem nú liggur fyrir, því lögin, sem nú gilda fyrir Vestmannaeyjar, gilda til ársloka 1937, svo að þótt þingið verði rofið nú, mun það koma saman aftur fyrir áramót og afgreiða mál þau, sem ekki vinnst tími til að afgreiða nú.

Viðvíkjandi frv. vil ég segja, að það er eins með Vestmannaeyjar og önnur kauptún og kaupstaði landsins, að ekki er sjáanlegt, að þau komist af án þess að þingið greiði fyrir afkomu þeirra. Mun ég því á þessu stigi málsins greiða atkv. á móti frv., því það er ekki sanngjarnt, að þingið afgreiði þetta frv., sem gefur einum kaupstað landsins fríðindi umfram hina um tekjuöflun sína, þegar búið er að flytja í þinginu frv. um aukna tekjuöflun fyrir alla kaupstaði landsins. Sé ég enga ástæðu til að láta sum bæjarfélög hafa tekjur, sem engin önnur hafa, og í öðru lagi sé ég enga ástæðu til að samþ. þetta frv. nú, þar sem þing kemur saman fyrir áramót. En ef það verður samþ. til 3. umr., mun ég flytja brtt., sem gerbreytir því svo, að það geti náð til allra kaupstaða og kauptúna landsins.