02.04.1937
Efri deild: 30. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

13. mál, Kreppulánasjóður

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði síðast, vil ég taka fram, að ég sé ekki, hvaða ástæða er til að fresta brtt. til 3. umr. Hann getur komið með brtt. við 3. umr., þó að gengið sé til atkv. um brtt. nú. Ég hefi í sjálfu sér ekkert á móti því, að atkvgr. sé frestað, en ég sé bara ekki, að það hafi neitt að þýða.

Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði um till. n., skal ég taka fram, að ég get ekki gengið inn á, að sá liður, sem hér er a-liður, verði síðastur, og það er af því, að hér er verið að ráðstafa fé, sem á síðasta þingi var ætlað sveitarfélögunum. Upphæðinni var skipt að jöfnum hlutum milli kaupstaða annarsvegar og kauptúna og hreppa hinsvegar. Svo kemur það fram, að kaupstaðirnir nota allan sinn hluta, en kauptún og sveitahreppar ekki allan sinn hluta. Þess vegna vil ég, ef til eru hreppar eða kauptún, sem vilja nota þessi heimildarlög, að þau hafi forgangsrétt, en ég held, að mjög fáir hreppar eða kauptún mundu sækja um þetta, og dreg ég það af því, að af öllum þeim sveitarfélögum, sem báru fram kvartanir sínar við okkur, sem veittum lánin, voru aðeins tvö, sem ekki gátu komizt að.

Um Hafnarfjörð skal ég geta þess, að sá kaupstaður var ekki við því búinn að sækja á réttum tíma, hann bjóst við að fá svo mikið inn af útistandandi skuldum, að hann kæmist af án láns. Á þessu á því enginn sök, enda ber og að minnast þess, að Hafnarfjörður hafði ári áður „konverterað“ miklu af sínum skuldum. Ég er samt ekki á móti því, að Hafnarfjörður fái viðbótarlán; það er síður en svo. En ég segi þetta til þess að sýna fram á, að það var ekki hlutdrægni frá kreppulánasjóðsnefndinni, sem gerði það að verkum, að Hafnarfjörður fékk ekki hærra lán en raun varð á.

Hv. þm. Dal. kvartaði yfir, að hann hefði ekki fengið goldnar kröfur, sem hann gerði tilkall til. Ég man ekki um einstakar kröfur. En mörgum sýslumönnunum var illa við að fá kreppubréf í stað peninga, en þá höfðum við ekki, og þegar sveitarfélögin áttu von á að fá greiðslur í peningum úr ríkissjóði vegna fátækraframfærisins 1936, eða því var lýst yfir, að borgað yrði í peningum, þá létum við slíkar kröfur standa.