17.04.1937
Neðri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í C-deild Alþingistíðinda. (1614)

67. mál, gengisskráning

*Ásgeir Ásgeirsson:

Árið 1925 var háð mikil barátta um gengismálið, og sú barátta var háð gegn verðhækkun krónunnar. Framsóknarmenn stóðu þá framarlega í þeirri baráttu og óskiptir. Nú eru gerðar kröfur um lækkun krónunnar, og afstaða mín í því máli er sú, að ég vil standa gegn þessum kröfum um lækkun. Í bæði skiptin er sjónarmiðið það sama, að varðveita þá verðfestingu, sem skapazt hafði á undanförnum árum. Ástandið er nú að ýmsu leyti ólíkt því sem það var 1925 og að ýmsu leyti er það bætt. Það er ólíkt að því leyti, að þá átti svo að heita, að viðskiptin væru frjálsari en nú er, og skráning gengisins varð meiri á þeim tíma, þegar viðskiptin voru frjálsari á milli landanna, lágir tollar og litlar hömlur, en á tímum eins og þessum, þegar tollar og hömlur hefta viðskiptin svo að segja milli allra þjóða. En að hinu leytinu hefir mikið áunnizt frá því 1925, og það er að því leyti, að það dettur engum í hug að tala lengur um hið gamla gullgildi krónunnar, og í huga manna er hin íslenzka króna nú slitin úr samhengi við gull, sem í þessu landi hefir aldrei haft þýðingu fyrir okkar gjaldeyri, nema ef til vill helzt til truflunar. Hitt er mikill vinningur, að þjóðin sættir sig nú við að hafa óskráða bráðabirgðakrónu, sem er verðskráð á hverjum tíma, eftir því sem ákveðið er af ríkisvaldinu.

Sú regla gildir nú, að gengisnefnd á að skrá krónuna. Í gengisnefnd hafa bankarnir meirihluta, og ég skal ekki halda því fram, að það sé eðlilegur meirihluti í þessu máli, enda mun gengisnefnd líta svo á, að hún eigi ekki, nema einhver sérstakur vilji sé fyrir hendi, að gera breytingu á gengisskráningunni. Hið raunverulega vald í þessu efni liggur nú hjá þingmeirihlutanum og stj., og þingmeirihl. og stj. hafa ekki beitt þessu valdi til breytinga frá því 1931.

Núverandi gengi hefir þann stóra kost, að það hefir haldið innlendu verðlagi óbreyttu nú í mörg ár, og það er almenn regla meðal allra hagfræðinga, að skrá gengið eftir innlenda verðlaginu, þegar ekki er hægt að samræma hvorttveggja, hið innlenda verðlag og verðlag, sem gildir í öðrum löndum. Það er hin raunverulega verðfesting, þegar hið skráða gengi seðlaútgáfunnar og aðrar slíkar ráðstafanir varðveita óbreytt verðlag, því að það er hið óbreytta verðlag, sem skapar mest réttlæti í öllum viðskiptum manna ár frá ári.

Hv. þm. V.-Húnv. gat þess hér, að ég hefði árið 1931 skrifað um nauðsynina á verðhækkun framleiðsluvaranna í þessu landi. Ég gerði árið eftir nokkra tilraun til þess að skapa slíka verðhækkun ásamt þáverandi landbrh., hv. 10. landsk. En undirtektirnar voru ekki góðar hjá öllum fulltrúum framleiðendanna, og ekki heldur hjá Ed., eins og hún var þá skipuð. Nú er sú verðhækkun komin á, sem ég talaði um, enda var meiningin aldrei sú, að verðhækkunin ætti að halda áfram endalaust. Það hefir líka orðið verðhækkun á erlendum markaði síðan, landbúnaðinum til mikilla hagsbóta. Þegar þess þar að auki er gætt, að landbúnaðurinn flytur inn vörur fyrir meiri gjaldeyri heldur en landbúnaðurinn flytur út fyrir, þá er það bersýnilegt, að landbúnaðurinn sem heild græðir ekkert á gengislækkun. Innlenda verðið mundi, eins og nú er komið, ekki breytast með gengisskráningu, því að nú gilda þau l. í landi, að innlenda verðið er ákveðið af n., sem þing og stj. hafa sett. Og það mundi verða því erfiðara að hækka verð á innlendum markaði á eftir, ef gengið væri lækkað, þar sem kaupgeta fólksins við sjávarsíðuna yrði rýrð mjög með þeim ráðstöfunum. Landbúnaðurinn er einn sá atvinnuvegur hér á landi, auk iðnaðarins, sem hefir hagsmuna að gæta af því, að halda óbreyttu núverandi gengi. Auk þess hafa verkamenn þá hagsmuni, sjómenn yfirleitt og launamenn allir í landinu, þetta er meginið af landsfólkinu.

