17.04.1937
Neðri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í C-deild Alþingistíðinda. (1613)

67. mál, gengisskráning

Ólafur Thors:

Frumvarp það, er hér er til umr., frv. til l. um gengisskráningu, sem flutt er af hv. þm. V.-Húnv., mælir svo fyrir, að þriggja manna nefnd ákveði verð hinnar íslenzku krónu í hlutfalli við erlendan gjaldeyri. Á höfuðsjónarmiðið að vera það, að landbúnaður og sjávarútvegur geti borið sig, og á n. að ákveða „meðaltalstilkostnaðarverð þeirrar vöru, sem seld er á erlendum markaði“.

Mér þykir nú líklegt, að flm. þessa frv., sem eins og kunnugt er, er mjög töluglöggur maður, muni, ef til kemur, telja sig bæran um að finna út þetta „meðaltalstilkostnaðarverð þeirrar vöru, sem seld er á erlendum markaði“, t. d. meðaltalstilkostnaðarverð á rækjum, hrossum, hvalolíu eða prjónlesi, saltfiski og refaskinnum, svo að eitthvað sé nú nefnt af því, sem við flytjum út! En sannast sagna þekki ég engan, sem ég myndi treysta til þess, og eru víst allir sammála um, að þetta er allvandasamt verk. Skal ég að svo stöddu ekki fara nánar út í það atriði.

Það er nú öllum ljóst, að frv. þetta verður ekki samþ. á þessu þingi, og ég held, að ég þori að fullyrða, að flestum sé einnig ljóst, að ákvæði þess eru algerlega ónóg til tryggingar því, sem fyrir hv. flm. mun vaka, og verða þess vegna áreiðanlega aldrei lögfest, hvorki á þessu þingi né öðru. Hv. flm., hv. þm. V.-Húnv., hefir nú lýst því yfir, að hann sé reiðubúinn að samþykkja margvíslegar breyt. á frv., ef með því mætti síðar ná samkomulagi um gengisskráningu íslenzkrar krónu. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til að gagnrýna einstök ákvæði frv. til þess þannig að sýna fram á, að þau út af fyrir sig fái ekki staðizt, en læt nægja að segja, að frv. er í mörgum efnum mjög ábótavant, og ber víst fremur að meta það eftir vilja hv. flm. en verkinu sjálfu.

Um það mál, sem að forminu til er tilefni þessara umr., þurfum við sjálfstæðismenn í sjálfu sér ekkert annað eða meira en þetta að segja. Hinsvegar þykir mér rétt að nota tækifærið til þess að víkja lítið eitt að einstökum hliðum gengismálsins, enda þótt þess sé að sjálfsögðu enginn kostur, að rekja þetta flókna og margþátta mál til neinnar hlítar í stuttri ræðu. Mun ég leggja áherzlu á að ræða um þetta mál án allra öfga og þætti nokkurs vert, ef aðrir hv. ræðumenn vildu gera hið sama, vegna þess að á því er full nauðsyn, að málið sé skýrt fyrir þjóðinni meira en hingað til hefir verið gerð nokkur tilraun til.

Gengismálið, eða verðskráning krónunnar, mun ekki hafa verið gert að flokksmáli hér á landi fyrr en nú, ef svo á að skilja, að Bændafl. krefjist þess sem flokkur, að krónan verði nú þegar og viðstöðulaust verðfelld, sem ég þó ekki hefi ástæðu til beint að ganga út frá, enda hefir engin opinber yfirlýsing komið fram um það frá Bændafl., og allra sízt um það, hvað mikið eigi að verðfella krónuna, en það verður að telja eðlilegt, að sá flokkur, sem krefst þess, að krónan yrði verðfelld, segði jafnframt til um það, hvað mikið á að verðfella hana. Innan allra flokkanna munu nokkuð skiptar skoðanir um málið, ekki sízt þegar kemur út meðal kjósendanna. Sýnist sú skipting oft fara eftir því, hvað hver einstaklingur telur sér sjálfum til hagsbóta, og er það að vísu von, einkum þegar þess er gætt, hve miklum örðugleikum það er bundið að kryfja málið til mergjar. Hitt er svo annað mál, að engan veginn er víst, að menn rati rétt á, með hverju verðlagi íslenzku krónunnar þeirra eigin hagsmunum sé bezt borgið, og skal ég síðar víkja nokkuð nánar að því.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að höfuðatvinnurekstur landsmanna hefir nú um langt árabil átt við mikla örðugleika að stríða. Gildir þetta alveg jafnt um landbúnaðinn sem sjávarútveginn, og raunar um flest það annað, sem landsmenn hafa lífsviðurværi sitt af. Opinberar skýrslur hafa nú á síðari árum verið gerðar í þessum efnum. Þær hafa í opinberum umr. verið margraktar og gefa svo hörmulega mynd af afkomu atvinnulífsins og efnahagsafkomu þjóðfélagsins, að hver einasti hugsandi maður hlýtur að líta með nokkrum kvíða á framtíðina og allar afkomuhorfur þjóðarinnar.

