17.04.1937
Neðri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í C-deild Alþingistíðinda. (1611)

67. mál, gengisskráning

Sigurður Einarsson:

Herra forseti! Góðir áheyrendur! Hv. þm. V.-Húnv. segir í ræðu sinni, að Bændafl. standi óskiptur að þessu máli. Það fer vel á því, að það sé Bændafl., sem að málinu stendur, og sýnir vel, að mannamunur er ekki átakanlegur í flokknum, þar sem hann stendur óskiptur að öðru eins máli. En þá er líka upptalið hið óskipta fylgi málsins. Íhaldsflokkurinn er klofinn í málinu; stórútgerðarmenn og stórframleiðendur vilja gengislækkun, en verzlunarlýðurinn, sem flokkinn fyllir, og sá hlutinn, sem á að sjá um að veiða atkv. verkamanna og sjómanna fyrir Íhaldið, vill ekki gengislækkun. En óskipta andstöðu á þetta mál meðal allrar alþýðu í landinu, meðal sjómanna, verkamanna, iðnaðarmanna, smáframleiðenda til sjávar og sveita.

Alþfl. hefir enga dul dregið á afstöðu sína til þessa máls. Hann er því hreinandvígur. Til þess liggja þau rök, er nú skal greina:

1. Krónulækkunin hlyti að leiða til þess, að öll verkamannasamtök landsins mundu rísa upp sem einn maður og krefjast kauphækkunar sem lækkuninni nemur.

2. Krónulækkunin myndi þannig leiða til stórfelldra deilna innanlands, sem mundi verka lamandi á atvinnulíf og alla framleiðslu landsmanna.

3. Krónulækkunin myndi ennfremur mjög verða til þess, að auka dýrtíðina, spenna upp verð á öllum útlendum varningi, sem mjög mundi íþyngja öllum almenningi við sjávarsíðuna.

4. Sú dýrtíðaraukning lendir einnig þegar í stað óhjákvæmilega á bændum, vegna þess að þeir eru stærri kaupendur á erlendum markaði en þeir eru seljendur.

5. Krónulækkunin stefnir til alvarlegs hruns á innanlandsmarkaðinum, sem tekur nú ca. ? af allri landbúnaðarframleiðslunni og geldur fyrir hana betra verð en unnt er að fá á útlendum markaði.

6. Alþjóðareynsla sýnir, að gengislækkuninni hljóta að fylgja kauplækkanir, og er það þegar margviðurkennt í umr. um gengismál hér á Alþingi. Með gálauslegum gengislækkunum og stöðugu brölti með gengi íslenzku krónunnar er verið að mana út í vinnustríð og kaupdeilur, ekki einungis verkamenn, heldur og alla starfsmenn, svo að vinnufriði landsins mundi verða stórhætta búin. Þetta er frá þjóðhagslegu sjónarmiði stór ábyrgðarhluti og hið mesta glapræði.

Alþfl. vill efla framleiðslumöguleika bænda og verzlunarsamtök, svo að þeir beri sem allra mest úr býtum fyrir vinnu sína og afurðir. En hann vill ekki gera það með því, að gera gjaldmiðil landsmanna að dulbúnum fjandmanni bænda og verkamanna í landinu, til þess að bjarga við milljónaskuldum stórútgerðarinnar. Alþfl. hefir bent á önnur ráð haldkvæmari til þess að koma stórútgerðinni á heilbrigðan framtíðargrundvöll. Þau eru réttlátari og traustari til nota fyrir þjóðina. Flm. þessa frv. látast bera það fram vegna bændanna. Þeir gera það vegna hinnar sokknu stórútgerðar, hvort sem þeir gera sér grein fyrir því eða ekki, hvort sem þeir sjá yfir afleiðingar þess og eðli eða látast ekki sjá það. Með þessu er verið að gera krónuna, hinn sameiginlega verðmæli landsmanna, að nokkurskonar flæðarmús, sem dregur gullið undir nokkra örfáa, en aðrir verða að sama skapi fátækari. Kjörorð Alþfl. er „hin heiðarlega króna“, sem er réttlátur verðmælir milli landsmanna, ekki óheiðarleg króna, sem svíkst aftan að yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar og gerir afstöðu hans ennþá verri, krónan, sem er dulbúinn þjónn örfárra einstaklinga, til þess að bæta við þann, sem hefir, og taka frá þeim, sem ekki hefir.

