19.04.1937
Neðri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í C-deild Alþingistíðinda. (1737)

84. mál, sala mjólkur og rjóma o. fl.

Emil Jónsson:

Aðalatriði þessa frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 103, um breytingu á l. nr. 17. jan. 1935, um meðferð og sölu mjólkur og rjóma, er það, sem felst í 1. gr. frv., að 2. gr. hinna gildandi l. um þetta efni skuli gerbreytast og hámark verðjöfnunargjaldsins svokallaða verða óákveðið, ótakmarkað. Í 2. gr. núgildandi laga um þetta efni er kveðið svo á, að gjald þetta megi nema allt að 5% af útsöluverði mjólkur og rjóma, en heimilt sé þó að hækka gjaldið, ef sérstök þörf krefur, þó aldrei meira en í 8%, enda komi samþykkt landbúnrh. til, og mun því meiningin í upphafi hafa verið sú, að gjaldið yrði venjulegast 5%, en að hitt væri undantekning, að það færi upp í 8%. — Ég veit að vísu, að þetta gjald hefir alla tíð síðan lögin gengu í gildi verið 8%. Á því hefir verið talin brýn þörf. Lögin heimila það einnig, svo að um það er í sjálfu sér ekkert að segja, en mjög verulegt gjald er þetta nú samt, 3,2 aurar á hvern einasta lítra.

Þegar Alþfl. gekk til samvinnu við Framsfl. í upphafi þessa kjörtímabils, var á milli flokkanna gerður sérstakur málefnasamningur, eins og kunnugt er. Eitt atriði í þessum málefnasamningi var það, að skipað yrði með lögum sölu landbúnaðarafurða innanlands, til að fyrirbyggja óheilbrigt verzlunarástand með þessar vörur, óheilbrigða samkeppni, tryggja hollustuhætti þeirra, lækka dreifingarkostnaðinn og þar með einnig verðið til neytendanna. Núgildandi lög um þetta efni eru því til orðin með stuðningi Alþfl., og ber hann sinn hluta af ábyrgðinni á þessu, bæði bráðabirgðal., sem sett voru á árinu 1934, og staðfestingu þeirra á þinginu á eftir.

Ástæðurnar fyrir því, að Alþfl. gekk með í það að taka þátt í þessari löggjöf, voru þær aðallega, að með því taldi hann vera hægt að lækka svo dreifingarkostnaðinn við söluna á aðalmarkaðinum í Reykjavík og Hafnarfirði, að báðir aðiljar gætu haft hagnað. Bændurnir gætu fengið nokkru hærra útborgað verð til sin, og neytendur einnig fengið nokkra verðlækkun í sinn hlut. Það er nú sjálfsagt, þegar farið er fram á, að þessu skipulagi, sem gilt hefir nú í 2 ár, verði breytt, að athuga, hvernig það hefir gefizt, hvað upp úr því hefir hafzt, bæði fyrir neytendur og framleiðendur.

Sú hliðin, sem að neytendunum snýr, er alveg klár. Mjólkin hefir lækkað úr 42 aurum á lítra niður í 40 aura, eða lækkað um 2 aura lítrinn. Frekari lækkun hefir ekki fengizt, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir okkar alþýðuflokksmannanna og þrátt fyrir það, að við höfum sýnt fram á það með gildum rökum, að neytendum bæri stærri hlutinn af því, sem sparazt hefir við skipulagninguna og þó að sterkar líkur bendi til, að frekari lækkun á mjólkinni mundi þýða aukna sölu og þar með meiri tekjur fyrir mjólkurframleiðendur, og mun ég koma að því atriði siðar. Þetta var sú hliðin, sem snýr að mjólkurneytendunum.