Um nokkurt árabil hefir löggjafanum verið ljóst, að allur þorri atvinnurekenda í þjóðfélaginu er sokkinn í óbotnandi skuldir, en efni þeirra fyrir löngu til þurrðar gengin. Löggjafinn hefir þá líka fyrir sitt leyti ótvírætt látið í ljós þá skoðun, að við svo búið mætti ekki standa. Honum hefir verið ljóst, að eitthvað varð að hefjast handa framleiðendum til framdráttar. Hefir sem kunnugt er verið horfið að því ráði, að reiða fram milljónir úr ríkissjóði til greiðslu á skuldum framleiðenda, en til þess að breyta afkomuhorfum sjálfs atvinnurekstrarins hafa núverandi valdhafar lítið annað gert en það, að hlaða nýjum og nýjum sköttum ofan á þá skatta, sem áður voru svo þungir, að þeir höfðu þá þegar sligað framleiðsluna. Framleiðendur eru því óðum á ný að sökkva í sama skuldafenið, eftir að þeim hefir verið skilað úr kreppuhjálp löggjafans. Og það er alveg augljóst, að fyrr en varir verður svo komið, að framleiðendur eru að nýju verr farnir en nokkru sinni fyrr, ef ekki breytist fljótlega til batnaðar um hlutfallið milli tilkostnaðar og afrakstrar í atvinnulífi þjóðarinnar.

Það er því ærið umhugsunarefni sérhverjum hugsandi manni, hvað helzt beri að gera til þess að ráða fram úr þeim vanda, er við blasir. því verður nú náttúrlega ekki neitað, að það er hugsanlegt, að hjálpin komi utan að og án allra fórna af okkar hendi sjálfra í bættu verzlunarárferði, þ. e. a. s. með þeim hætti, að verðlag á útflutningsvöru Íslendinga hækkaði á erlendum markaði, án þess að svipuð verðhækkun yrði á aðkeyptum nauðsynjavörum þjóðarinnar. Hefir þegar orðið nokkur eða allmikil verðhækkun á einstökum útflutningsvörum landsmanna, svo sem síldarafurðum, gærum, ull o. fl., en þó er sú verðhækkun hvorki neitt svipað því nægjanlega mikil né víðtæk, til þess að menn geti á henni einni byggt vonir á úrlausn á þessum erfiðleikum framleiðslunnar, enda hafa líka jafnframt ýmsar erlendar notaþarfir þjóðarinnar hækkað í verði, a. m. k. í fullu hlutfalli við verðlagið á framleiðsluvörunni. Enn sem komið er, er það því alveg ljóst, að viðreisnin verður ekki byggð á því, að utan að komandi hjálp ein nægi í þeim efnum, og þess vegna verður, ef nokkra skynsamlega viðleitni á að sýna í þessum efnum, að leita a. m. k. fleiri úrræða.

Fyrsta og eðlilegasta krafa framleiðenda til löggjafans er sú, að hann létti á skattabyrðinni. Hver einasti munnbiti, sem almenningur leggur sér til munns, er margskattaður ríkissjóði til framdráttar. Sama gildir um allar þær erlendar vörur, sem framleiðslan til lands og sjávar notar til sinna þarfa. Hafa núverandi valdhafar stórhækkað þessa skatta á hverju þingi kjörtímabilsins, og mundi framleiðendum að því hinn mesti fengur, ef að hægt væri að afnema hinar nýju skattahækkanir, þótt ekki væri nema að litlu leyti, ef jafnframt yrðu afnumdir þeir skattar, sem hvíla þyngst á framleiðslunni. En þess er auðvitað engin von, meðan núverandi valdhafar fara með völdin í landinu. Þess er enginn kostur, að afnema skattana, og lækka þar með tekjur ríkissjóðs, nema samtímis verði gerðar ráðstafanir til þess að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, en til þessa a. m. k. hafa valdhafarnir ekki verið fáanlegir til þess að ræða um slíkar niðurfærslur, hvort sem nú kosningarótti skerpir skilningarvitin, a. m. k. í bili.

