17.04.1937
Neðri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í C-deild Alþingistíðinda. (1612)

67. mál, gengisskráning

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta frv. má að sjálfsögðu telja fram komið í framhaldi af þeim fullyrðingum bændaflokksmannanna í blöðum og annarsstaðar, að með gengisskráningu krónunnar einni saman sé unnt að sjá hag framleiðendanna borgið. Það þurfi ekki annað en breyta gengi peninganna, lækka það, til þess að fyrir öllum þeirra hag verði séð til hlítar. Í frv. þessu eiga, að dómi bændaflokksmanna, að felast ákvæði, sem tryggi það, sem á þeirra máli nefnist réttlát gengisskráning. Ef dæma á eftir þeim umræðum, sem farið hafa fram hér í þinginu undanfarið og annarsstaðar, þá virðist gengisskráningin vera það mál, sem Bændafl. telur auðveldast að þyrla upp ryki um, og þykist flokksbrot þetta hafa mikla tröllatrú á lækkun krónunnar. Þess vegna hefðu menn fulla ástæðu til að ætla, að í meðferð þessa stórmáls, og eina málsins, sem flokkurinn virðist sjá, hefði flokkurinn sýnt einhverja alveg sérstaka röggsemi. Þessu virðist þó ekki vera til að dreifa í meðferð málsins. Frv. þetta kemur fyrst fram á þingi, þegar heill mánuður er liðinn frá þingbyrjun, eða 16. marz. Og þá virðist flm. þó ekki hafa lagt meiri áherzlu á framgang málsins en svo, að 3 dögum síðar, hinn 19. marz, er það tekið út af dagskrá eftir hans eigin ósk, og fyrst nú, 17. apríl, rúmum 2 mánuðum eftir þingbyrjun, er það til 1. umr. Nú mætti e. t. v. ímynda sér, að hv. flm. hefði sína afsökun í því, að málið væri mjög vandasamt, og að hann hefði því þurft langan tíma til að undirbúa það. En þegar nánar er að gáð, er frv. þetta ekkert annað en endurprentun á frv. um sama efni, sem þessi sami hv. þm. hefir flutt á undanförnum þingum! Þessi málsmeðferð öll af hálfu flm. sýnir raunverulega mætavel, hvað liggur á bak við allt tal þeirra bændaflokksmanna um gengislækkun, og um gengislækkun sem aðalúrræði fyrir bændastéttina. Þeir hafa ekki áhuga fyrir framkvæmd málsins, heldur því, að geta skrafað um það og kastað fram órökstuddum fullyrðingum, sem alls ekki eru samboðnar jafnvandasömu máli.

Hvernig eru þá ákvæði þessa merkilega frv., sem eiga að tryggja hag framleiðendanna og vera þess megnug, að láta framleiðsluna bera sig? Ég vil nú fara um þau nokkrum orðum, og af því að ýms ákvæðin eru nokkuð óljós, óska eftir nánari skýringum frá hv. flm., og vona ég, að hann firrtist ekki við. — Samkvæmt 1. gr. frv. á sérstök nefnd að hafa með höndum skrásetningu á erlendum gjaldeyri. Formaður n. á að vera tilnefndur af Landsbanka Íslands, en hinir tveir nm. af Búnaðarfélagi Íslands og Fiskifélagi Íslands, sinn af hvoru félagi. Þessir 3 menn eiga að hafa alræðisvald í þessum málum. Enginn umboðsmaður ríkisvaldsins á að koma þar nærri, og á það sjálfsagt að vera tryggingin fyrir því, að hæfilega sé séð fyrir kosti framleiðendanna. Kem ég nánar að því í sambandi við önnur atriði, hvaða trygging muni vera í slíkri tilnefningu fólgin.

