19.04.1937
Neðri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í C-deild Alþingistíðinda. (1739)

84. mál, sala mjólkur og rjóma o. fl.

Hannes Jónsson:

Herra forseti! Ég mun við þessar umr. ekki eingöngu binda mig við það frv., sem hér liggur fyrir. Ég mun einnig minnast á þau sjónarmið, sem koma fram í frv., sem þeir Pétur Magnússon og Þorsteinn Briem flytja í hv. Ed.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, miðar að því að lækka verð þeirra, er neyzlumjólkina selja, sem raunverulega er nú ekki yfir 22 aurar, þar sem það heimilar hærra verðjöfnunargjald en 8%, eða ótakmarkað. Ég efast stórlega um, að þetta sé fær leið. Ég efast um, að bændur, sem neyzlumjólkina selja, geti lifað á því verði, er þeir fá nú, hvað þá heldur, ef það væri lægra, og löggjafarvaldið á að hjálpa bændum til að reka atvinnu sína, en ekki á þann hátt, að gera öðrum bændum með því ómögulegt að lifa. Hér þarf því að finna önnur ráð, og frv. Péturs Magnússonar og Þorsteins Briems gerir það. Það kveður öllu fastar á um það, að sama verð sé greitt fyrir mjólk til allra mjólkurbúa á verðjöfnunarsvæðinu, komna á sölustað innan sölusvæðisins, án tillits til þess, hvort hún er notuð til neyzlu eða vinnslu. En tekna til þess að standa straum af verðjöfnuninni á ekki að afla með því að lækka verð þeirra, er neyzlumjólkina selja, frá því, sem nú er, heldur með nýjum tekjum í verðjöfnunarsjóð. Í fyrsta lagi með 5 aura gjaldi af hverju kg. af innfluttu kjarnfóðri eftir nánari ákvæðum reglugerðar. Innflutt kjarnfóður vegna harðinda er þó undanþegið. Í öðru lagi með hækkun, er fæst á mjólkurverði með því að áskilja, að brauðgerðarhús á verðjöfnunarsvaðinu blandi brauðin tilteknum hundraðshluta af mjólk eða mjólkurdufti, mysu eða mysudufti, er sé keypt ákveðnu verði. Þetta er sambærilegt við þá heimild, sem ríkisstj. hefir til að skuldbinda smjörlíkisgerðirnar til að blanda smjörlíki með smjöri til að auka sölumöguleika smjörsins og um leið til þess að neytendur fái betri vöru. Dugi tekjur verðjöfnunarsjóðs ekki til að bæta upp verðið, skal ríkissjóður greiða það, sem á vantar. Þá á ríkið einnig að veita styrk til að koma upp þurrmjólkurstöð, á sama hátt og mjólkurbú hafa notið, og jafnframt að ábyrgjast lán til byggingarinnar.

Þessi mikli munur á þessum tveimur frv. ætti að vera mönnum ljós og auðskilinn, og mun ég koma nánar að því síðar.

