20.03.1937
Neðri deild: 23. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (1674)

83. mál, ríkisborgararéttur

*Frsm. (Thor Thors):

Það stendur svo á með þennan mann, sem er hér nr. 2 í frv. n., að hann kom hingað upp til þess að vinna verk, sem Íslendingar gátu ekki unnið. Hann hefir unað vel hag sínum hér á landi og hyggst að setjast hér að, þar sem hann hefir í hyggju að ganga að eiga íslenzka konu. Ég sé því ekki, hvaða rök eru gegn því, að þessum manni sé veittur íslenzkur ríkisborgararéttur. Mér þykir leiðinlegt, að hv. 2. þm. Reykv. skuli reyna að blanda inn í þetta mál persónulegum tilhneigingum sínum, en á annan hátt verður afstaða hans gegn þessum manni ekki skilin. Alþ. verður að sjálfsögðu að halda sér við þær reglur, sem það hefir einu sinni sett sér með l. um ríkisborgararétt, og þeir menn, sem uppfylla þau skilyrði, sem þar eru sett, eiga rétt á því, ef þeir óska þess, að verða íslenzkir ríkisborgarar. — Atvinna þessara manna er allt annað atriði og kemur á engan hátt því við, hvort þeir öðlast ríkisborgararétt eða ekki.