10.04.1937
Efri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í C-deild Alþingistíðinda. (1702)

83. mál, ríkisborgararéttur

*Pétur Magnússon:

Ég er að ýmsu leyti annarar skoðunar en allflestir þeir, sem talað hafa.

Menn hafa verið nokkuð sammála um það, að rétt væri að reisa nokkuð þröngar skorður við því, að útlendir menn flytjist hingað til landsins. Eins og ástandið í atvinnulífinu er nú, þá er ekki ástæðulaust, þó að menn kinoki sér við því að hleypa útlendum mönnum hingað, en undir normal kringumstæðum væri hinsvegar full þörf á því að fá innflutning inn í landið. Í þéttbýlu löndunum, þar sem erfiðleikar eru á því, að hafa nægileg verkefni handa landsins eigin börnum, þar er eðlilegt, að frekar sé staðið á móti innflutningi útlendinga, en hér stendur allt öðruvísi á, því að eins og við vitum, er landið okkar ekki nema hálfnumið, og enginn vafi á, að það, hve fáir menn búa í landinu, er eitt af allra alvarlegustu erfiðleikunum, sem hér er við að stríða og gerir margar nauðsynlegar framkvæmdir erfiðar eða jafnvel ómögulegar. Þetta sjá víst allir.

Mér finnst þess vegna mjög varhugavert að slá því föstu í eitt skipti fyrir öll, að standa eigi á móti innflutningi útlendinga. Ég held, að ef atvinnuhættirnir kæmust aftur í eðlilegt horf, þá gæti verið gott að fá útlendinga, ekki sízt Norðurlandabúa, inn í landið. — Hitt er annað mál, það er ekki nema sjálfsagt að hafa reglulegt eftirlit með þeim innflutningi. Það er náttúrlega enginn ávinningur í því, að fá hingað einhvern ruslaralýð, sem „havarerað“ hefir í sínu eigin landi, heldur duglega menn, sem vildu leggja fyrir sig einhverja atvinnu hér. — Af þessum ástæðum er ég á móti því, að farið sé að samþykkja, að frv. um ríkisborgararétt skuli flutt af ríkisstj. Ég get ekki betur séð en að vilji Alþingis í þessum efnum eigi að fá að njóta sín, hverrar skoðunar, sem ríkisstj. sú er, sem með völdin fer á hverjum tíma, og mun því eindregið greiða atkv. á móti dagskrártill. hv. 4. landsk.