Allt frá því að mjólkurlögin komu til framkvæmda, 15. febrúar 1935, og til þessa, hafa þau valdið allmiklum ágreiningi og stundum mjög miklum. Ágreiningur þessi hefir þó ekki svo mjög stafað af lagasetningunni sjálfri, vegna þess að öllum mjólkurframleiðendum, svo og einnig mönnum úr öllum þingflokkum, var löngu orðið það ljóst, að óhjákvæmilegt var að gera eitthvað til verndunar og skipulagningar þessari framleiðslu sem annari með þjóð okkar. Það verður og ekki um það deilt, að enda þótt núverandi stjórnarflokkar vilji ranglega þakka sér þessa löggjöf, þá er hún þó þannig til orðin, að allir þingfl. stóðu að samþykkt hennar, enda höfðu framleiðendur á verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur í gegnum Mjólkurbandalag Suðurlands árum saman barizt fyrir henni, og ennfremur hafði fyrrv. ríkisstj. hafið nauðsynlegan undirbúning undir slíka löggjöf. En deilan, sem mjólkurlögin vöktu í öndverðu og að nokkru leyti stendur enn um þau, hefir fyrst og fremst stafað af framkvæmd þeirra, og í annan stað haldizt við vegna ýmsra galla, er komið hefir í ljós, að lögin fela í sér, og sífellt hljóta að halda deilunni við, meðan ekki er úr bætt. Vegna þess hvað þessi lög eru staðbundin í framkvæmdinni, þannig, að þau, enn sem komið er, snerta tæplega nema verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur, má óhætt fullyrða, að á því svæði er fáum eða engum framkvæmdaratriðum eða breytingum fylgt með öllu meiri athygli en einmitt mjólkurlaganna, þar sem þau snerta hvert mannsbarn á svæðinu beinlínis, annaðhvort sem framleiðendur eða neytendur.