Sú hliðin, sem að mjólkurframleiðendum snýr, er þannig, að á þessum 2 árum, síðan mjólkurlögin voru sett, hefir mjólkurverðið hjá þeim, sem skipta við mjólkurbú Flóamanna, hækkað um ca. 4. aura, úr rúmum 15 au. upp í rúma 19 au. pr. lítra, svo að hækkunin til þeirra hefir verið 2 aurum á lítra meira en lækkunin til mjólkurneytendanna. Um mjólkurverðið hér vestan heiðar er allt meira á huldu. Mjólkurfélag Reykjavíkur birtir ekki opinberlega reikninga sína, svo að um það er allt erfiðara að segja en framleiðendurna austan fjalls. Það er nú reyndar alveg furðulegt, að M. R., sem lekið hefir jafnmikinn þátt í opinberum rökræðum um þetta mál, skuli ekki birta reikninga sína og leggja þá hreinlega á borðið til samanburðar. Mér er meira að segja sagt, að félagsmenn sjálfir fái ekki að sjá reikningana, og þó gerir félagið þá kröfu, að það sé kallað samvinnufélag. Það er undarlegt samvinnufélag það, þar sem félagsmenn fá ekki einusinni sjálfir að sjá reikningana. — Nú, en mér hafa samt borizt í hendur viðskiptareikningar eins manns í félaginu við það, og ef tekin eru árin 1933 og 34, þá sýna þessir reikningar, að útborgað verð fyrir mjólkina hefir verið að meðaltali 24,3 aurar pr. lítra þessi ár, en eftir að samsalan tekur til starfa í ársbyrjun 1935 og fram á þennan dag, hefir útborgað verð verið rúmir 26 au. pr. lítra, eða hækkun um 2 pr. lítra. Er það helmingi minni hækkun en orðið hefir hjá viðskiptamönnum Flóabúsins.

Þetta sölufyrirkomulag mjólkurinnar hefir því þegar sparað 4–6 au. pr. lítra. Þar af hafa 2–4 aurar farið til framleiðenda, en 2 au. til neytenda.

Við þetta er þó eitt að athuga, sem ég tel rétt að minnast á hér líka, og það er það, að rekstrarhagnaður, sem varð á samsölunni 1936, 165 þús. kr., hefir ekki verið notaðar til verðuppbótar fyrir viðskiptamenn samsölunnar, heldur tekinn í verðjöfnunarsjóð og ráðstafað með verðjöfnunargjaldinu eins og því. Þessi ráðstöfun er mjög hæpin, að ekki sé meira sagt, og það þegar af þeirri ástæðu, að lögin heimila ekki að taka meira gjald af neyzlumjólkursölunni en 8% hæst, og það hefir verið gert, en þessi rekstrarhagnaður er tekinn að auki. Í öðru lagi er mér sagt, að útborgunarverð mjólkurinnar hafi í upphafi verið áætlað hærra en hún er borguð út, en það hafi verið lækkað aðeins vegna þess, að varlegra þótti að hafa eitthvað upp á að hlaupa, ef út af bæri, en þeim ágóða, sem þannig kynni að skapast, yrði úthlutað síðar til viðskiptamanna samsölunnar.

En ef þessum rekstrarafgangi samsölunnar væri úthlutað til þessara manna, sem ég tel vera hina réttu eigendur hans, hefði mjólkurverðið hækkað hjá þeim um 2–3 au. á lítra.

Þessi árangur, sem náðst hefir á 1. og 2. ári mjólkursamsölunnar, er eftir atvikum góður, og ég tel það afarhæpna leið hjá Framsfl., að stofna nú í hættu þeim árangri, sem þegar hefir náðst, með ótakmarkaðri hækkun verðjöfnunargjaldsins og þeim átökum, sem því hljóta að fylgja. Menn vita það, hverju þeir sleppa, en ekki, hvað þeir hreppa.

Ástæðan, sem færð er fram fyrir nauðsyn þessarar hækkunar, er aðeins ein, en það er aukning mjólkurmagnsins til búanna. Í grg. fyrir frv. segir, að mjólkurmagn það, sem búin hafi tekið á móti 1933, hafi verið 6,4 millj. lítra, en þetta mjólkurmagn sé nú komið upp í 11,7 millj. lítra, eða hafi með öðrum orðum vaxið um 83%. Í sjálfu sér segir nú þessi tala furðu lítið, því að hún segir ekkert um það, hvernig þessi aukning hefir orðið. Ef hún hefði orðið á þann hátt, að tilsvarandi fjölgun hefði orðið á framleiðendum, þannig að nú væru 83% fleiri viðskiptamenn við búin en áður, þá væri sjálfsagt nauðsynlegt að taka þetta til greina, því að þá þýddi lækkað mjólkurverð lækkaðar brúttótekjur til hvers einstaklings. En þetta mun alls ekki vera tilfellið, heldur mun hið aukna mjólkurmagn fyrst og fremst stafa af því, að mjólkurframleiðendur, með hækkandi verðlagi, hafi aukið framleiðsluna hver um sig eftir getu. Nú er það vitað, að tilkostnaðurinn við framleiðsluaukninguna þarf alls ekki að vera jafnmikill og upphaflegi framleiðslukostnaðurinn, og er það heldur ekki í flestum tilfellum. Afkoma bóndans, sem getur aukið framleiðslu sína um 30–40–50%, getur því á þann hátt orðið miklu betri, jafnvel þó að verðið lækki um 1–2 aura á lítra, ef hann bara getur losnað við hana. Mjólkuraukningin út af fyrir sig þarf því alls ekki að þýða það, að nauðsynlegt sé að halda sama verðlaginu og var áður en aukningin átti sér stað.