Aðalatriði frv. verður að telja, að sé í 2. gr., þar sem svo er ákveðið, að erlendan gjaldeyri skuli skrá með tilliti til þess, að höfuðatvinnuvegir þjóðarinnar, landbúnaður og sjávarútvegur, fái endurgreitt tilkostnaðarverð fyrir útflutningsvörur sínar. Þetta er sá grundvöllur í málinu, sem nefndin með alræðisvaldinu á að starfa á. Með þessu á sýnilega, að dómi hv. flm. og Bændafl., öllu að vera komið í gott horf. En skyldu nú ekki vera ærið mörg atriði, sem ráðstafa þarf, áður en slíkt væri tryggt, þrátt fyrir þessi ákvæði. — Það er þá fyrst, að ef gengið á að vera miðað við það, að framleiðendur fái endurgreitt tilkostnaðarverð, þá þarf að ákveða, og það á þessi nefnd sennilega að gera, hvert sé tilkostnaðarverðið, eða m. ö. o., hvert sé framleiðsluverð útflutningsvaranna. Skyldi þetta nú ekki geta orðið ærið erfitt hlutverk? Til þess að hægt sé að ákveða þetta, þurfa ekki einungis að liggja fyrir greinilegar skýrslur um allan beinan kostnað við framleiðsluna, kaupgjald og annað þess háttar, sem gera verður ráð fyrir, að unnt sé að afla skýrslna um, heldur einnig, hvað framleiðandinn sjálfur á að bera úr býtum fyrir sína fyrirhöfn, sína vinnu við framleiðsluna, m. ö. o., áður en framleiðslukostnaðurinn verður ákveðinn, þarf nefndin að ákveða, hverjar séu eðlilegar þarfir framleiðendanna. Skyldi nú ekki geta orðið ágreiningur um þetta atriði? Ætli það sé nú alveg víst, að með þessari 2. gr. laganna yrði tryggt, að hlutur framleiðendanna verði ekki fyrir borð borinn? Ég þykist vita, að tryggingin eigi að liggja í því, að meirihlutavald n. á að vera hjá framleiðendunum í gegnum fulltrúa frá Fiskifélagi Íslands og Búnaðarfélagi Íslands. En það er ekki úr vegi að minnast á það hér, að menn hafa séð koma fram mismunandi skoðanir á því, hverjar væru verðlagsþarfir framleiðendanna, og það frá þeim mönnum, sem a. m. k. þykjast vera fulltrúar framleiðenda á Alþingi og annarsstaðar og telja sig bera hag þeirra mjög fyrir brjósti. Það þarf ekki lengra að leita þessu til sönnunar en í hin alkunnu dæmi um álit þeirra Jóns Sigurðssonar á Reynistað og Þorsteins Briems, áður en þeir komust í stjórnarandstöðu, um það, hvað bændur þyrftu að fá fyrir kjötið, til þess að búreksturinn bæri sig. Annar áleit, að þeir þyrftu að fá 40 aura fyrir kg., en hinn áleit engrar verðuppbótar þörf, ef þeir fengju 70 aura fyrir kg. Þessar voru nú kröfurnar fyrir hönd bændanna þá, þótt nokkuð öðruvísi kveði nú við, af því að þeir eru í minnihlutaaðstöðu og bera ekki ábyrgð á úrlausn málanna. En nú vil ég spyrja um eitt. Hver getur tryggt það, að ekki komizt í þessa nefnd menn, sem líta svipað á þarfir framleiðenda og Jón Sigurðsson á Reynistað og Þorsteinn Briem, kosnir annaðhvort af Fiskifélagi eða Búnaðarfélagi? Í ákvæðum 2. gr. frv. felast því alls engar tryggingar fyrir framleiðendur. Auk þess eru ákvæði þessarar gr., að miða við tilkostnaðarverð, ákaflega erfitt í framkvæmd, því að tilkostnaðaðarverðið er afarmismunandi eftir því, hvernig á stendur á hverjum stað. En setjum svo, að það væri framkvæmanlegt, að finna tilkostnaðarverðið, og að í þessa nefnd veldust menn, sem hefðu einhverja aðra hugmynd um þessa hluti en þeir Jón Sigurðsson og Þorsteinn Briem, þá er samt ekki allt fengið með því. Því miður er málið ekki svo auðvelt. Við skulum hugsa okkur, að nefndin kæmist að þeirri niðurstöðu, að útflutningsverðið væri of lágt, að það væri allt of lágt. Myndi hún þá undir öllum kringumstæðum geta rétt hlut framleiðendanna aðeins með gengisbreytingu? Nei, vitanlega alls ekki. Það er mjög miklum takmörkunum bundið, hvað hægt væri að hafa áhrif á slíkt með gengisbreytingum. Gengisbreyting þýðir sama sem breyting á hlutfallinu milli peningagreiðslu og vöruverðs. Þessu hlutfalli er vitanlega alls ekki hægt að breyta ótakmarkað. Það er auðvitað miklum takmörkunum bundið, t. d., hvað hægt er að lækka laun. Það verður að fara eftir kostnaðinum við að lifa. Það er vitanlega heldur engin trygging til frambúðar fyrir því, þótt nefndin, sem hér er gert ráð fyrir, ætlaði að rétta hlut framleiðendanna með því að hækka útflutningsverð með gengisbreytingu, að kaupgjald og aðrar peningagreiðslur hækki ekki nokkurnveginn jafnóðum, eða hér um bil a. m. k. á við það, sem vöruverðið hækkar. Þótt það sé látið í veðri vaka af bændaflokksmönnum, að ekki þurfi að taka tillit til neins annars en framleiðslukostnaðar við gengisskráningu, þá er það auðvitað blekking, það verður líka að taka tillit til framleiðslukostnaðar. Það er því mjög fjarri lagi, að með gengisskráningu sé hægt að lækna öll mein og alla erfiðleika fyrir framleiðendur á hverjum tíma. Hitt er annað mál, að það er undir vissum kringumstæðum hægt að bæta hag framleiðendanna um tímabil, og e. t. v. til frambúðar, einkum ef unnt er að ná samningum um það, að laun hækki ekki, þrátt fyrir gengisbreytingar til lækkunar.