Það verður ekki heldur annað sagt en sú verðhækkun, sem skapazt hefir nú í seinni tíð, sé ærið nóg. Nægir í því efni að benda á, að á rúmlega ári mun flutningsgjald til landsins á t. d. kolum hafa hækkað um allt að 50%. — Hv. síðasti ræðumaður lagði m. a. áherzlu á, að verðhækkunin, sem orðið hefði, væri orðin nóg, þótt ekki bættist gengislækkun ofan á. Og eftir því, sem hann sagði um þá hluti, þá virðist mér sem ekki muni veita af, að hafa eitthvert eftirlit með álagningu í landinu, t. d. með álagningarskatti, eins og frv. liggur fyrir í þinginu um.

Hinu skal ég ekki neita, að útgerðarmenn, a. m. k. hinir stærri, myndu fá nokkrar kjarabætur gegnum kauplækkun sinna manna, sjómanna og þeirra, sem stunda fiskverkun, við gengislækkun. En er trygging fyrir því, að friður haldist um slíka ráðstöfun? Er ekki hætta á því, að kostnaðurinn af þeim deilum og óróa, sem eðlilega myndi af slíkum ráðstöfunum stafa, myndi vega upp á móti þeirri hagsvon, sem þessir menn gera sér? Ég hygg að gengislækkun sé raunverulega óframkvæmanleg, nema hún væri með samkomulagi og samningum milli aðilja, eins og var t. d. í Danmörku. Þar varð samkomulag um kauphækkun og ýms önnur atriði, og náttúrlega er sú leið hugsanleg líka í okkar landi, en aldrei nema fyrir ríka íhlutun verkamanna og bænda í landinu. Þá þyrfti vitanlega að gera nokkra kauphækkun og setja lágmarkskaup í sumum atvinnugreinum og setja lágmarksvinnutíma, enda er sú röksemd mest notuð, að vinnutíminn myndi lengjast við gjaldeyrisbreytinguna. Ég nefni þetta danska dæmi aðeins sem viðurkenningu á því, að slíkur möguleiki er til. En franska dæmið, sem hér hefir verið nefnt, hygg ég ekki ástæðu til að fara út í, vegna þess að Frakkar búa við allt aðrar kringumstæður en við. Þessi gullauðugasta þjóð í Evrópu stritast við að halda gullinnlausn og gullgildi á sínum gjaldeyri, en óþægindin við þá lausn hljóta að verða meiri hjá smáþjóðum.

Það er ekki annað að gera í okkar landi heldur en að ríkisvaldið beini sínum kröftum að því, að halda eins föstu verðlagi og verða má, eins og ég sagði áðan. Það er engin leið að hafa frjálsa verzlun með gjaldeyri og það er engin leið að ganga inn á þá meginhugsun þeirra manna, sem halda fram lækkun krónunnar, að gjaldeyrisverzlunin eigi alltaf að vera frjáls, eins og kallað er, hvernig svo sem kringumstæðurnar eru. Ef gjaldeyrisverzlunin væri frjáls, þá myndi úr því koma hin mesta ringulreið og óstjórn, sem yfir íslenzkt atvinnulíf og peningaviðskipti hefir komið. Það verður að stýra gjaldeyrinum og stjórna honum og ráðstafa á þann hátt, að við getum haldið því gengi, sem skapar fast verðlag í landinu, og núverandi skráning hefir, eins og ég hefi sagt, haldið verðlaginu föstu um alllangt skeið.

