17.04.1937
Neðri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í C-deild Alþingistíðinda. (1618)

67. mál, gengisskráning

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. þm. G.-K. gerði þetta frv. nokkuð að umtalsefni. En mér er ekki vel ljóst, þrátt fyrir gagnrýni hans á því, hvort hann er með eða móti gengislækkun. Það væri æskilegt, að þetta kæmi greinilega fram við þessa umr. Hv. þm. gaf ekki neina skýra yfirlýsingu um það, hver væri stefna Sjálfstfl. í gjaldeyrismálum. Þó var auðheyrt, að flokkurinn áleit gengislækkun geta komið til mála, ef aðrar leiðir væru ekki nothæfar að hans dómi, sem beindust að sama markinu, sem sé að gera afkomuna í fjármálunum á erlendum markaði betri. Ég get skilið, að það sé ekki hægt að gefa yfirlýsingu um það á þessu stigi málsins, hvort flokkurinn er með gengislækkun eða ekki, sérstaklega vegna þess að ég veit, að innan Sjálfstæðisfl. eru skiptar skoðanir um þetta mál, eins og formaðurinn drap á.

Ég ætla ekki að fara langt út í að ræða afstöðu Sjálfstfl. til gengismálsins. En ég ætla að minnast á eitt atriði, sem kom fram í ræðu hv. þm. G.-K., sem þarf leiðréttingar við. Hann sagði, að hinir núverandi stjórnarflokkar hefðu algerlega vanrækt að breyta afkomumöguleikum atvinnuveganna til hins betra. Mér finnst þetta nokkuð stórt til tekið. Ég hygg, að það hafi aldrei á sama tíma verið gert eins mikið til þess að bæta úr sölumöguleikum framleiðslunnar og á þessum árum, sem liðin eru frá síðustu kosningum. Ég hygg, að sjaldan eða aldrei hafi verið sett löggjöf á Alþingi, sem hafi verið meir til bóta fyrir framleiðsluna en afurðasölulögin og aðrar ráðstafanir, sem hafa verið gerðar til þess að styrkja þá atvinnugrein, sem þar um ræðir. Og það hefir aldrei þekkzt fyrr, að sjávarútvegurinn hafi notið beinnar fyrirgreiðslu úr ríkissjóði. En hefðum við náð lengra en hægt var með gengislækkun?

Þá minntist hv. þm. á það, að afstaða mín til þessa máls væri ekki í samræmi við skoðun flokksþingsins og það, sem kom fram hjá flokknum. Þetta er mesti misskilningur. Það, sem flokksþingið síðasta samþ. um þetta mál, var ekkert annað en það, að það vildi láta fara fram rannsókn á því, hvort ekki væri hægt að finna heppilegri leið til gengisskráningar en undanfarið, sem sé að miða gengið við framleiðsluverð í staðinn fyrir að miða það við sterlingspundið. Þetta vildi flokksþingið láta rannsaka, ef ske kynni, að hægt væri að finna einhverja reglu, sem mætti fara eftir, hvað þetta snertir, og væri þá fengin meiri trygging fyrir því, að gengisskráningin væri að verulegu leyti í samræmi við það, sem þyrfti að vera fyrir þá atvinnuvegi, sem flytja út vörur. Var ræða mín í samræmi við þetta. Ég tók það fram, að undir vissum kringumstæðum gæti gengislækkun komið til greina, þegar ósamræmi væri mikið á milli framleiðsluverðsins og þess verðs, sem fyrir afurðirnar fengist, og það fengist ekki leiðrétt með neinu öðru móti. Ég benti á, að undir þeim kringumstæðum gæti svo farið, að gengislækkun yrði hagsmunamál fyrir alla landsmenn, en hingað til hefir það ekki verið til hagsbóta fyrir framleiðendurna, að þessi leið væri valin í stað afurðasölulaganna.

