31.03.1937
Neðri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í C-deild Alþingistíðinda. (1725)

84. mál, sala mjólkur og rjóma o. fl.

Ólafur Thors:

Ég þarf litlu við það að bæta, sem ég sagði við fyrra hl. þessarar umr., og það því síður sem hv. þm. Borgf. hefir gert ýtarlega grein fyrir málinu. Hæstv. forsrh., sem andmælti minni ræðu, er ekki heldur viðstaddur, og það, sem ég þyrfti að taka fram nú, væri helzt til andsvara því, er hann færði fram málinu til stuðnings. Ég ætla þó að drepa lítillega á tvö eða þrjú atriði, sem ég tel rétt, að þingtíðindin greini frá, enda þótt hæstv. forsrh. sé ekki við.

Aðalröksemd hæstv. forsrh. fyrir því, að réttlátt væri, að mjólkin væri seld öll einu verði, var sú, að kjöt væri jafnmikils virði, hvort sem það væri framleitt nær eða fjær neyzlustaðnum. Þetta getur verið rétt, að því er snertir kjötið, þó að ég fullyrði ekki, að svo sé, en það er ekki rétt um mjólkina. Það er aðalatriðið, hvar mjólkin er framleidd. Þeir, sem ekki telja rétt að hafa allsherjarverð, byggja það á því, að um langt tímabil ársins er ekki hægt að koma mjólkinni austan yfir fjall á Reykjavíkurmarkaðinn, þannig að hún sé góð vara. Ef sjá á Reykjavík fyrir nægri mjólk, verður því að tryggja bændum Gullbringu- og Kjósarsýslu lífvænlega aðstöðu til búrekstrar. Hinsvegar er það játað, að þessir bændur hafa yfirleitt erfiðari aðstöðu til búrekstrar en aðrir, sem stundum geta komið mjólk óskemmdri á Reykjavíkurmarkað. Því verður að sjá um, að þeir njóti sæmilegs verðs, án tillits til þess, hvort hægt er að tryggja öllum öðrum sama verð, og eigi að verðhækka austanmjólkina verður a. m. k. að gera það án þess að verðfella vestanmjólkina.

En svo vil ég einnig undirstrika það, sem ég gat um í fyrri ræðu minni, að það eru til aðrar leiðir og öruggari til að tryggja hag bænda austanfjalls, leiðir, sem hægt er að fara, án þess að ríða niður hag bænda vestanfjalls. Ef til er slík leið, er sjálfsagt að fara hana. Sá, sem mest hefir hugsað um þetta og mest gagn unnið mjólkurmálunum hér, Eyjólfur Jóhannsson, hefir bent á leiðir til að afla verðjöfnunarsjóði tekna án þess að leggja skatt á mjólkina. Og þegar hægt er að benda á slíkar leiðir, sem ekki koma hart við ríkissjóð, þá ættu allir að vera sammála um, að þær beri að velja. Þess vegna bið ég um vernd fyrir bændur í Gullbringu- og Kjósarsýslu og nágrenni Reykjavíkur. Þeir þurfa á þessari vernd að halda og geta ekki framfleytt sér ella. Hinsvegar legg ég áherzlu á það, að hag bænda austanfjalls er betur borgið með úrræðum Eyjólfs Jóhannssonar en þessum aðferðum, sem frv. gerir ráð fyrir. Af þessum ástæðum andmæli ég frv. Að öðru leyti mun ég ekki gera einstök atriði frv. að umræðuefni, einkum af því, að hvorki hæstv. forsrh.hv. þm. Mýr. er viðstaddur. En ég leiði athygli að því, að nærri hvert orð hv. þm. Mýr. staðfesti mín orð, að bændur Gullbringu- og Kjósarsýslu myndu ekki geta risið undir þessum álögum.