31.03.1937
Neðri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í C-deild Alþingistíðinda. (1729)

84. mál, sala mjólkur og rjóma o. fl.

Páll Zóphóníasson:

Hr. forseti! Það er aðallega tvennt í þessum umr., sem mig langar til að beina athyglinni að. Annarsvegar það, að hv. 3. þm. Reykv., hv. þm. Borgf., hv. 5. þm. Reykv. og hv. þm. G.-K., hafi allir gert mikið úr því, að þeir menn, sem búa hér næst honum, hafi það hlutverk með höndum að „forsýna“ bærinn með mjólk — þeir eigi að skapa öryggi fyrir því, að alltaf geti komizt mjólk til bæjarins. Nú er það svo, að frá öllu því svæði, sem þeir vilja láta hafa hærra verð, koma, þegar mjólkurmagn þeirra er minnst, 9 þús. lítrar af mjólk á dag, en salan í bænum fer aldrei niður fyrir 14 þús. lítra á dag, svo að þá myndu þeir ekki geta fullnægt þörfum bæjarins með allri sinni mjólk. Að vísu fara þeir upp í 20 þús. lítra á dag, þegar mjólkurmagn þeirra er mest, svo að þá myndu þeir geta fullnægt eftirspurninni. Þetta svæði getur því ekki eins og nú er fullnægt mjólkurþörf bæjarins.

Hitt sem ég vildi taka fram, var, að ég kann því illa hjá hv. þm. Borgf., að slíta hvað eftir annað út úr samhengi það, sem hv. þm. Mýr. sagði, og hnýta því innan um, aftan við og framan við það, sem hann sjálfur segir, og gefa því allt aðra merkingu en hv. þm. Mýr. sagði það, að þegar kreppulánin hefðu verið afgreidd til bænda hér í grennd, hefði verið miðað við, að þeir fengju hærra verð fyrir sína mjólk en aðrir, og það hefði verið gengið inn á að meta jarðirnar upp aftur og lána út á þrefalt fasteignamat, og að hann byggist við, að þeir gætu ekki undir því risið, nema gripið væri til annara ráða til þess að létta þeim skuldabaggann, ef mjólkurverðið til hinna lækkaði. Þetta hafði hv. þm. Borgf. sleppt að minnast á. Hv. þm. Mýr. benti á, að innan þessara sveita væru menn, sem vegna sérstöðu sinnar við skuldauppgjör myndu ekki geta þolað lægra mjólkurverð, og þess vegna yrði að finna önnur ráð til þess að létta af þeim skuldum.

Af því að hv. þm. Mýr. er ekki viðlátinn og heyrði ekki hvernig hv. þm. Borgf. fór með ummæli hans, þá vildi ég láta þetta koma fram, svo að þeir, sem hlustuðu ekki á hv. þm. Mýr. en hlustuðu á hv. þm. Borgf., yrðu ekki fyrir misskilningi. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál nú. Það kemur til landbn., þar sem ég á sæti. Þar er hv. þm. Borgf. og hv. þm. Mýr. líka, svo að þá getum við um þetta talað og gengið frá okkar málum eins og okkur þykir rétt vera.