09.04.1937
Efri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (1693)

83. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Út af því, sem hæstv. forsrh. sagði, vil ég fyrst taka það fram, að það er eitt af skilyrðum fyrir því, að veita megi ríkisborgararétt, að það sé sannað, að hlutaðeigandi hafi ekki brotið af sér í 10 undanfarin ár. Það liggur nú fyrir viðvíkjandi þessum mönnum, sem í frv. getur, að þeir hafa ekki brotið af sér þann tíma.

Það er vitanlega rétt, að það er ekki nein krafa, sem þessir menn eiga til þess að fá ríkisborgararétt. En það hefir verið siður hingað til, að þegar menn uppfylltu þau skilyrði, sem l. um ríkisborgararétt krefjast, þá hefir ekkert þótt athugavert við að veita hann. En skilyrðin fyrir þessari réttarveitingu voru einmitt þrengd mjög á næstsíðasta Alþ. Og þess vegna hygg ég, að svo hafi verið litið á, að ef menn uppfylltu þessi strangari skilyrði, þá bæri að láta þá fá ríkisborgararétt hér á landi, ef ekkert væri við mennina annars að athuga.

Hæstv. forsrh. sagði, að svona frv. ætti að vera stjfrv. Ég er honum sammála um það, og ég tók það fram við 1. umr. En það kemur undarlega við, að hæstv. ráðh. segir þetta, því að það er einmitt frá hans skrifstofu í stjórnarráðinu, sem þessi mál eru send þinginu í því skyni, að flutt verði frv. um þau, ef n. þætti það tiltækilegt.

Út af orðum hv. 4. þm. Reykv. verð ég að segja, að það kemur dálítið undarlega fyrir, þegar sá hv. þm., sem búinn er að skrifa undir nál. hér á þskj. 207, sem hljóðar þannig, að n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, kemur svo með brtt. við frv. Þótt hann skrifaði undir nál. með fyrirvara, skildi ég ekki fyrirvara hans þannig, að hann ætlaði að koma fram með brtt., heldur að hann vildi fara varlega í að veita ríkisborgararétt. Og í því er ég honum sammála. — Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að einn umsækjenda, sem er í þjónustu ríkisins, Tomas Haarde, mundi standa í vegi fyrir öðrum um atvinnu. Þar til er því að svara, að þessi maður heldur sjálfsagt áfram atvinnu sinni, þó að hann fái ekki ríkisborgararétt. Það er reyndar hægt að vísa honum úr landi, ef hann fær ekki ríkisborgararétt. En hvaða ástæða er til að halda, að slíku verði beitt við mann, sem búinn er að þjóna ríkinu í 5 ár og ég veit ekki betur en að hafi staðið vel í stöðu sinni? Annars vil ég taka fram, að ég þekki ekki þennan mann, hefi aldrei séð hann. En ég geng út frá því sem gefnu, að hann væri ekki hafður þarna í þessari þjónustu, ef hann væri ekki mjög sæmilegur maður. En hvað það snertir, að hann standi fyrir öðrum um atvinnu, þá gildir það undantekningarlaust um alla, sem veittur er ríkisborgararéttur, því að langflestir þurfa þeir að hafa einhverja atvinnu til að lifa af. Þar af leiðandi standa þeir kannske í vegi fyrir einhverjum öðrum. Þessi ástæða gagnvart þessum manni er að öllu athuguðu alls ekki frambærileg.

Það er dálítið undarlegt að fá þessi andmæli hér í Ed. gegn þessu frv. við 2. umr. málsins, eftir að málið hefir gengið gegnum Nd. með shlj. atkv., og þar fékk það afgreiðslu í allshn., þar sem 2 samflokksmenn hv. 4. þm. Reykv. eiga sæti, án þess að neinn ágreiningur væri gerður um þennan mann.

Um hina aðra, sem með frv. er lagt til, að fái ríkisborgararétt, hygg ég, að enginn vafi geti leikið á, að rétt sé að veita þeim hann, hversu strangar reglur sem annars væru um slíka veiting hafðar. Sá, sem er nr. 1. á frv., Hans Eide, er uppalinn hér á landi og hefir verið hér síðan árið 1897. Um nr. 3 og nr. 4 er það að segja, að það eru í raun og veru Íslendingar. Konan er íslenzk, en hefir verið eitt einasta ár í Þýzkalandi, og August Halblaut er sonur hennar, sem hefir verið upp alinn alveg hér á landi og hefir, síðan hann fluttist hingað sem smábarn, aldrei komið til útlanda, en á þýzkan föður og er fæddur í Þýzkalandi. Vegna faðernis síns hefir hann ekki ríkisborgararétt. Ég held því, að það sé ákaflega hart að neita þessu fólki um ríkisborgararétt, sem hér er upptalið.

En ég vil undirstrika það, og ég hygg, að ég geti gert það fyrir hönd allra allshn., að hún er sammála um, að rétt sé að vera strangur í kröfum í þessu efni. Enda hafa nefndunum borizt fleiri umsóknir, sem ekki hafa verið teknar til greina hér. Og það sýnir, að það er ekki gleypt við hverri umsókn og mælt með veiting ríkisborgararéttar til hvers sem vera skal, sem um það sækir.