En hvað sem um það er, mjólkuraukningunni þarf að skapa markað, og þá auðvitað fyrst og fremst þann markað, sem kaupir vöruna dýrustu verði, en það er neyzlumjólkurmarkaðurinn í Reykjavík og Hafnarfirði. Tillögur okkar alþýðuflokksmanna hnigu að þessu atriði fyrst og fremst. Þessi aukning teljum við, að geti átt sér stað, ef söluverð mjólkurinnar er lækkað og kaupgeta almennings á þessum stöðum tryggð með sæmilegri atvinnu fyrir fólkið. Hér í þessari hv. d. var í fyrradag verið að ræða um verðfellingu krónunnar, sem Bændafl. berst fyrir. En ég er ekki í nokkrum vafa um það, að ef krónan yrði felld í verði, þá væri það öruggasta leiðin til þess að færa niður mjólkurkaup almennings, eins og kaup á öðrum nauðsynjavörum, bókstaflega vegna getuleysis almennings til að kaupa þessar vörur. Til þess að auka sölumöguleikana á þessum bezta markaði mjólkurinnar, verður því að gera þetta tvennt jafnhliða, það þarf að lækka mjólkurverðið og tryggja kaupgetu fólksins. Verð á mjólk og mjólkurafurðum fólksins hér er miklu hærra en þekkist í nágrannalöndum okkar. Mjólkin kostar næstum því helmingi meira í Reykjavík en í Stokkhólmi og smjör 1 kr. meira pr. kg. Og sem dæmi þess, hversu neyzla getur vaxið við verðlækkun, má minna á reynsluna í Svíþjóð. Á árunum 1929–'34 hefir smjörverðið þar lækkað um 20%, en salan innanlands óx úr 23 milljónum kg. upp í 39,3 milljónir kg., eða um 70%. En með því að neyzlan jókst svona miklu meira en verðfallið, gátu bændur aukið brúttótekjur sínar mjög verulega. Nú er í raun og veru engin ástæða til að ætla, að öðruvísi myndi fara hér á Íslandi en í Svíþjóð, einkum þegar þess er gætt, að þörfunum er langtum síður fullnægt hér en þar, þar sem neyzla mjólkur og smjörs er 50% minni á Íslandi en í Svíþjóð. Það er því bersýnilegt, að það er öndvert við allan hag landsins, að fara að styrkja einn atvinnuveg á þennan hátt, með löglegri verðhækkun, þegar það verður til þess að takmarka neyzluna, og hin raunverulega neyzluþörf fær ekki að njóta sín. Eða hvaða heimili eru það í Reykjavík og Hafnarfirði, sem myndu ekki tvöfalda neyzluna, ef þau ættu kost á ódýrari mjólk og ódýru smjöri? Alveg sama er uppi á teningnum með ostana. Hér er sagt, að þeir hafi verið seldir til útlanda fyrir mjög lágt verð, ég hefi heyrt 1,10 kr. pr. kg., en á sama tíma er ostur sennilega seldur hér fyrir margfalt hærra verð, 2,20 pr. kg. í heildsölu, svo hátt verð, að almenningur innanlands getur ekki keypt þá. En svo er meginhluti verðjöfnunargjaldsins notaður til að bæta upp þessa ostasölu til útlanda. Í grg., sem þessu frv. fylgir, segir, að þær kröfur, sem gerðar hafi verið til verðjöfnunarsjóðsins vegna þessa ostaútflutnings, hafi árið 1936 numið 107805,36 kr. En það nemur sem svarar 2 aurum á hvern einasta mjólkurlítra, sem seldur er hér á verðjöfnunarsvæðinu. Er nú nokkurt vit í þessari ráðsmennsku? Halda fyrst verðinu á innlendu ostunum svo dýrum, að mjög fáir geta keypt þá, selja þá svo til útlanda fyrir sáralágt verð og hækka síðan mjólkina um 20 aura lítrann til að bæta upp þennan fáránlega ostaútflutning, sem á þann hátt, með hækkuðu verði í mjólkinni, verður til að draga úr neyzlu hennar hér.

