16.04.1937
Efri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í C-deild Alþingistíðinda. (1707)

83. mál, ríkisborgararéttur

*Bernharð Stefánsson:

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 308, um að Andresi Valderhaug bakara á Dalvík sé veittur ríkisborararéttur. Ég skal taka það fram, að í till. stendur „bókari“, en á að vera bakari. — Frsm. n. gat um það, að ég hefði ekki sent n. nein skjöl viðvíkjandi þessum manni. Það er nú saga að segja frá, hvernig á því stendur. Það mun hafa verið á þinginu 1935, að þessi maður, sem þá var bakari í Ólafsfirði, sótti um ríkisborgararétt og sendi öll skjöl, sem krafizt er í því sambandi, suður til mín. Þau skjöl afhenti ég þá allshn. Nd., og allshn. þessarar d. mun einnig hafa haft þau til meðferðar. En nú get ég ómögulega fengið þessi skjöl aftur eða grafið upp, hvar þau eru niður komin. En þótt þetta sé nú svo, þá hygg ég, að það geri ekki svo mikinn skaða; ég veit t. d., að hv. 2. þm. S.-M. man vel eftir þessum skjölum og mun kannast við það. Eins hefi ég átt tal við menn, sem þá áttu sæti í allshn. Nd., og muna þeir einnig vel eftir þessu. Yfirleitt voru öll vottorð þessa manns í lagi. Hann flutti hingað 1928, og vantar því að vísu nokkuð til að hafa verið búsettur hér þann tíma, sem yfirleitt er krafizt, til þess að veittur sé ríkisborgararéttur, en hann er giftur íslenzkri konu og fastur starfsmaður hjá íslenzku fyrirtæki, og það er mjög bagalegt bæði fyrir það fyrirtæki og hann sjálfan, að hann skuli ekki geta fengið ríkisborgararétt. Ég álít, að hin almennu lög um veitingu ríkisborgararéttar geti ekki hindrað Alþingi í að veita þeim mönnum ríkisborgararétt, sem því sýnist, með nýjum lögum, og hefi því leyft mér að bera þessa brtt. fram. Ég hefi fyrir framan mig bréf frá þessum manni, skrifað af honum sjálfum á íslenzku og geta menn fengið að sjá það. Ég hygg, að jafnvel íslenzkukennarar mundu ekki finna margar villur í því, þannig að ég get fullyrt, að þessi maður kann mjög vel íslenzku, eftir því sem gerist um útlenda menn, sem hér hafa dvalið. Hv. d. verður náttúrlega að ráða, hvernig hún tekur í þetta mál; ég sá ekki ástæðu til að liggja á þessari umsókn, því að ég tel hana eftir atvikum vel frambærilega. Hvað það snertir, að skjölin vantar, þá get ég enga ábyrgð borið á því; það verða þær n. að gera, sem höfðu þau undir höndum, og ég tel, að maðurinn eigi nokkra heimtingu á að fá þau aftur, því að sum þeirra voru frá Noregi, og kostar nokkra fyrirhöfn að fá þau.