Þá fór hv. þm. að reyna að verja afstöðu sína og hv. 10. landsk. í þessum málum. Hann sagði, að hv. 10. landsk. hefði gert mikið fyrir bændurna með stofnun kreppulánasjóðs. Það er rétt, að Framsfl. beitti sér fyrir þessu máli, og hv. 10. landsk. var þá ráðh. En hvaða gagn heldur þessi þm., að hefði verið að kreppulánasjóði, ef verðlag á landbúnaðarafurðum hefði verið það sama og hv. 10. landsk. sætti sig við? Hvað margir bændur hefðu þá staðið í skilum með afborganir til kreppulánasjóðs? Þá ætlaði hv. þm. að reyna að bjarga sér út úr þessu með því, að halda því fram, að hv. 10. landsk. hefði undirbúið afurðasölulögin, áður en hann fór frá. Þetta er að sumu leyti rangt og að öðru leyti eitthvað rétt í því. Það var ekki fyrr en flokkurinn var búinn að samþ. afurðasölul., að hv. 10. landsk. vaknaði og lét þau koma fyrir þingið. Nú mætti spyrja: Hvers vegna var hv. 10. landsk. að útbúa afurðasölul.? Hvers vegna tók hann ekki þetta úrræði, að lækka krónuna, í staðinn fyrir að undirbúa þessi l., sem hann álítur einskisvirði? Hann gleymdi að skýra frá því. Það virðist þó eftir hans dómi hafa verið einfalt úrræði, og sennilega ekki þurft mikinn undirbúning, ekki nema eitt pennastrik, til þess að hagur bændanna kæmist í lífvænlegra horf.

Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að ætla að bjarga sér út úr þessu á þennan hátt. Þessi framkoma þeirra, meðan þeir höfðu völdin, sýnir heilindi þeirra í þessu máli. Það munu vera fleiri en ég, sem hafa grun um, að ekki sé allt heilt með afstöðu Bændafl. til þessa máls. Hv. þm. G.-K. sagði áðan, að hann hefði enga ástæðu til að ætla, að þetta væri flokksmál Bændafl. Þessi þm. þekkir vel til Bændafl., og ætti honum því að vera kunnugt um, hvað mikið er að marka ummæli bændaflokksmannanna um gengislækkunina.

Hvernig ætlar nú Bændafl. að koma þessu máli fram? Menn hafa heyrt afstöðu Sjálfstæðisfl. Hún er í raun réttri óákveðin. Þó verður að líta svo á, að sjónarmið heildsalanna ráði mestu í þeim flokki, þegar til úrslitanna kemur. Ætlar hv. þm. V.-Húnv. að koma þessu máli fram með því að gera bandalag við Sjálfstæðisfl? Mér hefir heyrzt á því, sem farið hefir fram undanfarna daga, að það eigi ekki að vera neitt bráðabirgðabandalag, heldur eitt allsherjar bandalag, eða að Bændaflokkurinn ætli að ganga í Sjálfstæðisfl. fyrir kosningarnar. Þeir ætla sem sé að ganga á mála hjá þeim flokki, sem er aðallega stjórnað af heildsalaklíkunni hér í Rvík, með því skilyrði, að þeir komi fram gengislækkuninni, sem þeir þykjast trúa á, að sé eina úrræðið fyrir sveitabændur þessa lands.

Það mun nú bráðum, eftir því sem bezt verður vitað, draga til þess, að fram fari kosningar. Ég geri ráð fyrir, að menn verði að gera það upp við sig, hvort þessir sameinuðu flokkar, Bændaflokkurinn og Sjálfstfl., eiga að fá hreinan meirihl., eða hvort Framsóknarfl, á að fá aðstöðu til þess að mynda stj. M. ö. o., bændur þessa lands eiga að velja á milli Framsóknarfl., sem undanfarin ár hefir unnið að því, að hækka verðið á landbúnaðarafurðum, og hv. 10. landsk. og hans fl., undir stj. heildsalaklíkunnar í Rvík, sem hreyfði hvorki legg né lið, þegar hún fór með völdin og verst stóð á fyrir bændunum.