Þá vil ég benda á enn eitt dæmi, sem sýnir ákaflega vel, hvaða erfiðleikar væru óyfirunnir í sambandi við mat á framleiðslukostnaðinum, þótt farið væri að samþykkja einhver ákvæði, sem líktust því, sem er í 2. gr. frv. þessa. Árið 1934 var mikil hreyfing uppi um það, að komast að því, hvert væri framleiðsluverð á kjöti, og það var ekki sízt alið á þessu af stjórnarandstæðingum. Vitanlega var það vegna þess, að stjórnarandstæðingar gerðu ráð fyrir, að verðlagið væri ekki þá eins hátt eins og þyrfti að vera, til þess að rekstur búanna svaraði kostnaði, og ætluðu þeir því með útreikningi framleiðsluverðsins að fá grundvöll undir árásir á þingmeirihlutann og ríkisstjórn. Nefnd, sem skipuð var af Búnaðarfélagi Íslands, settist að þessu verki. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að kjötverðið þyrfti að vera, miðað við þáverandi verðlag á ull og gærum, kr. 1,27 pr. kg. Þessari niðurstöðu var tekið með mikilli gleði í herbúðum bændaflokksmanna og óspart bent á aðgerðir ríkisstjórnarinnar og sagt: Þarna sjáið þið, það vantar enn á 3. millj. kr. samkvæmt þessum útreikningi, til þess að kjötframleiðsla og sauðfjárbúskapurinn geti borið sig. Þessa fjárhæð verður ríkisstjórnin að færa bændum í bú sín.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að undirtektir þeirra bændaflokksmanna undir það, að þessi niðurstaða væri rétt, voru byggðar á því, að þeir ímynduðu sér, að þessu marki myndi ekki verða náð í náinni framtíð, og þess vegna væri, ef menn mættu svo að orði komast, óhætt að standa á þessum tölum sem kröfum. Ég hefi nú athugað nokkuð verðlag á sauðfjárafurðum 1934 og 1936 og komizt að þeirri niðurstöðu, miðað við útflutningsskýrslur og fyrirliggjandi tölur um meðalverðlag á kjöti, að með því verðlagi á ull og gærum, sem var síðastl. ár, sé því marki, sem nefnd Búnaðarfélagsins setti um verðlag á sauðfjárafurðum, til þess að búin gætu borið sig, svo að segja náð. Ég skal náttúrlega ekki taka ábyrgð á því, að tölur útflutningsskýrslnanna séu réttar, en þótt þær séu ekki alveg nákvæmar, ættu þær að vera álíka réttar bæði árin og því óhætt að taka mark á breytingunni til hækkunar á verðlaginu, sem þær sýna. Ég ætla nú ekki að fella neinn dóm um það, hvort þessar niðurstöður Búnaðarfélagsnefndarinnar séu réttar eða ekki, eða hvort verðlag á landbúnaðarafurðum nái nú framleiðsluverði. En ég ætla mér að spyrja Hannes Jónsson að því, hvernig samræma eigi það tvennt: Annarsvegar niðurstöður Búnaðarfélagsnefndarinnar um framleiðslukostnaðarverð og ánægju Bændafl. með þá niðurstöðu, og svo hinsvegar hróp Bændafl. nú um það, að vegna ranglátrar gengisskráningar fái bændur ekki nándar nærri tilkostnaðarverð fyrir afurðir sínar, að ég nú ekki tali um hinar barnalegu fullyrðingar um, að ekkert hafi ræzt úr fyrir landbúnaðinum á síðastl. 2 árum.