Ég skal, ef mér vinnst tími til síðar í kvöld, gera dálitla grein fyrir þeirri gleðilegu verðhækkun, sem orðið hefir á landbúnaðarafurðum á erlendum markaði síðari árin, vegna þess meðal annars, að straumurinn stefnir yfirleitt til verðhækkunar á viðskiptum um landbúnaðarafurðir og almennar neyzluvörur. Benda má aðeins á það, að samkvæmt bráðabirgðatölum hagstofunnar námu landbúnaðarafurðir, seldar erlendis 1936, 7 millj. 294 þús. kr. Freðkjöt seldist þá á 0,91 kr. kg. til jafnaðar, en 0,64 1932. Saltkjöt 0,85 kr. kg. 1936, en 0,54 kr. 1932. Samanlögð vorull hvít og haustull 2,24 kr. kg. 1936, en 1,08 kr. 1932. Gærur saltaðar 4,88 kr. stk. 1936, en 1,43 kr. 1932, og samkvæmt upplýsingum hagstofunnar um sölu á þessu ári hefir þó orðið verðhækkun frá þessu verði, gærur t. d. selzt á 6,56 kr. til jafnaðar. Þetta er afargleðilegt. En að því má gæta, að þessi straumbreyting í verðhækkunarátt, sem hér kemur fram sem hagnaður bændanna, kemur einnig fram í því, sem kaupa þarf frá útlöndum. Þetta bitnar að sjálfsögðu á bændum meðfram. En hjá þeim hefir þó verðhækkun á innlendum og erlendum markaði orðið samferða. En á verkamönnum, sjómönnum og starfsmönnum er ekki slíku til að dreifa. Þeir hafa orðið að taka á sig byrðar verðhækkunarinnar einnar saman.

Ég hefi bent á þetta af því, að ég lit svo á, að það hæfi ekki jafnalvarlegu máli eins og þetta er, að ræða það öðru visi en frá sjónarmiði þjóðfélagsheildarinnar allrar. Ég geri ráð fyrir þeim drengskap hjá öllum þorra manna, að hann álíti, að krónan, hinn sameiginlegi verðmælir landsmanna, eiga að vera heiðarleg króna, sem deili kjörum svo réttvíslega sem auðið er að gera það með gengisráðstöfunum. Og þá hlýtur allur almenningur að taka það til mjög rækilegrar íhugunar, sem nú var sagt, og ekki fallast á, að réttmætt sé að hrapa að því, að steypa yfir sig öllum þeim þjóðfélagslega vanda, sem af stórfelldri krónulækkun myndi leiða, og sífelldu brölti með verðgildi krónunnar, þegar það er einnig tekið með í reikninginn, að sá hagnaður, sem verið er að troða í menn, að þeim fljóti af slíkum ráðstöfunum, er að mestu blekkingar einar og barnaskapur, þegar frá eru teknir örfáir einstaklingar. En þó að Alþfl. einn allra flokka hér á landi hafi tekið upp stefnuna, að viðhalda hér í landinu hinni heiðarlegu krónu, þá leiðir engan veginn af því, að hann hljóti alltaf og undir öllum kringumstæðum að vera á móti breytingum á verðgildi krónunnar. Þvert á móti, það leiðir af þessari afstöðu hans, að hann mun jafnan beita sér fyrir því, þegar verulegs og hættulegs ójafnvægis fer að gæta í þeim efnum, sem hægt er að miðla með peningalegum ráðstöfunum og verðgildisráðstöfunum, að þá verði þær ráðstafanir einmitt gerðar. Það er það, sem felst í stefnunni „heiðarleg króna á Íslandi“. En þó að ekki væri tekið tillit til nema þess eins, hve neyzluvörur landsmanna hafa hækkað mikið, þær sem keyptar eru á erlendum markaði, og svo hins, hve gleðileg hækkun hefir orðið á landbúnaðarafurðum erlendis síðan 1934, jafnframt því sem afurðasöluskipulagið innanlands hefir og stórlétt undir með bændunum, þá væri af þeim orsökum einum óforsvaranlegt gáleysi að hrapa að krónulækkun nú. Það væri aðeins frá því sjónarmiði óréttmætt. Og þar við bætist svo það, sem áður er greint um örðugleika þá, er slíkar ráðstafanir mundu valda á öðrum sviðum, um þann hreinímyndaða ágóða, sem það mundi veita bændum landsins í heild, og þá þungu byrði, sem það mundi baka þeim sjálfum að sumu leyti og öðrum vinnustéttum landsins, öllum undantekningarlaust. Það er aðeins einn hópur manna, sem græðir á krónulækkun. Allir aðrir tapa. Þeir einir tapa ekki, sem reka stórfyrirtæki, kaupa vinnu annara í stórum stíl, borga stór stofnlán og mikil vinnulaun í lágum krónum. Í þeim hópi er enginn verkamaður, enginn sjómaður, enginn verzlunarþjónn eða skrifstofumaður, enginn kennari, enginn starfsmaður hins opinbera og sárfáir bændur. Og þessum mönnum má ekki gleyma. Þeir eru svo óendanlega mikið fleiri en hinir. Og Alþfl. vill einmitt með þessari afstöðu sinni undirstrika það, að hann er í öllum greinum fús til að stuðla að aukinni kaupgetu meðal bænda. En hann vill ekki gera það með aðferðum, sem taka frá bændum með annari hendinni það, sem gefið er með hinni, eins og hér er stuðlað að. Í öðru lagi ekki með því að stofna til þjóðfélagslegra vandræða og stórdeilna, eins og hér er einnig gert. Flokkurinn vill gera þetta með því að halda áfram á þeirri braut, sem þegar er hafin, í styrkveitingum allskonar til eflingar landbúnaðinum, í skipulagningu afurðasölunnar o. s. frv.