Annað mjög veigamikið atriði í sambandi við sölu á mjólk og mjólkurafurðum á Reykjavíkurmarkaðinum er vöruvöndunin. Hér er sagt, að enn sé mjög ábótavant um gæði mjólkurinnar oft og iðulega, hverju sem það er að kenna, og stórar sendingar af skyri hefir orðið að senda til baka, af því að það hefir ekki þótt boðleg vara. Þá er það ennfremur kunnugt, að búin verða að verðfella svo og svo mikið af mjólk, af því að hún er ekki meðhöndluð á réttan hátt. Í fyrsta lagi með því, að því lakari sem varan er, því minna verð fæst fyrir hana, og í öðru lagi fælast menn frá að kaupa vöruna, þegar menn geta átt það á hættu að fá lélega eða slæma vöru.

Bæði þessi atriði, sem ég hefi nú rætt nokkuð, verðhækkun á mjólkinni og meiri vöruvöndun, myndi að áliti okkar alþýðuflokksmanna geta haft geysi áhrif á aukna sölu, en það er það, sem fyrst og fremst ber að leggja áherzlu á, bæði vegna þess, að það gefur mjólkurframleiðendunum meiri tekjur og neytendunum heilbrigða fæðu, en hvorutveggja er höfuðnauðsyn fyrir báða þessa parta. Og allt þetta er hægt að framkvæma án lagasetningar, eins og við höfum margtekið fram, og skal ég því ekki ræða það frekar.

Þó mætti í þessu sambandi, í sambandi við mjólkurneyzluna, benda á eitt atriði ennþá, sem er vel þess vert, að það sé athugað, og það er mjólkurneyla framleiðenda sjálfra. Það mun því miður vera svo á mörgum heimilum, sem hafa aðstöðu til að selja mjólk, að þau selja frá sér meiri mjólk en þau mega missa, og kaupa í staðinn dýra útlenda matvöru og óhollari. Þetta er auðvitað hið mesta öfugstreymi, sem sjálfsagt er að kippa í lag. En ég bendi á þetta vegna þess, að hér er um verulega mikið mjólkurmagn að ræða. Ef gert er ráð fyrir, að á verðjöfnunarsvæðinu búi um 3000 framleiðendur og hver þeirra taki til sín 2 lítra á dag í viðbót, eða sem svari ½ lítra á hvern meðlim 4–5 manna fjölskyldu, þá yrðu þetta á þriðju milljón lítra á ári, og það er þó nokkur hluti af aukningunni, og við það geta sparazt önnur matvörukaup.

Auk allra þessara till., sem mætti allar framkvæma án lagasetningar, hefi ég gert till. um að fyrirskipa með l. blöndun á súrmjólk í brauð í brauðgerðarhúsum, eftir till. Jóns Vestdals, og byggt á athugunum hans um þetta mál, en hann hefir kynnt sér það sérstaklega. Telst honum svo til, að með 1% blöndun í rúgbrauð og 5% blöndun í hveitibrauð muni, ef þessi blöndun nær til helmings af hveiti- og rúginnflutningnum, þurfa 180–200 tonn af undanrennudufti á ári. Ennfremur má minna á það, að inn er flutt frá útlöndum nýmjólkurduft til súkkulaðigerðar, og er það sorglegt öfugstreymi, að inn til landsins skuli vera fluttar mjólkurafurðir, samtímis því sem við getum ekki fengið með góðu móti markað fyrir okkar eigin mjólk, og vantar þó gjaldeyri til nauðsynjavörukaupa, sem virðast a. m. k. eðlilegri heldur en mjólkurkaup frá útlöndum.