Ennfremur ætla ég að benda á það, að ef miða ætti við tilkostnaðarverðsútreikning Búnaðarfélagsnefndarinnar frá 1934, þá ætti þetta frv. Hannesar Jónssonar ekki að leiða til neinnar gengislækkunar bændanna vegna. Ég vænti líka, að hv. flm. þessa frv. hafi gert sér það ljóst, að ef nokkurt vit á að vera í meginhugsun 2. gr. frv., um að skrá peningana með tilliti til tilkostnaðarverðs, þá ætti að hækka gengi krónunnar í hvert skipti, sem bændur eða aðrir framleiðendur færu að fá meira fyrir sínar afurðir en tilkostnaðarverð, og þannig að plokka af þeim þann ágóða, sem þeir kynnu að geta haft af rekstrinum. Hin illræmda gengishækkun í valdatíð Jóns Þorlákssonar hefði því verið alveg í anda þessa frv., sem nú er flutt af Bændaflokknum.

Í 3. gr. frv. er nokkuð nánar talað um tilkostnaðarverð, og er þar talað um, að nefndin eigi aðgang að ýmsum gögnum til þess að geta ákveðið meðaltalstilkostnaðarverð þeirrar vöru, sem seld er á erlendum markaði. Ég hefi skyggnzt í grg. frv. eftir nánari skýringum á þessu ákvæði um meðaltalstilkostnaðarverð, en sé ekki neitt minnst þar á þetta algerlega nýmæli í íslenzkri löggjöf. Nú vil ég beina þeirri fyrirspurn til hv. flm., hvað átt er við með þessu „meðaltalstilkostnaðarverði“. Mér þykir sannast að segja nokkuð undarlegt, að þessu skuli ekki fylgja neinar skýringar.

Satt að segja finnst mér einu gilda, hvar gripið er niður í þetta frv. Það er vanhugsað kák og flutt eingöngu til þess að sýnast. Ég hefi nú rakið efni þess og sýnt fram á, að hv. flm. hefir ekki einu sinni nennt að leggja vinnu í að undirbúa málið. Ástæðurnar fyrir allri þessari málsmeðferð skiljast þó nokkuð betur, ef fortíð þeirra manna, sem að því standa, er athuguð nokkru nánar. Þeir Hannes Jónsson og Þorsteinn Briem tala um gengislækkun sem sérstakt hagsmunamál bændastéttarinnar eins og á stendur vegna þess, hve verðlagið sé frábærilega lágt, einmitt fyrir þá framleiðendur. Af þessu verðum við að draga þá ályktun, að þeir álíti gengislækkun yfirleitt vera mikið hagsmunamál fyrir bændastéttina. Þorsteinn Briem hefir nú haft þá ánægju, að vera landbrh. á þeim tímum, þegar verðlag á landbúnaðarafurðum var lægra en það hefir orðið fyrr eða síðar á síðari áratugum, og helzt leit úr fyrir, að sauðfjárbúskapur myndi leggjast niður. Greip hann þá til þessarar einu lausnar, sem hann nú telur nokkurs virði fyrir bændastéttina, gengislækkunar, til þess að rétta hlut landbúnaðarframleiðendanna?

Nei, hann gerði það ekki. Hann minntist ekki á hana, og ekki nóg með það, hann gerði heldur engar aðrar ráðstafanir til þess að hækka verðlag á afurðum bænda, og í því var ekkert gert, fyrr en eftir að honum var rutt úr ráðherrastóli eftir kosningarnar 1934. Segjum, að hann hafi ekki haft vald til þess að koma fram gengislækkun. Barðist hann þá ekki fyrir henni? Hélt hann ekki snjallar ræður til þess að sannfæra samstarfsmenn sína um hina brýnu nauðsyn á gengislækkun? Nei, hann gerði það ekki heldur. Hann þagði. Hann upplauk ekki sínum munni um þetta eina stóra hagsmunamál landbúnaðarins, að dómi Bændaflokksins, fyrr en hann var búinn að fá þá aðstöðu, að hann réði engu. Ef til vill mætti ganga út frá því, að óathuguðu máli, að verðlag á landbúnaðarafurðum hefði verið óhagstæðara, eftir að Þorsteinn Briem komst í minnihlutaaðstöðu, en það var áður, og að á því séu kröfurnar um gengisbreytingu byggðar, þótt áður væri um þær þagað. En eins og ég gat um áðan, þá er þetta sem betur fer öðru nær. Útflutningur landbúnaðarafurða var árið 1932 3,3 millj. kr. og 1933 4,5 millj. Þetta eru þau árin, sem Þorsteinn Briem er í almætti sínu, en gleymir að sinna lífshagsmunamáli bændastéttarinnar. En árið 1935 nam útflutningur landbúnaðarafurða kr. 6,5 millj. og árið 1936 8,4 millj. kr. Þetta eru þau 2 ár, sem Þorsteinn Briem og Hannes Jónsson hafa verið í minnihlutaaðstöðu og sá tími, sem þeir sí og æ hafa verið að klifa á nauðsyn gengislækkunar til þess að rétta hlut bændastéttarinnar vegna óhagstæðs verðlags. Hér við bætist svo það, að heildarverðmæti mjólkurafurða hefir á þessum sama tíma meir en tvöfaldazt, og kjötverðið innanlands hækkað sem nemur mörgum hundruðum þúsunda króna hvort árið um sig.