Til þess að hjálpa sjávarútveginum verður að hafa önnur ráð en gengislækkun. Viðvíkjandi landbúnaðinum hafa verið höfð önnur ráð, enda hefði gengislækkun aldrei hjálpað honum, eins og ég hefi tekið fram. Þar hafa verið höfð þau ráð, að skipuleggja markaðinn og skapa verðjöfnuð á stórum svæðum eða um allt landið. Auk þess hefir verðhækkun á hinum erlenda markaði komið til hjálpar. Og líkt þessu verður að fara með sjávarútveginn. Nægir í því efni að vísa til umr., sem fóru fram í gær um ráðstafanir til viðreisnar sjávarútveginum. Þá var bent á margar leiðir, sem gætu orðið til að laga hann eftir hinum nýju kringumstæðum og rétta hann við. Ég skal aðeins endurtaka það, sem ég sagði í gær í þessu sambandi, að miklu nær en lækkun gengisins lægi það, að lækka vextina. — Þá bendir margt til þess, að það megi að skaðlausu hækka seðlaútgáfuna frá því, sem verið hefir undanfarin ár, til þess að örva atvinnu- og viðskiptalíf. Seðlaútgáfan hefir haldizt kringum 10 millj. kr., en þetta er eðlilegt, þegar atvinnuhættir breytast og umturnunartímar eru, eins og undanfarin ár, og þegar fólkinu fjölgar og nýjar atvinnugreinar bætast við, eins og iðnaðurinn, sem þyrstir eftir kapitali. Þetta myndi vitanlega nokkuð snerta sjávarútveginn, og ekki sízt smábátaútveginn, því að slíkt má ekki koma fyrir, að tregða sé sýnd í því, að lána byrjunarfé til útgerðar t. d. vélbáta, sem gengið hafa gegnum Kreppulánasjóð einmitt fyrir ráðstafanir ríkisvaldsins.

Bæði af þessari og mörgum öðrum ástæðum viðurkenni ég réttmæti ýmsra bankafrv., sem liggja fyrir þinginu, og fylgi þeirri till. um athugun á bankamálum, og einnig á gengismálinu yfirleitt, hlutlausri athugun, sem liggur nú fyrir þinginu.

Það er fjarstæða að ætla, að menn geti verið gengislækkunarmenn almennt eða gengishækkunarmenn alltaf, og það sé ósamræmi, ef einhver brigði eru á milli gengislækkunar og gengishækkunar í till. manna. Slík fjarstæða minnir á skilgreininguna á almennri menntun, að það sé að vita alltaf minna og minna um fleira og fleira, þangað til maður seinast veit ekkert um allt, eða hjá sérfræðingum að vita alltaf meira og meira um minna og minna, þangað til maður seinast veit allt um ekkert. Slíkur hugsunargangur endar í fjarstæðu, og sama er að vera alltaf gengislækkunar- eða gengishækkunarmaður. Það, sem hér er um að ræða, er að skapa öryggi og festu, og gengi, sem hefir staðið ótruflað í 12 ár, hefir jafnan mikinn rétt á sér. Þetta gengi byggist á margskonar réttlæti, sem er byggt á ráðstöfunum, sem hafa verið gerðar á þessum tíma, og bundið við alla þá aðlögun atvinnuveganna, sem orðið hefir á þessum langa tíma. Að breyta gengi, þótt óréttmæt gengishækkun hafi farið fram fyrir 12 árum, til baka af þeim ástæðum, myndi fara nokkuð líkt og viðskiptin hjá Svíanum og Gyðingnum, þegar Svíinn kvartaði undan því, að Gyðingurinn hefði snuðað hann, og Gyðingurinn bauð, að kaupin skyldu ganga til baka, en þá svaraði Svíinn, að ef hann gerði það, þá myndi hann aðeins snuða hann aftur. Slík breyting, sem gerð væri eftir langan tíma, myndi snuða þá aftur, sem voru snuðaðir 1925. Það, sem hér er um að ræða, er að skapa festu í verðlagi, og það gengi er það réttasta, sem hægt er að fá á hverjum tíma.