31.03.1937
Neðri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í C-deild Alþingistíðinda. (1728)

84. mál, sala mjólkur og rjóma o. fl.

*Pétur Ottesen:

Ég tek til máls eingöngu út af því, að hv. 1. þm. Árn. vildi vefengja, að ég hefði haft rétt eftir, að því leyti, sem ég vitnaði í ræðu hv. meðflm. hans að þessu frv., hv. þm. Mýr. Ég skrifaði þau orð upp eftir hv. þm. Mýr. Hann sagði um búskaparafkomu manna í nágrenni Reykjavíkur, í Mosfellssveit og Kjalarnesi, að þeir þyldu alls enga lækkun. M. ö. o., lækkun á mjólkurverðinu myndi kippa fótunum undan þeirri mjög svo rýru búskaparafkomu, sem þessir menn búa við nú. Ég veit ekki, hvort orð hv. þm. hafa fallið öðruvísi, þegar hann var að koma þessu máli á framfæri í hv. d., en þetta var sú játning, sem hv. þm. gerði, þegar hann ætlaði að færa rök fyrir þessu máli. Það er sem sé viðurkennt af hv. þm. Mýr., þótt hv. 1. þm. Árn. vilji ekki viðurkenna það, að sú myndi verða afleiðingin af þessu frv., að koma þessum mönnum fjárhagslega á kné. Ég verð að segja það, að þegar setja á löggjöf, sem á að vera til umbóta, er það athyglisvert, að þegar fyrsta afleiðingin af slíkri lagasetningu myndi verða sú, að koma nokkrum hóp bænda fjárhagslega á kné. Ef þetta er ekki athyglisvert, þá veit ég ekki, hvað það er, sem á að leiða hugann að, áður en slíkt spor er stigið. Mér þykir því betra að vitna í þessi ummæli, af því að þau koma frá hv. þm. Mýr., sem er flm. þessa frv. og ekki mundi ótilknúinn gera slíkar játningar.

Ég veit ekki, hvert á að komast með þessa bændur, sem framleiða mjólk fyrir vestan heiði. Þetta frv. felur í sér mikla lækkun á mjólkurverði þeirra, og svo rís upp mikilsráðandi maður úr öðrum stjórnarflokknum og fer að tala um að lækka verðið, sem á að liggja til grundvallar fyrir útborgun til þessara manna, þ. e. útsöluverðið. Og svo eftir frv. á að lækka verðið hjá þeim, sem búa hér í nágrenninu, til þess að hækka hjá þein, sem fjær búa. Mér skilst, að hér séu á prjónunum tvöföld fjörráð gagnvart þessum bændum. Það er ekki einu sinni nóg að borga verðjöfnunargjaldið samkvæmt lögunum 8%, heldur hefi ég heyrt, að mjólkursölunefndin hafi tekið allt að 150 þús. kr. rekstrarafgang, sem varð hjá samsölunni, til þess að bæta upp verðið austanfjalls. Ég hefi ekki getað fundið í þeirri löggjöf um þetta efni, sem nú gildir, neinn lagalegan grundvöll undir slíkum ráðstöfunum. En hún er einmitt undanfari þeirrar ráðstöfunar, sem á að gera samkv. þessu frv.

Ég vil nú benda á, hvað af því getur leitt fyrir aðra framleiðslu okkar, að ákveða allsherjarverðlag á mjólk á stóru svæði á landinu.

Það verður auðvitað næsta sporið, að láta gilda eitt allsherjarverð fyrir allt kjöt hér á landi, svo að þeir, sem búa við innanlandssöluna, missi þá aðstöðu, sem þeir hafa haft, og hún yfirfærð til annara manna, sem fjær búa og aðra aðstöðu hafa. Af þessu hlýtur að leiða, verði slíkar ráðstafanir færðar út á vítt svið, að stór breyting verður á öllum eignum hér á landi. Tökum t. d. fasteignirnar. Það er vitanlegt, að fasteignamat er miðað við þá búskaparafkomu, sem er á hverjum stað, eins og var, þegar síðasta fasteignamat fór fram. Ef þessum mismun verður öllum kippt burt og jafnað yfir þetta allt saman, þá hlýtur af því að leiða mikla breytingu og röskun á öllum þeim hugmyndum, sem menn hafa gert sér um verðgildi fasteigna víðsvegar á landinu.

Út af því, sem hv. 1. þm. Árn. sagði, að þeir, sem byggju á bæjarlandinu, hefðu sérstöðu í þessu máli, sem ætti að taka tillit til, þá get ég ekki viðurkennt, þó að þeir hafi einhverja sérstöðu, samkvæmt þeim hugsanagangi, sem þetta frv. er byggt upp á, að ekki sé nokkur mótsögn í ákvæðunum, sem gilda um þessa menn, og þeim sem gilda um menn, sem búa aðeins utan við takmörk bæjarins og ekki hafa að nokkru leyti við betri skilyrði að búa, nema síður sé, þar sem þeir verða að borga meiri flutningskostnað. Ég vil ekki á nokkurn hátt bera neitt það fram, sem gæti verið til þess að rýra aðstöðu þessara manna, en mér virðist, að öðrum sé þó ófyrirsynju gert erfitt fyrir.

Það er gott að hv. 1. þm. Árn. hefir tekið mjög vel og liðlega í það að taka til greina aðrar uppástungur, sem fram kunna að koma og geta leitt til farsællar úrlausnar þessa máls. En það er rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að það hefir engin lausn fengizt á þessu máli. Því að við vitum um alla þá óánægju, sem hefir orðið út af þessu máli, sem stafar þó ekki af lagasetningunni út af fyrir sig, heldur þeim eindæma framkvæmdum, sem hafa orðið á þessu máli. En hitt verð ég að segja, að þó að hv. 1. þm. Árn. tæki vel í að ræða um alla möguleika til þess að ráða þessu máli til lykta, að þá kvað við annan tón hjá formanni mjólkursölunefndar, eftir því sem hann tók á móti þessum till. í Nýja dagblaðinu um daginn, því að hann fordæmdi þær niður fyrir allar hellur.

Þetta mál er þannig vaxið, að það veltur mikið á því, að fá á því skynsamlega lausn hér á Alþingi og að fá sanngjarna og óhlutdræga framkvæmd í þessari löggjöf.