Ég ætla ekki með þessu að fara að halda því fram, að þessi mikla verðhækkun hafi nú þegar valdið einhverri alsælu í sveitum þessa lands, en hinu ætla ég að halda fram, að það situr illa á þeim mönnum, sem hengu við völdin 1932–1933 gersamlega aðgerðarlausir um allt það, er gat miðað að því, að hækka verðlag á landbúnaðarafurðum, og minntust ekki á gengislækkun sem nokkurt úrræði fyrir landbúnaðinn, að skrafa nú sífellt um gengislækkun sem mál málanna og sérmál landbúnaðarins, eftir að hlutur hans hefir þó verið réttur eins og ég hefi sýnt fram á. Ef við, sem höfum stjórnað undanfarin 2 ár, höfum brugðizt framleiðendunum til sveita með því að fella ekki gengi krónunnar, — hvað ætti þá að þeirra eigin dómi að segja um þá sjálfa, sem létu undir höfuð leggjast að nota þetta úrræði, sem þeir þykjast trúa á, þegar hlutur landbúnaðarframleiðenda var a. m. k. helmingi minni en nú er, og reyndu heldur engin önnur úrræði?

Það er ekki að furða þótt þessir menn(!) telji sig eiga að hafa trúnað bændanna og þá einu réttu til þess að taka við forystu í málum þeirra. En hvað segja bændur sjálfir um það? Trúa þeir fagurgala þessara manna eftir þá reynslu, sem þeir hafa haft af störfum þeirra?

Þá mun ég þessu næst ræða nokkuð almennt um gengismálið. Af þeim, sem helzt hreyfa gengislækkun nú í augnablikinu, er það mál flutt fyrst og fremst sem sérmál landbúnaðarins. Út af því vil ég fara nokkrum orðum um sérafstöðu landbúnaðarins til gengislækkunar. Samkvæmt áliti skipulagsnefndar atvinnumála er framleiðsla landbúnaðarafurða um 18 millj. kr. til sölu frá heimilum. Af því hafa verið fluttar út afurðir fyrir um 6–8 millj. kr., en seldar innanlands fyrir um 10–12 millj. kr. Af þessu leiðir auðsjáanlega það, að landbúnaðurinn sem heild verður ekki einungis að taka tillit til verðlagsins á þeim vörum, sem seldar eru úr landi, heldur einnig, og öllu fremur, til verðlagsins á innlenda markaðinum. En þar að auki kemur svo hitt, sem gefur landbúnaðinum nokkuð aðra afstöðu til þessa máls en sjávarútveginum, a. m. k. undir vissum kringumstæðum, að landbúnaðarframleiðendur hljóta að meta það mikils, að innanlandskaupgetan sé sem allra mest. Framsfl. var þessi afstaða landbúnaðarins vel ljós fyrir síðustu kosningar, og hans aðaláhugamál var, að fá hækkað verð á landbúnaðarafurðum innanlands og bæta á þann hátt aðstöðu bændastéttarinnar. Flokkurinn tók þó ekki það ráð, að beita sér fyrir lækkun krónunnar, heldur hinn kostinn, að hækka með aðstoð löggjafar verðlagið innanlands og láta útflytjendur landbúnaðarafurða njóta uppbótar, sem tekin var af þessari verðhækkun. Þessi aðferð hafði þann mikla kost umfram gengislækkunina, að hún lamaði ekki kaupgetuna innanlands, og hún hafði einnig þann mikla kost, að verðhækkunin á landbúnaðarafurðunum varð hreinn tekjuauki fyrir bændurna. Gjaldahlið búreikningsins steig ekki, eins og hún hlýtur að gera, ef gengislækkunarleiðin er valin, því að það er kunnara en frá þurfi að segja í löngu máli, að við gengislækkunina hækkar aðflutt vara hlutfallslega jafnt í verði og útflutta varan, og þar að auki hækka ýmsir aðrir kostnaðarliðir ýmist strax eða síðar. Ég held, að það sé ekkert ofsagt, þótt því sé slegið föstu, að með afurðasölulögunum hafi undanfarin 2 ár tekizt að bæta rekstrarafkomu búanna meira en hægt hefði verið að gera með gengislækkun. Auk þess hafði þessi lausn þann stóra kost, að hún gaf ekki tilefni til neinna kaupdeilna eða annara slíkra deilna, sem mjög er hætt við í sambandi við gengisbreytingar.

