02.04.1937
Efri deild: 30. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

13. mál, Kreppulánasjóður

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Ég hafði ekki ætlað mér að segja meira um þetta mál. Það var aðallega fyrirspurn frá hv. þm. Dal., sem kom mér til að standa upp. Hann spurði, hvort það væri ekki rétt skilið, að læknishéruð gætu fengið lán, þó að þau næðu yfir heilar sýslur. Ég tel það vafalaust; það skiptir ekki máli, hvort héraðið nær yfir heila sýslu, bara ef það er læknishérað, sem stendur í skuld vegna kaupa á læknisbústað og sjúkraskýli.

Um hitt atriðið, sem hann nefndi, viðvíkjandi því, hvort sveitarfélög, sem hefðu áður fengið lán, gætu fengið viðbótarlán, þá er það að segja, að n. ætlast ekki til þess, enda man ég ekki eftir neinu sveitarfélagi, þar sem slíkt gæti komið til mála. Það er þess vegna svo, að ef hv. þm. vill, að þeir, sem fengu lán í vetur, geti aftur fengið viðbótarlán nú, þá verður hann að koma með brtt.

Um það, sem flm. brtt. á þskj. 157, hv. 4. þm. Reykv., sagði, er það að segja, að ég tel frestina, sem þar er gert ráð fyrir, of stutta, og það er af því, að það sýnir sig alltaf, að það verður að leita ýmsra upplýsinga eftir að umsóknirnar eru komnar, og það vill oft dragast að fá þær, en fyrr er ekki hægt að veita lánin. En um kostnaðinn, sem hv. þm. nefndi við störf þessarar n., þá liggur hann að langmestu leyti í prentun og undirbúningi skuldabréfanna. En þau eru nú til prentuð frá því síðastliðið ár og verður því ekki neinn viðbótarkostnaður við það. Ég sagði aldrei um hv. 6. landsk., að hann væri ánægður með þessa fresti. En ég gat ekki betur fundið, síðast þegar ég talaði við hann, en að hann teldi óvarlegt að hafa frestina eins skamma og hv. 4. þm. Reykv. stingur upp á.