31.03.1937
Neðri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í C-deild Alþingistíðinda. (1656)

81. mál, Landsbanki Íslands

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Á undanförnum Alþ. hafa bankamálin lítið verið til meðferðar. Athygli manna og erfiði hefir farið til þess að sinna öðrum málum. Sérstaklega er áberandi, hversu mikið hefir verið sinnt ýmsum afurðasölumálum og ýmsu, sem þurft hefir að gera til þess að verjast áföllum út af markaðsvandræðum, sem að hafa steðjað. Þess vegna hafa bankamálin lítið verið til meðferðar á Alþ. að undanförnu. Framsfl. hefir ekki flutt á undanförnum Alþ. neinar till. snertandi bankamálin. Það er þó ekki fyrir það, að ekki hafi verið nauðsyn á að taka þau mál til endurskoðunar, heldur vegna þess, að athyglin hefir beinzt að öðru, sem virðist liggja enn meira á. Nú hefir Framsfl. samþ., bæði á flokksþingi hans og í þingflokknum, að koma á framfæri þáltill. um skipun milliþingan. í bankamálum til þess að rannsaka allt það, sem athugavert kann að þykja í bankaskipulaginu eins og það er. Það eru vitanlega mörg einstök atriði þar, sem standa til bóta, bæði hvað snertir eftirlit með lánveitingum og annað. Þar sem nú flokkurinn hefir tekið þessa heildarafstöðu, að leggja til, að mþn. verði skipuð til að rannsaka þessi mál — og það hefir hann gert vegna þess að þessi mál eru stór í brotunum og ákaflega viðkvæm mál — þá mun hann ekki hallast að því, að gera stórkostlegar breyt. í þessum efnum á þessu þingi. Þó geta verið einstök atriði, sem flokkurinn vill athuga nú þegar, og þá sérstaklega tvö. Annað er það, að landsbankanefnd verði gerð starfhæfari en hún er nú. Til þess að hægt sé að halda lögmæta nefndarfundi, þurfa, eins og nú stendur, að mæta þar ? nefndarinnar eða 10 menn úr n. Þessi ákvæði hafa stundum orðið til þess að gera n. óstarfhæfa í bili. Þessu álítum við, að þurfi að kippa í lag og að ákveða þurfi, að n. sé starfhæf með einföldum meiri hluta á fundi. Annað atriði, sem flokkurinn gæti gengið inn á og þætti rétt að afgr. nú þegar, er það, að setja sérstök ákvæði um það, að eftirgjafir skulda geti ekki átt sér stað í stórum stíl í sambandi við lánveitingar, nema með samþykki landsbankans. Það er ákaflega varhugavert að ganga inn á eftirgjafir af skuldum, án þess að lagafyrirmæli komi til. Og ég minnist þess sérstaklega, að sú n., sem undirbjó landsbankalöggjöfina á sínum tíma, lagði mjög mikið upp úr því, að slíkt kæmi ekki til greina. Og þeir gengu meira að segja svo langt í nál. sínu, að þeir vildu láta taka ákvæði inn í stjskr., næst þegar henni yrði breytt, um að ekki væri hægt að skylda bankann nema með löggjöf til þess að gefa eftir af skuldum. Það atriði vill Framsfl. taka sérstaklega til athugunar, hvort ekki ætti að breyta til og setja löggjöf um þetta atriði strax. Nánar hefir ekki verið farið út í þetta mál af flokksins hálfu. En við munum ekki leggja stein í götu þess, að frv. fari til n.