10.04.1937
Neðri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í C-deild Alþingistíðinda. (1601)

63. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

*Garðar Þorsteinsson:

Mér finnst afstaða hv. 6. landsk. og þeirra jafnaðarmanna nokkuð einkennileg í þessu máli og þeim málum yfirleitt, sem snerta tekjuöflun kaupstaða og sveitarfélaga. Það er sannanlegt, að þessir 3 menn í milliþn., sinn úr hverjum flokki, hafa ekki getað komið sér saman um að flytja sameiginlegt frv. Það var Sjálfstæðisfl. einn þingflokkanna, sem nær óskiptur fylgdi málinu. Það er einkennilegt, að hv. þm. stjórnarflokkanna skuli vera að breiða yfir sig slíka hræsnisblæju, eins og hv. 6. landsk. hér áðan. Þeir þykjast vilja hjálpa sveitar- og bæjarfélögum til þess að ná auknum tekjum og koma fram með málamyndafrumv. í því skyni, en hjálpa svo hverjir öðrum til að drepa það niður. Sannleikurinn er sá, að þeir ættu allir að skammast sín, hver sem betur getur, fyrir afstöðu sína í þessu máli. (Forseti hringir). Það verður að athuga það, að þessir flokkar, sósialistar og Framsókn, hafa haft fullkomna aðstöðu til þess mörg undanfarin ár að leysa þetta mál. Þeir hafa fengið áskoranir frá nær öllum kaupstöðum og mörgum hreppsfélögum um þetta efni, en þeir hafa aldrei gert neina alvöru úr því að hjálpa kaupstöðunum til að fá neinn fastan tekjustofn. Framsóknarmenn láta það líklega ráða í þessu efni, að þeir hafa þann mann í stjórninni, sem með fjármálin hefir að gera og hugsar mest um það, að þær tekjur, sem menn geta af hendi látið, renni í ríkissjóð, en ekki til sveitar- og bæjarfélaga, og því er svo komið, að það er varla nokkurt bæjarfélag á landinu, sem getur staðið undir sínum skuldbindingum. Ég veit ekki betur en hv. þm. Hafnf. beri sig hér mjög aumlega yfir því, að hans bæjarfélag skuli ekki geta fengið meira lán úr kreppulánasjóði. Það er búið að fá 75 þús. kr., og vantar annað eins. Af hverju er þetta? Er það ekki af því, að bæinn vanti auknar tekjur? Þyrfti hann að greiða sínar skuldir með gulum seðlum, sem ómögulegt er að fá greidda og ekki eru einu sinni 25% virði, eða fá viðbótarlán upp undir 100 þús. kr. í kreppusjóði, ef hann hefði nægar tekjur? Nei, forráðamenn bæjarins mundu ekki standa hér með tvær hendur tómar, ef einhverjir tekjumöguleikar væru fyrir hendi. Það er einkennilegt, að þessir hv. þm. skuli setja sig á svo háan hest, að reyna að koma í veg fyrir, að það eina bæjarfélag, sem sérstöðu hefir í þessu efni, fái að halda tekjustofni, sem það hefir haft í mörg undanfarin ár. Það er alls ekki til að auka möguleikana fyrir því, að afgr. verði heildarlöggjöf um þetta efni fyrir önnur sveitar- og bæjarfélög. Það leysir ekki það mál, þó Vestmannaeyjar falli líka undir þá kapitólu, sem Hafnarfjörður er í. Ég held því, að ef hv. 6. landsk. hefir meint nokkuð með því, að hann vildi afgr. heildarlög um þetta efni, þá sé sterkast fyrir hann að hjálpa fyrst Vestmannaeyjum til þess að halda þessum tekjustofni, og nota það svo sem ástæðu fyrir því, að hinir kaupstaðirnir eigi að fá það sama. Annars er sama hvað oft hv. þm. segist bera heill bæjarfélaganna yfirleitt fyrir brjósti; það þarf ekki annað en að líta til afstöðu flokks hans á síðustu þingum til þess að sjá, að hann meinar ekkert með slíku.