Þá er þess enn að gæta, að á togaraflotanum, og yfirleitt á öllum okkar veiðiskipum, sem ekki koma að kvöldi, er fjöldi manna, sem lifir við mjög einhæfan og mjólkurlausan kost. En úr þurrmjólk má búa til aftur hina beztu mjólk með því að blanda duftið af nýju með vatni. Þegar þetta tvennt er tekið með er varla of hátt í lagt að áætla, að þurrmjólkurmarkaðurinn gæti tekið við dufti úr ca. 3 millj. lítra mjólkur. eða sem svarar úr 1000 kúm.

En þá er ástæða til þess, að menn spyrji: Hvers vegna er þetta þá ekki gert? Hvers vegna er ekki byggð þurrmjólkurstöð undir eins? Kostar hún svo mikið, eða af hvaða ástæðum er ekki hafizt handa í málinu? Verð vélanna er samkvæmt upplýsingum dr. Jóns Vestdals, með öllu tilheyrandi, 46000 ísl. kr., og undir þær er talið að þurfi tiltölulega mjög lítið pláss, svo að kostnaðurinn við að koma upp stöðinni mundi verða litlu meiri en greitt er á einu ári til útlanda fyrir þurrmjólkurduft, en það er talið að vera 55 þús. kr., svo að bygging stöðvarinnar virðist ekki þurfa að vera ókleif kostnaðarins vegna. Þá er vert að geta þess einnig, að bakarameistarar, sem rætt hefir verið við um þessa útblöndun á mjólkurdufti í brauð, telja, að með henni sparist nokkuð af öðrum efnum, mjöli og sykri, svo að kostnaðaraukinn sé það lítill, að verð brauðanna þurfi ekki að hækka af þeim sökum, enda í frv. gerðar ráðstafanir til að fyrirbyggja það.

Framsóknarmenn hafa mjög haldið því á lofti í umræðunum síðustu daga, að frv. þau, sem við berum fram nú, alþýðuflokksmenn, séu aðeins kosningabombur, sem þeir svo kalla, — frv., sem séu útbúin í skyndi vegna væntanlegra kosninga, illa undirbúin og sett út án þess, að leitað hafi verið álits þeirra um þau mál, er frv. fjalla um. Ég leyfi mér hér að fullyrða, að þetta er rangt. Mörg af frv., a. m. k. þau, sem Skipulagsnefnd atvinnumála hefir samið, eru gerð í fullu samráði og með samkomulagi við fulltrúa þeirra í n., en það er þingflokkur framsóknarmanna, sem ekki hefir viljað taka þau upp til flutnings með okkur. Svo er um þetta frv. Það er samið árið 1935, en ekki í flýti nú. Ég lagði það á þinginu 1936, fyrir ári siðan, fyrir fulltrúa framsóknarmanna í landbn., en þeir fengust ekki til að flytja það með mér þá, og ég vildi þá heldur bíða en að flytja það einn. En svo þegar fór að líða á þetta þing. án þess að nokkur árangur sæist af athugun þessari, sá ég ekki annan kost vænni en að flytja það einsamall, til að koma því á stað út í þingið og gefa hv. þdm. kost á að kynna sér það og taka afstöðu til þess. Svona er það með þetta mál, og svona er það líka með fleiri.

Það verður ekki skilizt svo við þetta mál, að ekki sé minnzt á afstöðu hinna flokkanna, Sjálfstfl. og Bændafl., til þess. Þeir hafa, eins og vænta mátti, myndað um það samfylkingu í hv. Ed. og flutt um það frv. á þskj. 281, sem þeir bera fram hv. 2. þm. Rang. og hv. 10. landsk. Þó að þetta frv. liggi ekki hér fyrir beinlínis, þar sem sjálfstæðismennirnir í landbn. Nd. hafa tjáð sig geta gengið til afgreiðslu á málinu á þeim grundvelli sem í því frv. er lagður, og verður því ofurlítið að athuga, hver hann er. Aðalkjarni þess frv. er að hækka tekjur verðjöfnunarsjóðs án þess að hækka verðjöfnunargjaldið sjálft, og þetta væri auðvitað ákaflega æskilegt, ef það væri hægt á skynsamlegan hátt. en frv. gerir ráð fyrir, að þessi tekjuaukning fari fram á þrennan hátt:

1. Með tekjum af þurrmjólkurvinnslu, sem ekkert er nema gott um að segja, þar sem aðalákvæðin þar eru tekin upp úr frv. um þurrmjólk, sem ég hefi áður lýst.