Hver áhrif mundi niðurfærsla á verðgildi íslenzkrar krónu hafa fyrir aðrar atvinnustéttir? Ég hefi þegar að nokkru lýst þessu í því, sem ég hefi sagt hér á undan. Það mundi verða til þess að skapa mjög mikla dýrtíð í landinu umfram þá, sem skapazt hefir af verðhækkuninni á útlendum mörkuðum. Þessi dýrtíð mundi mylja niður kaupgetu verkamanna og allra þeirra, sem taka kaup sitt í peningum. Það mundi draga úr verzluninni innanlands, brjóta niður þann markað, sem bændur eiga nú innanlands, skapa óvissu og erfiðleika, viðskiptatregðu og vandræði. Afstaða okkar gagnvart útlöndum mundi ekki breytast um hársbreidd, fyrir utan þann skaða, sem það kynni að skapa oss og álitshnekki, að vera að braska með gjaldmiðilinn fram og aftur frá einum tíma til annars.

Það er alkunnugt mál og óhrekjanleg staðreynd, að mikil eða tíð röskun á verðgildi gjaldeyris í einhverju landi er ákaflega varhugaverð ráðstöfun, sem allar þjóðir telja sér skylt að gera aðeins með hinni mestu gætni, kapplausri forsjá og nærgætni, Það er æfagömul reynd, að þegar verðgildið er búið að vera svo eða svo um langt árabil, þá er komið innra jafnvægi í hagkerfi þjóðarinnar, sem er mjög viðkvæmt og getur valdið gífurlegu tjóni, ef á því eru gerðar gálauslegar raskanir. Ég vara menn við því, að láta kosningahjal og rómantíska gengisdrauma villa sér sýn um það.

Afstaða bændaflokksmannanna í þessu máli minnir mig á söguna um negra einn, sem ólst upp á meðan þrælahald var ekki afnumið í Bandaríkjunum. Líkingin á vel við, því að Bændafl. er líka í ánauð hjá Sjálfstfl. og hefir, því miður, enga von um frelsi. Þessi negrapiltur sá fáa daga glaða, og tilbreytingin í mat var ekki önnur en sú, að hann fékk sírópsslettu í skál á sunnudögum. Þessi vesalingur var svo einfaldur, að hann dreifði sírópinu um allan skálarbotninn. Þá hélt hann, að þetta væri meira síróp. Árangurinn varð sá, að hann náði sírópinu miklu verr úr skálinni en ella myndi hafa orðið.

Á nákvæmlega sama hátt fara hv. þm. Bændafl. að í þessu máli. Þeir haga sér eins og hinn ánauðugi svertingjapiltur, er þeir líta á kaupeyri íslenzku þjóðarinnar og hversu með hann skuli fara. Krónulækkun þeirra er í eðli sínu hliðstæð athöfn þeirri, er pilturinn dreifði sírópinu út um alla skálina. En ef þjóðin ætti að búa við aðferð svertingjapiltsins í gjaldeyrisákvörðunum sínum, þá mundi hún fljótlega verða vör við það á hinn sárasta hátt, að það eru þeir einir, sem halda hinum dökka pilti í ánauð, sem græða á fyrirkomulaginu, alveg eins og það var í Bandaríkjunum. Svertingjapilturinn vissi ekki um ánauð sína né hve úrræði hans til að drýgja sírópið voru fánýt. Forvígism. Bændafl. hér á þingi látast ekki vita um sína ánauð og langar ekki í neitt frelsisstríð. Þá dreymir um að geta unnið kosningar þær, sem fyrir dyrum standa, fyrir eiganda sinn og með hans tilhjálp, þótt það kosti jafnfákænar aðgerðir í viðkvæmustu og vandasömustu málum þjóðarinnar eins og meðferð svertingjadrengsins á sírópinu sínu.