10.04.1937
Efri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í C-deild Alþingistíðinda. (1700)

83. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Fáein orð út af frásögn hv. 4. landsk., um að þýzkir ríkisborgarar héldu þýzkum ríkisborgararétti, þótt þeir fengju ríkisborgararétt annarsstaðar. Það getur verið, að það sé rétt, en þó hygg ég, að þetta sé byggt á misskilningi. En þó að þetta væri rétt, þá skiptir það engu máli, því að enginn fær hér ríkisborgararétt fyrr en hann er laus við ríkisborgararétt þann, sem hann hafði.

Mér þykir það mjög einkennilegt, að ætla að víkja þessu máli frá með rökst. dagskrá. Hér er yfirleitt um Íslendinga að ræða, og sá eini norski maður, sem hv. 4. þm. Reykv. er að tala hér um, er nauðsynlegur starfsmaður hér. Hv. 4. þm. Reykv. sagðist hafa byggt till. sína á því, að það væru nægilega margir menn hér í Rvík. sem gætu unnið hans starf. Ég hefi nú hér í höndunum bréf frá bæjarsímastjóra og vil í þessu sambandi lesa það hér upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna ummæla hv. alþm. SÁÓ á þingfundi Ed. Alþingis í dag út af veitingu ríkisborgararéttar til T. Haarde, að hann sé ekki nauðsynlegur starfsmaður sjálfvirku stöðvarinnar, skal það upplýst, að þær upplýsingar eru ekki frá yfirmönnum hans, sem þvert á móti leggja mjög mikla áherzlu á að halda honum og hafa hingað til gert. Tel ég eftirlit sjálfvirku stöðvarinnar ekki öruggt nú né fyrst um sinn án hans. Þá má benda á það, að hér er enginn annar en hann fær um að sjá um stækkun sjálfvirku stöðvarinnar, sem nú stendur fyrir dyrum. Ennfremur má geta þess, að hann er trúlofaður íslenzkri stúlku og ætlar bráðlega að gifta sig og hefir nú þegar leigt sér íbúð.“

Hv. þm. Reykv. hlýtur að sjá það, að grundvöllurinn undir till. hans er fallinn, og það væri því bezt, að hann tæki hana aftur.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Mér finnst það mjög óviðeigandi, ef Alþingi ætlar að meina mönnum að fá ríkisborgararétt, sem eru ekkert annað en Íslendingar.