2. Með tolli á útlendu kjarnfóðri og

3. Með styrk úr ríkissjóði.

Um þessar tvær síðarnefndu leiðir er það að segja, að ég álít þær alveg fráleitar. Frv. gerir ráð fyrir 5 au. skatti á hvert kg. af kjarnfóðri, sem inn er flutt, en verð á því er um og innan við 20 au. pr. kg. Yrði þetta því um fjórðungshækkun a. m. k., eða 25%, og væri það sá hæsti skattur, sem líklega nokkurntíma hér hefir verið lagður á nauðsynjavörur landbúnaðarins, en þar sem þetta á að renna til bænda aftur, væri kannske ekki mikið um þetta að segja, ef það kæmi réttlátlega niður, en því fer fjarri.

Bezt settir eru nú áreiðanlega þeir bændur, sem geta selt neyzlumjólk á markaðinn í Reykjavík og Hafnarfirði. Næst bezt eru þeir staddir, sem búa innan verðjöfnunarsvæðisins, frá Mýrasýslu að Rangárvallasýslu, að báðum meðtöldum, því að þeir fá stórkostlega uppbót á sína vinnslumjólk. Verst eru svo þeir settir, sem búa utan verðjöfnunarsvæðisins og njóta engra af kostum skipulagningarinnar. Ef svo þar ofan á á að bæta því, að láta þá greiða skatt af kjarnfóðurkaupum sínum, svo greypilegan sem frv. gerir ráð fyrir, þá er þar með bætt gráu ofan á svart, eyrir hins fátækasta, sem minnst ber úr býtum, tekinn til þess að bæta upp þeim, sem meira hefir. Að vísu er látið liggja að því í grg., að e. t. v. orki tvímælis um þetta atriði, samvizkan hefir líklega slegið þá, en eins og frv. er, þá er þetta svona.

Ég fullyrði alveg hiklaust, að inn á þessa lausn göngum við alþýðuflokksmenn aldrei, þó að fulltrúar Sjálfstfl. í landbn. hafi tjáð sig fúsa til að leysa málið á þessum grundvelli.

Um síðustu tekjuöflunarleiðina, að greiða það, sem á kann að vanta, úr ríkissjóði, er það að segja, að þetta er náttúrlega ákaflega handhæg leið, en hún er ákaflega hæpin. Ég skal viðurkenna, að þessi möguleiki er náttúrlega til staðar, en ég vil helzt ekki þurfa að gera ráð fyrir honum, nema atvinnuvegurinn sé svo aðþrengdur, að öll önnur sund séu lokuð, og koma þá auðvitað aðrir atvinnuvegir þar einnig til greina. Ég gæti þá líka fullt eins vel, og enda betur, hugsað mér þann möguleika, að ríkissjóður styrkti fyrst þá bændurna, sem utan verðjöfnunarsvæðisins búa og njóta því einskis styrks á neinn hátt til sinnar mjólkurframleiðslu. Það eru þeir áreiðanlega, sem mesta þörfina hafa, og til þeirra ber því ríkissjóði að líta áreiðanlega fyrr en til hinna.

Að öllu þessu athuguðu er ljóst, að þegar þessum tveimur mjög vafasömu atriðum er svipt í burtu úr frv., þá er lítið eftir annað en nokkur hluti þeirra tillagna, sem við alþýðuflokksmenn höfum borið fram í málinu.

Ég hefi því látið bóka eftir mér í fundargerðabók landbn., að ég telji þá lausn málanna, sem framsóknarmenn hafa borið fram í þessu frv., algerða vandræðalausn, og myndi ekki treystast til að fylgja henni, meðan óreyndar eru þær leiðir, sem Alþýðufl. hefir bent á og vænlegri virðast til úrlausnar, en það er rýmkun bezta markaðarins, sem fyrir er, og útvegun nýrra markaða, sem fullar líkur virðast benda til, að megi ná.