Sé nú að miklu leyti lokað fyrir þessar leiðir, verður ekki komið auga á önnur úrræði en beina kaupgjaldslækkun eða lækkun á verðgildi krónunnar, til þess að hægt verði að færa niður öll þau innlendu útgjöld, sem á framleiðslunni hvíla og miðað er við krónutölu án tillits til verðgildis krónunnar.

Ég hefi ekki ennþá heyrt nokkurn vitiborinn mann halda því fram, að Íslendingar geti rekið framleiðsluna með tapi lengur, úr því sem nú er komið efnahag þjóðarinnar. Enda er það augljóst mál, að þeir, sem lífsframfæri hafa við framleiðsluna, verða, þegar til langframa lætur, að sætta sig við það kaupgjald, sem framleiðslan sjálf getur borið. En ég hefi heyrt marga vitiborna menn, einkum í liði sósíalista, segja, að bein kaupgjaldslækkun komi aldrei til greina án mikilla og skaðlegra átaka í þjóðfélaginn, þótt ekki væri vegna annars en þess, að sósíalistar sjá sér ekki fært vegna samkeppninnar við kommúnista, að segja eða gera það, sem þeim sjálfum er ljóst, að nauðsyn býður í þessum efnum. Ég hefi heyrt þessa sömu menn staðhæfa, að ekki væri hægt að létta af sköttum, svo að neinu næmi a. m. k. Ég hefi séð skína út úr þeim vantrúna á því, að hættandi sé á að treysta á verðhækkun íslenzkra afurða á erlendum markaði, og jafnvel hlustað á játningar þeirra í þessum efnum. Ég hefi heyrt þessa sömu menn viðurkenna, að þá sé í rauninni aðeins tvennt eftirskilið, nefnilega gengislækkun eða samdráttur og hrun framleiðslunnar með því óbotnandi atvinnuleysi og hruni, sem því fylgir. En séu svo þessir menn spurðir, hvora leiðina þeir þá kjósi, ef um tvennt sé að velja, þá hefi ég mjög sjaldan heyrt þá svara, og a. m. k. aldrei nema undir algert þagnarheit.

Þetta sýnir betur en margt annað, hversu gengismálið er örðugt viðfangsefni, a. m. k. á meðan þjóðin hefir ekki gert sér fyllri grein fyrir því en nú er, og skoðanir langflestra miðast að mestu við það, hvað hver einstakur óskar, að verða mætti, til þess að hann sjálfur fyrir sitt leyti gæti séð sínum eigin hag sem allra bezt borgið. En sannleikurinn í þessu máli er sá, að þeir eru áreiðanlega hlutfallslega fáir, sem hafa gert sér rétta grein fyrir því, hvernig fyrir þeirra eigin hagsmunum verður bezt séð í þessum efnum, og enn síður fyrir hinu, að verðgildi peninganna fer ekki eftir óskum manna, heldur gilda þar viss og órjúfanleg lögmál, sem að vísu með nokkurri áhættu er hægt að víkja frá um stundarsakir, en aldrei til langframa.