Eins og nú er komið sölu á afurðum íslenzkra bænda innanlands, get ég ekki séð, að gengislækkun sé undir venjulegum kringumstæðum sérmál bændastéttarinnar, ef litið er á hana sem heild. Hún hefir, ef allt gengur sinn eðlilega gang við sjávarsíðuna, aðra möguleika til þess að bæta afurðaverðið, eins og greinilega hefir komið í ljós á undanförnum árum, og vonandi getur enn miðað í sömu átt. Gengislækkun getur heldur ekki að mínum dómi verið stefnumál nokkurs flokks eða manns, af þeirri einföldu ástæðu, að gengislækkun getur aldrei orðið neitt frambúðarúrræði. Hitt er annað mál, að gengislækkun getur verið, undir vissum kringumstæðum, úrræði, sem grípa þarf til, og þá fyrst og fremst, ef framleiðslukostnaðurinn í þeim atvinnugreinum, sem nær eingöngu selja á erlendan markað, er orðinn mjög hár í hlutfalli við afurðaverðið og stórfelld rekstrartöp eiga sér stað, en leiðrétting á kostnaðinum í áttina til þess, sem framleiðslan getur borið, fæst ekki með öðru móti. En það er vitanlegt, að gengislækkun er ekki eina leiðin, sem undir slíkum kringumstæðum kemur til mála. Ef rekstrartöp framleiðendanna við sjóinn eru farin að valda samdrætti í framleiðslunni og þar af leiðandi minnkaðri kaupgetu á mörkuðum bændanna innanlands, þrátt fyrir óbreytt kaupgjald, þá getur gengislækkunin, eða aðrar svipaðar ráðstafanir til að bæta rekstrarafkomuna við sjávarsíðuna, verið sameiginlegt hagsmunamál allra landsmanna. En menn verða að gera sér glögga grein fyrir, að engin trygging er fyrir því, að gagnið af slíkum ráðstöfunum verði til frambúðar fyrir framleiðsluna, vegna þess að kaupgjaldshækkanir og aðrar hækkanir geta étið upp hagnaðinn á stuttum tíma. Öruggasta ráðið til þess að fá samræmi milli tilkostnaðarverðs og afurðaverðs er vafalaust hlutaskipti og aukin samvinna um alla framleiðslu frá því, sem verið hefir. Ef leita á verulegs stuðnings í gengisskráningu fyrir framleiðendurna, verður að athuga rækilega þá leið, sem opinberlega hefir verið bent á og flokksþing framsóknarmanna hefir óskað rannsóknar á, að skapa aukið samræmi milli vöruverðs og peningagreiðslna með því að miða gengi peninganna að einhverju verulegu leyti við verðlag á framleiðsluvörum landsmanna. Það hefir ekki enn verið athugað, hvort sú leið er fær af fjármálalegum ástæðum, en slík athugun þarf að fara fram.

Ég tel mig nú hafa á þessum mínútum sýnt fram á það, að frv. þetta er kák eitt, að bændaflokksmenn hafa verið og eru manna óheilastir í gengismálinu, að það eru innantóm orð, að með einni saman lækkun krónunnar sé hægt að tryggja til frambúðar afkomu framleiðendanna. Ennfremur, að með þeim ráðstöfunum, sem Framsfl. hefir fengið framgengt til hækkunar verðlags á landbúnaðarafurðum innanlands, hefir áunnizt meira fyrir bændur en fengizt hefði með gengislækkun, eins og á hefir staðið undanfarin tvö ár.