31.03.1937
Neðri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í C-deild Alþingistíðinda. (1659)

81. mál, Landsbanki Íslands

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru örfá orð út af því, sem hv. þm. G.-K. sagði. Hann sagðist hafa höggvið eftir því í minni ræðu, að ég mundi vilja ganga eitthvað inn á þá braut, að fela landsbankanefndinni að einhverju leyti yfirstjórn Landsbankans. Ég kemst ekki hjá því að minna á það út af þessu, að í landsbankalögunum segir, að yfirstjórn bankans sé í höndum landsbankanefndar og þess ráðh., sem með bankamálin fer. Síðar í lögunum er þetta svo takmarkað þannig, að meginverkefnin eru lögð í hendur bankaráði og bankastjóra, en þess getið um leið, eftir að talin hafa verið verkefni n., að hún skuli þar að auki taka ákvarðanir um önnur mál, sem til hennar kann að vera vísað af bankaráði eða þeim ráðh., sem með fjármálin fer. Landsbankanefndin á þannig ekki að ganga inn á valdsvið bankaráðsins, nema málum sé sérstaklega til hennar vísað. Samt er það svo, að yfirstjórn bankans á að forminu til að vera í höndum n. og ráðh. getur vísað málum, sem eru til meðferðar innan bankans, til hennar og þar með komið þeim undir hennar valdsvið, ef hann telur það rétt. Það var því ekkert nýtt í því, sem fram kom hjá mér áður um vald landsbankanefndarinnar. Það var tekið fram af þeirri n., sem undirbjó landsbankalögin, að hún liti á hlutverk landsbankanefndarinnar svipað eins og hluthafafund í hlutafélagi, m. ö. o., æðsta valdið á að vera hjá landsbankanefndinni, en það er ekki ætlazt til, að hún, nema þegar sérstaklega stendur á, skipti sér af einstökum málum, og er á valdi ráðh., hvenær til þess er gripið. Þetta er það, sem fyrir liggur um afstöðu landsbankanefndar og hvaða völd hún hefir nú.

Viðvíkjandi því, sem var aðalatriðið í því, sem hv. þm. G.-K. talaði um, hvort rétt er að ætla landsbankanefndinni meiri íthlutun heldur en hún hefir nú um hinn daglega rekstur bankans, þá skal ég viðurkenna, að það getur verið ágreiningsmál. Framsfl. hefir ekki ennþá ákveðið afstöðu sína í því efni skarpara en það, að hann er ekki reiðubúinn til, án sérstakrar athugunar á þessum málum, að leggja sérstök verkefni undir landsbankanefndina fram yfir það, sem hún nú hefir, nema eftirgjafir skulda fram yfir tiltekið hámark. En það álítur flokkurinn svo stórt mál, ef gefa ætti eftir jafnvel hundruð þúsunda, að réttmætt sé, að það komi til meðferðar innan æðstu yfirstjórnar bankans, enda eru slíkir atburðir svo sjaldgæfir, að það mundi alls ekkert raska daglegri starfsemi bankans, þótt þeir kæmu til kasta bankanefndarinnar.

Að öðru leyti lít ég svo á, að það sé verkefni þeirrar milliþinganefndar, sem við leggjum til, að skipuð verði á þessu þingi, að athuga þetta mál nánar, hvort rétt er að leggja meir en nú er einstök verkefni undir landsbankanefnd eða að tryggja frekar t. d., að minni hl. bankaráðs geti skotið stærri málum til hennar o. s. frv. Það atriði þarf meiri rannsóknar við að mínu áliti heldur en nú er búið að framkvæma, til þess að um það sé hægt að gera breytingu á landsbankalögunum.