Langalgengasta viðhorfið til gengismálsins er, að þeir, sem taka kaup í fastri krónutölu, og þeir, sem eiga fé sitt í peningum, eru andvígir verðlækkun á krónunni, en hinir, sem kaupið gjalda eða féð skulda, þó ekki þeir, er skulda fé erlendis, eru fylgjandi lækkun krónunnar, og flestir út frá sínu eigin ímyndaða hagsmunasjónarmiði. Í þessu gætir þó mikils misskilnings. Við skulum t. d. athuga hagsmuni verkamanns, sem vinnur við framleiðsluna á sjó eða landi og lífsframfæri sitt hefir af ákveðinni krónutölu, sem hann fær fyrir þessa vinnu. Það er að vísu rétt, að viðhorfið, sem beinast liggur við og flestir því einblína á, er, að verði krónan felld í verði, t. d. gegn sterlingspundinu, þá mundi kaupmáttur hennar minnka að sama skapi. Slík verðfelling sé því ekkert annað en kauplækkun. Þetta er að sumu leyti rétt. En það er ekki að öllu leyti rétt, og enn síður þó allur sannleikurinn. Það er rétt, að verðlag í landinu hlýtur að hækka, ef krónan fellur í hlutfalli við gjaldmiðil þeirra þjóða, sem við kaupum notaþarfir okkar frá. Þó er engin ástæða til að ætla, að verðlagshækkun lífsnauðsynja hér á landi verði í réttu hlutfalli við verðfall krónunnar, og sýnir reynsla nágrannaþjóðanna að því fer mjög fjarri, að dýrtíð hjá þeim hafi vaxið neitt svipað í hlutfalli við það verðfall, sem orðið hefir á þeirra gjaldeyri. Og enda þótt það verði að játa, að verðlagið hér á landi mun lúta nokkuð öðru lögmáli en verðlag þeirra landa, þá hygg ég þó, að það standist, sem ég áðan sagði, að engin ástæða sé til að gera ráð fyrir, að verðfelling eða verðfall íslenzku krónunnar í hlutfalli við gjaldmiðil viðskiptaþjóðanna þurfi að koma beinlínis og í fullum mæli fram í aukinni dýrtíð í landinu. En hitt er svo aðalatriðið, að enda þótt verðfall krónunnar skaði að einhverju leyti þá verkamenn, sem fasta atvinnu hafa allan ársins hring, sem þó út af fyrir sig er álitamál og rannsóknarefni, meðal annars vegna þess, að áframhaldandi hnignun framleiðslunnar færir að sjálfsögðu voða um atvinnumissi eða atvinnurýrnun einnig yfir þessa menn. Þá eru þó hinir margfalt fleiri, sem búa við stutta, slitrótta og stopula atvinnu, og fyrir alla slíka menn er verðfall krónunnar beinn og ótvíræður vinningur, sé krónan ekki felld í verði út í bláinn að nauðsynjalausu og eingöngu til þess að hagna vissum stéttum í þjóðfélaginu án hliðsjónar til hagsmuna heildarinnar. Fyrir alla þessa menn þýðir verðfelling krónunnar sama og hækkaðar tekjur. Að vísu ekki hækkað tímakaup, heldur hækkað mánaðarkaup og hækkað árskaup, því með verðfellingu krónunnar mundi þá að sjálfsögðu færast nýtt líf í framleiðsluna, og eftirspurnin eftir vinnuaflinu mundi vaxa að sama skapi. Það er þannig alveg augljóst mál, að sú verðfelling krónunnar, sem á viti er byggð og gerð er af nauðsyn, hlýtur að vera beint hagsmunamál alls þess verkalýðs, er lífsframfæri hefir af framleiðslu útflutningsvörunnar, þó að í nokkuð misjöfnum mæli sé, eftir því hversu langvarandi og trygg atvinna hvers einstaklings er.

Hagur framleiðenda af verðfalli krónunnar er að vísu misjafn og fer nokkuð eftir því, hvort framleitt er fyrir erlendan eða innlendan markað. En þó er það svo, að sé verðfelling nauðsynlegt skilyrði fyrir hallalausum rekstri á framleiðslu útflutningsvörunnar, þá liggur það í hlutarins eðli, að hún er alveg jafnt hagsmunamál þeirra, er vörur selja á innlendum markaði, vegna þess að hún er þá eina leiðin til að skapa atvinnu í landinu og þar með kaupmátt á innlendum markaði fyrir þá framleiðsluvöru landsmanna, sem þar á að seljast.

Sparifjáreigendur munu almennt líta svo á, sem þeirra hagur í þessu máli sé alveg auðsær. Hann sé sá, að krónan sé alls ekki felld í verði. En þetta er enganveginn eins augljóst mál eins og virðist við fyrstu sýn. Sparifé landsmanna liggur nefnilega ekki í kjöllurum bankanna. Það er dreift um allt landið og er þar starfandi í atvinnurekstri landsmanna. Bankar og sparisjóðir bera að vísu ábyrgð á sparifénu gegn innstæðueigendum, en sú ábyrgð er að sjálfsögðu einskis eða lítils virði, ef lántakendur reynast almennt óbærir um að greiða skuldir sínar, vegna þess að framleiðslan er rekin með tapi. Einasta trygging sparifjáreigenda liggur í greiðslugetu lántakanda, en hún veltur aftur, þegar til lengdar lætur, einvörðungu á því, að framleiðslan beri sig. Sú krónulækkun, sem gerð yrði í þessu skyni, er því, sé hún eina ráðið til að ná því marki, alveg augljóst hagamunamál sparifjáreiganda.

