16.04.1937
Efri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í C-deild Alþingistíðinda. (1712)

83. mál, ríkisborgararéttur

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég hefi talað áður í þessu máli og látið í ljós skoðun mína á því. En ég er satt að segja dálítið undrandi yfir því kappi, sem á það er lagt, að láta erlenda menn, sem hér dvelja, fá íslenzkan þegnrétt. Ég held, að allir þessir menn geti starfað í landinu samkv. dvalar- og sumarleyfum og haft öll atvinnu- og persónuréttindi, þótt ekki sé verið að flýta sér að veita þeim íslenzkan þegnrétt og taka þá þannig að sér um aldur og æfi og lofa að sjá þeim fyrir lífsframfæri, ef þeir hafa ekki atvinnu. Ég held, að það gæti hvergi annarstaðar en hér átt sér stað slíkt kapphlaup um að hrúga að sér nýjum ríkisborgurum. Það kemur manni undarlega fyrir sjónir, þegar nýbúið er að setja lög og reglugerð um strangara eftirlit með útlendingum heldur en verið hefir, og fyrir stuttu var lögreglan aukin, m. a. með þeim rökstuðningi, að hún gæti starfað í þágu ríkisins að þessu eftirliti. Á sama tíma og verið er að veita útlendingum þegnréttindi hér eftir stutta dvöl, þrátt fyrir atvinnuleysi landsmanna, er verið að reka Íslendinga heim, jafnvel eftir 20 ára dvöl, frá sömu löndunum sem við erum að taka við mönnum frá. Þetta land hefir verið opnara fyrir útlendingum heldur en nokkurt annað land, og síðan erfiðleikarnir fóru að vaxa, hafa menn reynt meir og meir að komast hingað í atvinnu stuttan tíma og fá svo íslenzkan þegnrétt. Ég get sagt hv. d. það, að við megum búast við að fá nokkra tugi af svipuðum umsóknum sem hér liggja fyrir. Það líður ekki svo vika, að ekki komi í stjórnarráðið fleiri eða færri útlendingar til að biðja um dvalarleyfi og atvinnuleyfi, og síðan vilja þeir vitanlega fá þegnrétt. En ég hélt, að við hefðum nóg af atvinnulausu fólki hér, þótt við værum ekki að sækjast eftir að taka að okkur útlendinga.