20.03.1937
Neðri deild: 23. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í C-deild Alþingistíðinda. (1676)

83. mál, ríkisborgararéttur

*Stefán Jóh. Stefánsson:

Í allshn. hefi ég engan ágreining gert út af þeim manni, sem hér er deilt um. En út af þeim prinsipiellu umræðum, sem hér hafa farið fram um málið, þá vil ég láta þá skoðun í ljós, að ég tel það fjarri öllu lagi, að það sé skylda löggjafans að taka hvern þann útlending, sem óskar eftir íslenzkum ríkisborgararétti, inn í slíka löggjöf, ef hann aðeins uppfyllir hin almennu skilyrði l. um búsetu og óflekkað mannorð. Það, sem vakir fyrir mönnum með ríkisborgarrétti í hverju landi fyrir sig er, að þeir einir fái þau réttindi, sem fylgja ríkisborgararéttinum, sem eru æskilegir menn til langdvalar í landinu. Nú gæti vel svo verið, sérstaklega hér á landi, þar sem sáralítið eftirlit er með dvöl útlendinga í landinu, að hér dveldu menn langdvölum og uppfylltu að öðru leyti hin almennu skilyrði til þess að fá íslenzkan ríkisborgararétt, án þess að löggjafanum þætti æskilegt, að þeir ílentust hér með réttindum íslenzkra ríkisborgara. Um mann nr. 2 hefi ég ekkert að segja. Ég þekki hann ekki og hefi ekki gert við hann neina aths. En ég vil út af þessum umræðum aðeins taka það fram, að ef ég þekkti til útlendings, sem uppfyllti öll skilyrði íslenzkra ríkisborgara, en að ég áliti hann ekki „persona grata“ fyrir íslenzkt þjóðfélag, þá mundi ég hiklaust vera á móti því, að honum væru veitt þessi dýrmætu réttindi, sem við hljótum að telja, að það sé, að vera íslenzkur ríkisborgari. Þetta vildi ég sérstaklega taka fram viðvíkjandi orðum hv. þm. Snæf. um það, að hver maður ætti rétt á að fá íslenzkan ríkisborgararétt, sem uppfylli hin almennu skilyrði laganna. Þetta er fjarri öllu lagi, enda þótt ég hafi ekki gert ágreining út af nr. 2 í nefndinni.