Ég hefi nú með fáum orðum leitazt við að sýna fram á, að krónulækkun getur verið hagsmunamál bæði kaupþega og sparifjáreigenda, og er undir flestum kringumstæðum til hagsbóta fyrir framleiðendur og þá, sem skulda. Rétt þykir þó að benda á, að sú krónulækkun, sem er óþörf, skaðar eigi aðeins launaþega og sparifjáreigendur á óréttmætan hátt, heldur getur hún auðveldlega skaðað þá framleiðendur, sem framleiða fyrir innlendan markað, vegna þess að sé verðfellingin ekki nauðsynlegt skilyrði fyrir hallalausum rekstri á framleiðslu útflutingsvörunnar, þá eykur hún ekki kaupmáttinn á innlendum markaði, heldur minnkar hann. Slík krónulækkun á því ekki rétt á sér.

Að sjálfsögðu eru mörg önnur hagsmunasjónarmið, sem hægt væri að draga fram og sýna fram á, að margir gera sér skakkar skoðanir um, en ekki þykir þó ástæða til að gera það að þessu sinni, vegna þess að nægjanlegt þykir, að bent sé á, að fullkomin ástæða er fyrir menn að líta á fleira í þessu máli en það, sem beinast blasir við, ef öruggt á að verða, að rétt sé dæmt í málinu, eigi aðeins um alþjóðarhagsmuni, heldur og um eiginhagsmuni. Heildarsjónarmiðið er þetta: Sé gripið til krónulækkunar sem einasta úrræðis, til þess að framleiðsla landsmanna geti borið sig, er verðfellingin öllum til hagsbóta, að meðtöldum sparifjáreigendum og þeim, er taka fasta krónutölu fyrir vinnu sína. Þegar svo stendur á, er verðfellingin eigi aðeins afsakanleg, heldur beinlínis sjálfsögð. Í öllum öðrum tilfellum er verðfellingin álitamál, og verður jafnan undir mati komið, hvað réttmætt sé eða skynsamlegt að gera í hverju einstöku tilfelli.

Í þessu sambandi þykir hlýða að benda á, að til langframa er ekki hægt að stýra hjá vissum hagfræðilegum lögmálum, sem ákveða verðgildi gjaldeyrisins, svo sem kaupmáttar og jafngengis. Og hitt er víst, að einn mestur voði, sem yfir sérhverri þjóð vofir, í sambandi við verðgildi gjaldeyrisins, er sá, að of lengi sé látið undir höfuð leggjast að breyta verðskráningu, sem í aðsigi er, hvort heldur er upp á við eða niður á við. Af því geta leitt þau ófyrirsjáanlegu vandræði, meðal annars algert verðhrun gjaldmiðilsins.

Ég tel ekki ástæðu til að ræða neitt verulega, hvað núverandi valdhafar hafa gert til að grafa undan verðgildi krónunnar. Þó þykir mér rétt að vekja athygli á því, að frá valdatöku þeirra hefir kaupmáttur krónunnar farið mjög þverrandi, enda hafa þeir gert ýmsar beinar ráðstafanir, sem óhjákvæmilega hlutu að leiða til verðfalls hennar. Leiði ég að sinni hjá mér að ræða þá hlið málsins, er óbeint hlýtur fyrr eða síðar að fella verðgildi krónunnar, svo sem óhóflega mikil útgjöld ríkisins og hallarekstur á allri framleiðslu landsmanna, en bendi á það tvennt, sem beinlínis hefir verðfellt krónuna, — beinlínis er búið nú þegar að verðfella krónuna undir stjórn og handleiðslu núverandi valdhafa, nefnilega skattahækkunina og verðfallshækkun þá, sem af innflutningshöftunum leiðir og öllum var fyrirsjáanlegt, að af þeim hlyti að leiða. Allur almenningur í landinu finnur á sinni eigin pyngju, hvað kaupmáttur krónunnar hefir fallið mikið vegna þessara beinu ráðstafana valdhafanna, og er stjórnin sek um að hafa verðfellt krónuna, án þess að sú verðfelling hafi orðið framleiðslunni að liði, heldur þvert á móti til hins mesta niðurdreps allri framleiðslu í landinu. Gegn slíkri verðfellingu mælir auðvitað öll skynsemi, enda mun óhætt að fullyrða, að eitt örðugasta viðfangsefni stjórnarliða við í hönd farandi kosningar eru einmitt þeirra eigin afbrot á þessu sviði.

