10.04.1937
Neðri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í C-deild Alþingistíðinda. (1596)

63. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

*Stefán Jóh. Stefánsson:

Þegar þetta mál var afgr. í fjhn., kom ég ekki á fund fyrr en meiri hl. n. var búinn að samþ. frv. Ég kom í lok fundarins og gat þess þá, að mín afstaða væri mörkuð af því, hvað þingið vildi gera til fjáröflunar fyrir sveitarfélögin í landinu. Get ég tekið undir orð hv. 6. landsk., að veita þurfi fleiri kauptúnum og kaupstöðum aukna tekjustofna, en halda því ekki uppi áframhaldandi, að eitt sveitarfélag hafi forréttindi. Hvað viðkemur sérstöðu Vestmannaeyja vegna legu sinnar, þá eru það víst mörg bæjarfélög, sem hafa ekki síður þörf aukinna tekna. Mín afstaða er hin sama og undanfarin þing. Ég er á móti því að veita Vestmannaeyjum einum þennan rétt til tekjuöflunar, en ég mundi, sem neyðarúrræði, ganga inn á svipaðar leiðir til tekjuöflunar fyrir önnur bæjarfélög. Legg ég því á móti frv. óbreyttu, en hins vegar mun ég taka til íhugunar þær brtt., sem kunna að koma frá hv. 6. landsk. eða öðrum, sem gera þessa heimild almennari. Enda sé ég enga þörf að afgreiða málið í neinu snarkasti, því að annaðhvort verður þetta þing mun lengra en það er orðið og mun þá afgreiða fjárlagafrv., og verður þá tími til að afgreiða heildarlöggjöf fyrir tekjuöflun sveitar- og bæjarfélaga, eða, ef þingið verður rofið, þá kemur það aftur saman fyrir áramót, og þá verður líka nægur tími til að afgr. þessi mál, bæði fyrir Vestmannaeyjar og önnur bæjarfélög.