02.04.1937
Efri deild: 30. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

13. mál, Kreppulánasjóður

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Hv. frsm. lýsti því yfir, að enginn verulegur ágreiningur hefði verið um aðalefni till. Ég skrifaði þó undir nál. með fyrirvara, og er hann á þskj. 157. Hann er aðeins um fresti þá, sem hér er um að ræða. En ástæðan til, að ég taldi ekki þörf á að hafa frestina svona langa, er meðal annars sú, að ég hygg, þrátt fyrir það, þó að kosningar kunni að vera í aðsigi, að þá geti hreppsnefndum borizt svo tímanlega tilkynningarnar, að það kæmi ekki að sök, svoleiðis að umsóknir þeirra gætu legið fyrir 1. júlí. Það má vænta þess, að þetta verði fljótlega að l., og mundi þá stjórnin tilkynna það t. d. í útvarpinu, og að bæjarfél. gætu sótt eins og l. ákveða. Mundu þau þá hafa nægan tíma til að undirbúa umsóknir sínar.

Þá er það í öðru lagi um þann frest, sem ræðir um fyrir stj. sjálfa, að ég hygg, að frestur sá, sem ég legg til, verði nægilegur. Jafnvel þó að kosningar yrðu, þá verða þær svo snemma á sumrinu, að stj. ætti að hafa allan sept. til umráða til að vinna úr þessu, og ætti það að vera nóg, þar sem hér er ekki um svo stóra upphæð að ræða, sem þarf að úthluta. Þá er á það að líta, að kostnaðurinn mundi verða mun minni eftir minni till. Það er ekki svo lítill kostnaður, sem af því leiðir að hafa n. starfandi allt árið. Það er hvorki meira né minna en 30 þús. kr., sem n. þessi kostar yfir árið, og ég hygg, að sú upphæð dragist frá þeirri upphæð, sem n. hefir til umráða til úthlutunar. Það mætti því að skaðlausu fyrir starf n. spara þessa 4 mánuði. Maður verður að ætla, að flestir hreppar hafi verið búnir að gefa sig fram, sem töldu þörf á að fá skuldaskil, og er því hér verið að kalla fram nýja, sem ekki hafa áður gefið sig fram. Og allir vilja náttúrlega fá uppgefnar skuldir. En sú upphæð, sem óúthlutað er, er svo lítil, að ef á að fara að skipta henni í mjög marga staði, þá er náttúrlega of lítið, sem kemur í hvern stað, til þess að verulegt gagn verði að. Hv. frsm. sagði, að meðnm. hans í kreppustjórninni, hv. 6. landsk., Jónas Guðmundsson, hafi samþ. þessa fresti. Þetta kemur mér einkennilega fyrir, þar sem ég hefi talað við hann fyrr og síðar um þetta, og hann hefir látið í ljós við mig, að hann teldi frestina óhæfilega langa. Og ég hygg, að afstaða hans í Nd. hafi verið sú, að hann hafi verið á móti því að lengja frestina, m. a. af þeim sömu ástæðum, sem ég byggi mínar till. á.