18.03.1937
Neðri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

13. mál, Kreppulánasjóður

*Frsm. (Bergur Jónsson):

Ég vil benda þeim hv. þm. á það, sem hafa haldið því fram, að, við, sem stöndum að 99. brtt., værum að opna sjóðinn, að samkv. brtt. þeirra á þskj. 70, eins og hún er óbreytt, er gert ráð fyrir því fyrst og fremst, að veita þeim bæjar- og sveitarfélögum lán, sem ekki hafa fengið fullnægjandi afgreiðslu áður. Það er því hreinasti misskilningur, að okkar till. opni frekar sjóðinn en þeirra. Við viljum halda sama principinu og áður, með því að láta þetta fé fyrst og fremst ganga til sveitarfélaganna.

Hinu skal ekki neitað, að það er rétt hjá hv. 6. landsk., að bæjarfélögin hafa þurft að gefa mikið eftir til sveitarfélaganna. En það er alveg óvíst, hvort bæjarfélögin hefðu fengið það, sem þau fengu, ef sveitarfélögin hefðu ekki fengið sín skuldaskil.

Það mun sjaldgæft, að það hafi verið meira en 50%, sem sjóðurinn hefir gefið eftir, og það er í flestum tilfellum gróði að fá gamlar skuldir gerðar upp, þótt slegið sé af þeim. Það er alveg augljóst, að margar af þessum skuldum sveitarfélaganna er bókstaflega ómögulegt að innheimta, nema tekið sé til þess fé úr sérstökum sjóði. Og ég fæ ekki skilið, að hv. 6. landsk. skuli vera að leggja svo sterka áherzlu á það, að bæjarfélögin hafi gefið þetta eftir, þar sem telja má víst, að bæjarfélögin hafi grætt á skuldaskilasjóði og muni græða á honum áfram.