Að lokum vil ég svo víkja nokkrum orðum að afstöðu Sjálstfl. til verðskráningar krónunnar. Ég leiði þá fyrst athygli að því, að slíkt mál sem verðskráning gjaldmiðilsins getur í framkvæmdinni tæplega verið flokksmál nokkurs stjórnmálaflokks í nokkru landi, beinlínis vegna þess, að menn, sem að öðru leyti hafa sameiginleg hagsmunamál, eða sameiginlegar lífsskoðanir, hljóta alltaf a. m. k. að eiga mjög misjafnra hagsmuna að gæta í þessu máli. Þannig er það innan Sjálfstfl., og þannig er það innan allra annara flokka hér á landi. En þó verður að viðurkenna, að eðlilegt er, að í þessu máli verði vart við tvö grundvallarsjónarmið, nefnilega sjónarmið rauðliða, sem samkv. stefnu sinni neita að viðurkenna eignarrétt einstaklingsins, og sjónarmið hinna, sem efst á sinni stefnuskrá hafa eignarrétt og athafnafrelsi einstaklingsins. Eftir þeim sjónarmiðum væri það eðlilegt, að rauðliðar vildu sæta hverju því færi, sem byðist, til þess að verðfella sparifjáreign landsmanna, og því meir, því betur. Sjálfstfl. hinsvegar telur sig að eðlilegum hætti höfuðmálsvara hinnar síðarnefndu. Sjálfstæðisflokkurinn krefst þess, að virtur sé eignarréttur þeirra manna, sem eiga hús, jarðir, skip eða aðra fjármuni. Sjálfstfl. krefst á alveg sama hátt, að virtur sé eignarréttur þess þjóðfélagsþegns, sem ekkert á nema atvinnu sína, og hins, sem fjármuni sína á geymda í atvinnurekstri þjóðarinnar fyrir milligöngu og á ábyrgð banka og sparisjóða landsins. Sjálfstfl. hefir því alltaf verið, er og mun alltaf verða andvígur sérhverri þeirri krónulækkun, sem ekki grundvallast á óumflýjanlegri nauðsyn þjóðarinnar. Hinsvegar viðurkennir Sjálfstfl. að í þessum efnum sem öðrum verðum við Íslendingar eins og aðrar þjóðir að lúta þeim lögmálum, sem verzlun og viðskipti yfirleitt eru háð, en af því leiðir, að hvenær sem er, jafnt bráðlega sem síðar getur orðið óumflýjanlegt að verðfella krónuna, meðal annars til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi eða algert hrun krónunnar. Slíkar ákvarðanir verða að dómi Sjálfstfl. ævinlega að leggjast á vald þeirra manna, sem þjóðin á hverjum tíma felur æðstu stjórn sinna fjármála, og vill Sjálfstfl. þess vegna, að stjórn þjóðbankans fari með þetta vald í samráði við fjmrh. þjóðarinnar.

Innan Sjálfstfl. eru áreiðanlega ríkjandi mjög mismunandi skoðanir um það, hvort nauðsynlegt sé nú, eins og sakir standa, að fella íslenzku krónuna í verði. Sjálfstfl. þarf þá heldur ekki að taka neina ákvörðun um það í bili, vegna þess að hann er innbyrðis ásáttur um það, að fallast á þá tillögu annara stjórnmálaflokka í landinu, að framkvæmd sé rannsókn á því, með hverjum hætti bezt verði fyrir komið verðskráningu íslenzku krónunnar, og þá jafnframt rannsakað, hvort nauðsyn beri til að verðfella krónuna. Sjálfstfl. leggur áherzlu á, að þeirri rannsókn sé hraðað, og mun á sínum tíma reiðubúinn til þess að taka þeim afleiðingum af niðurstöðu rannsóknarinnar, sem skynsamlegastar og farsælastar eru, ekki fyrir neina eina stétt í þjóðfélaginu, og ekki fyrir neinn einn flokk í þjóðfélaginu, heldur út frá heildarhagsmunasjónarmiði allrar þjóðarinnar. Þá og þá eina verðfelling krónunnar viðurkennir Sjálfstfl. réttmæta, sem er nauðsynleg og óumflýjanlegt úrræði til þess að forða hruni framleiðslunnar og þjóðfélagsins frá því, að verða flag kenninga, þar sem enginn á neitt og enginn má eignast neitt.