31.03.1937
Neðri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í C-deild Alþingistíðinda. (1727)

84. mál, sala mjólkur og rjóma o. fl.

*Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég bið hv. þm. að afsaka, þótt ég fari ekki eftir réttri röð ræðumanna, eins og þeir hafa talað.

Út af orðum hv. þm. Hafnf. vil ég taka það fram, að lækkun mjólkurverðsins ein myndi ekki geta bætt miklu um fyrir bændum, ef ekki væri jafnframt gerðar ráðstafanir til að auka tekjur verðjöfnunarsjóðs, því að þó að neyzla kynni að aukast eitthvað, væri ekki þar með tryggt, að bændur bæru meira úr býtum. Þó er þetta fyllilega athugandi í sambandi við aðrar leiðir til lausnar þessu máli.

Þá er ræða hv. 3. þm. Reykv. Hann sagði, að ef frv. næði samþykki, þá væri hætta á, að Reykjavík fengi ekki næga mjólk, því að þeir, sem í nágrenni bæjarins búa, myndu draga úr framleiðslu sinni eða breyta um framleiðslu. Þetta hygg ég vera ástæðulausan ótta, því að ég vona, að verðið þurfi ekki að lækka til þessara manna, ef framkvæmdar eru þær ráðstafanir, sem um getur í frv. og afla eiga verðjöfnunarsjóði tekna, og einkum þó ef þær ráðagerðir ná fram að ganga, sem að er vikið í grg., að afla sjóðnum tekna með því, að taka upp nýtt fyrirkomulag á sölu smjörlíkis og með innflutningstolli af fóðurbæti. Þá þarf mjólkurverðið ekki að lækka hér í nærsveitunum, þó að þessi ráðstöfun sé gerð, og þannig geta farið saman hagsmunir bænda austanfjalls og vestan, sem hv. þm. G.-K. vildi bera fyrir brjósti. Ég vil líka gjarnan taka höndum saman við hann og gera hagsmunum þeirra jafnt undir höfði.

Það fær enginn mig til þess að fallast á það, að þeir, sem búa í Gullbringusýslu, eigi sérstakan rétt umfram þá, sem búa lengra í burtu, þar sem þeir, er nær búa, geta með auðveldari hætti komið sínum afurðum til bæjarbúa. — Það er heldur engu verri sú mjólk, sem framleidd er á góðu graslendi, heldur en sú, sem framleidd er með kjarnfóðri, eins og algengt er hér í nágrenni bæjarins, svo að að því leyti er ekki um lakari mjólk að ræða frá bændum austanfjalls. En viðvíkjandi þeim ótta, sem fram kom hjá hv. 3. þm. Reykv., vil ég bæta því við, að þótt svo kynni að fara, sem ég geri ekki ráð fyrir, að bændur í nærsveitunum dragi úr sinni mjólkurframleiðslu, þá eru aðrar sveitir, sem öruggar samgöngur eru við. Þó að svo kynni að vera, að leiðin teppist austur yfir fjall, sem engar líkur eru til, eftir að Suðurlandsbrautin er fullgerð, þá er hægt að flytja mjólk ofan úr Borgarfirði til Reykjavíkur. Og eftir að Suðurlandsbrautin er fullgerð, er alveg eins hægt að flytja mjólk þá leið eins og ofan úr Kjós og Mosfellssveit. Það sýndi sig síðastliðinn vetur, að snjóléttara var á þessari leið. Þetta er því ástæðulaus ótti hjá hv. 3. þm. Reykv. Hinsvegar skil ég mjög vel, hvers vegna hv. 3. þm. Reykv. hefir fest augu einmitt á þessu, og að hann vekti máls á því.

Ég hefi með þessu svarað þeim ákúrum, sem hv. 3. þm. Reykv. lét falla hér í sinni fyrstu ræðu. Að frv. sé stjórnarskrárbrot er skýlaus firra. Þeir, sem búa í grennd við Reykjavík, eiga vitaskuld alls ekki þennan markað frekar en aðrir landsmenn. Ég vil spyrja — af því að hv. 3. þm. Reykv. vildi undirstrika, að þeir ættu þennan rétt, — hvar er þeim tryggður þessi réttur? Ég kann satt að segja ekki við þessa flokkun á mönnum, sem hafa aðstöðu til þess að nota þennan markað, að þeir skuli ekki mega sitja við sama borð.

Þá ætla ég að koma með fáeinum orðum að því, sem hv. þm. Borgf. sagði.

Ég held, að hann hafi sagt of mikið viðvíkjandi því, sem hann hafði eftir hv. þm. Mýr., að hann teldi þetta skarða hagsmuni framleiðenda í nágrenni bæjarins alveg óbærilega. Ég hefi ekki viðurkennt það og vil gjarnan ganga frá þessu máli þannig, að ekki þurfi til slíks að koma. Hinsvegar fannst hv. þm. mótsögn í því, að framleiðendur innan kaupstaðarins sætu ekki við sama borð og framleiðendur í nágrannasveitunum. En ég vil biðja hann að gæta þess, að framleiðendur innan þeirra kaupstaða, þar sem þessi vara er seld, bæði frá nágrannasveitunum og hinum fjarlægari sveitum, hafa nokkra sérstöðu. Fyrst og fremst eru allar líkur til þess, að hjá flestum þeirra hafi ræktunin orðið dýrari heldur en annarsstaðar, og í annan stað eru þetta þegnar þessara bæjarfélaga og skattgreiðendur. Þeir hafa með þessu nokkur fríðindi fram yfir þá, sem fjær búa, en aftur á móti meiri skyldur. Er því réttmætt, að þeir njóti sinnar aðstöðu og að haldist í hendur réttindi þeirra innan bæjarfélagsins og skyldur. Þess vegna er síður en svo, að gæti ósamræmis í því, að gera mun á þeim, sem búa í kaupstaðnum, og þeim, sem búa í öðrum sveitarfélögum.

Ég held, að ég þurfi svo ekki að fjölyrða um þetta frekar. Ég vil vona, að þessu máli verði vísað til hv. landbn. og hún taki það til rækilegrar athugunar. Að sjálfsögðu er ég fús til þess að taka til greina hverja góða till., sem miðar til heppilegrar lausnar á þessu máli. En ég get lýst því yfir, að ég sætti mig ekki við þá flokkun, að bara, ef menn búa fyrir utan sýslumörk Gullbringu- og Kjósarsýslu, eigi þeir að sitja við annan rétt. Þá dregur að því, sem öllum er fyrir verstu, að þrotlaust kapp verður um sölu og ekki hirt um, hverjir hljóta tjón af.