Þau framkvæmdaratriði, sem í öndverðu vöktu mesta deilu, voru augsýnilega fyrst og fremst þau, að í stað þess að afhenda framleiðendum þau í hendur, er mjólkurverzlunin þegar í upphafi gerð að einskonar ríkiseinkasölu, og þannig um búið, að andstæðingar núverandi ríkisstj. voru fullkomlega útilokaðir frá öllu áhrifavaldi um framkvæmdirnar, enda þótt þeir væru stórum fjölmennari, jafnt í hópi framleiðenda sem neytenda. Þetta varð og til þess, að svo langt rak, að mjög stór hópur neytenda taldi sig knúinn til að gera neyzluverkfall síðari hluta vetrar 1935 til stórtjóns fyrir alla framleiðendur. Það er vist ekki of sagt, að fyrstu þrjá mánuðina, sem mjólkursamsalan starfaði, hafi ekki verið auðið að finna fyrirtæki, er rekið hafi verið á öllu nauðpólitískari og óverzlunarlegri hátt en einmitt mjólkursamsalan. En fyrir hina harðsnúnu gagnrýni, er fram kom, bæði frá framleiðendum og neytendum, sáu þó stjfl. sitt óvænna, þannig að nú dregur enginn lengur í efa, að mikið gagn hafi þegar hlotizt af mjólkurlögunum, bæði fyrir framleiðendur og neytendur. Þetta kom fyrst og fremst fram í því, að skipt var um mann í forstjórastöðu samsölunnar, og í hana settur maður, sem ekki hefir gleymt, að hún er fyrst og fremst verzlunarfyrirtæki, og hefir ekki látið undir höfuð leggjast að reka hana á svo hagkvæman hátt sem lögin sjálf framast leyfa. Þetta var og að ýmsu leyti viðurkennt af nefnd 7 manna, er kosin var af Mjólkurbandalagi Suðurlands frá öllum mjólkurbúum á verðjöfnunarsvæðinu, er skilaði áliti um þetta á síðastl. vetri, eftir að hafa framkvæmt allýtarlega rannsókn á framkvæmd og starfsreglum samsölunnar, eins og þær þá voru orðnar. Annað það, er valdið hefir allmikilli deilu kringum mjólkurlögin, eru ágallar þeir, er mönnum hefir fundizt, að lögin sjálf fælu í sér. Það, sem þar verður þyngst á metunum, er auðvitað allt það, sem vekur upp hagsmunaandstöðu milli framleiðenda sjálfra innan verðjöfnunarsvæðisins, og þar næst það, er orsakað getur samskonar andstöðu milli framleiðenda annarsvegar og neytenda hinsvegar. Sú hagsmunaandstaða, er orðið hefir milli framleiðenda innbyrðis, er fyrst og fremst fólgin í verðjöfnunargjaldinu. Í framkvæmdinni hefir, eins og sjálfsagt var, verið tekin upp sú regla, að þeir, sem næstir eru markaðinum, hafa gengið fyrir um sölu neyzlumjólkur, og hafa þar af leiðandi greitt það verðjöfnunargjald, er lögin hæst heimila til hinna fjærliggjandi mjólkurbúa, er orðið hafa að vinna alla mjólk sína á flestum tímum ársins. Þeim, sem greitt hafa gjaldið, hefir eins og vænta mátti þótt það næsta nóg, og jafnvel um of. En hinsvegar hefir þeim, er áttu að þiggja það, orðið það of lítið, enda þótt ekki hafi enn verið gengið lengra í verðjöfnun en það, að 2 aura munur er ákveðinn á milli vinnslumjólkur og neyzlumjólkur á sölustað, Það virðist nú auðsætt, að öll sanngirni mæli með því, að þessi verðmunur hverfi á burtu, þegar tekið er tillit til þess, að á vinnslubúunum hvílir sá kostnaður, að standa undir mjög mikilli vörusöfnun og þeirri óhjákvæmilegu rýrnun, er henni fylgir, samtímis því sem hinir, er neyzlumjólkina selja, geta sótt andvirði hennar til samsölunnar á hálfsmánaðarfresti. Þykir auk þess líklegt, að flutningur og vinnslukostnaður verði jafnan mun meiri hjá þeim, sem nær liggja markaðsstað. En þar sem það nú hefir sýnt sig, að hið lögákveðna verðjöfnunargjald hvergi nærri hrekkur til þess að fullnægja þeirri verðjöfnun, sem ákveðin er, hvað þá meiri, en öll sanngirni mælir hinsvegar með því, að full verðjöfnun eigi sér stað, þá er auðsætt, að ekki verður hjá því komizt að auka svo tekjur verðjöfnunarsjóðs, að nægar verði til fullrar verðjöfnunar. Nú liggja fyrir Alþingi tvö frv., sem bæði stefna að því, að fullkomin verðjöfnun geti orðið framkvæmd í framtíðinni. Frv. þessi, sem flutt eru annað af stjfl. og hitt af stjórnarandstæðingum, benda greinilega í þá átt, að þessa andstöðufl. greini ekki á um það, að stofna beri til fullrar verðjöfnunar. En þar sem það nú hefir sýnt sig, að verðjöfnunargjald það, er hingað til hefir verið lögákveðið, hefir reynzt svo mjög of lítið, að þegar nemur um 200 þús. kr. á tæpum tveimur árum, þá er bersýnilegt, að ekki eru nema tvær leiðir fyrir hendi, sem sé að hækka hið beina verðjöfnunargjald til mikilla muna eða þá hitt, að afla verðjöfnunarsjóði annara og utan að komandi tekna. Í frv. stj. er gert ráð fyrir fullri verðjöfnun, án þess að hugsað sé fyrir nokkrum auknum tekjum til handa verðjöfnunarsjóði. Hinsvegar er í frv. þeirra Péturs Magnússonar og Þorsteins Briems gert ráð fyrir nýjum og allverulegum tekjustofni.

Ef nú athugaður er hinn geysimunur þessara tveggja frv., þá kemur fyrst og fremst í ljós, hve stjfl. eru alltaf samir við sig um það, hversu þeim liggur hagur og velferð bændastéttarinnar gersamlega í léttu rúmi. Verði nú frv. stj. gert að l., þá hlýtur hverjum heilvita manni á verðjöfnunarsvæðinu að vera það augljóst, að afleiðing þess getur aldrei orðið önnur en óhjákvæmilegt verðfall á mjólkinni heim til bændanna, þar sem ekki er annað til verðjöfnunar heldur en að hækka í sífellu verðjöfnunargjaldið á neyzlumjólkinni, þar til allir eru jafnir. Nú hefir formaður mjólkursölunefndar, sr. Sveinbjörn Högnason, talið það hinn glæsilegasta vott um góðan árangur skipulagsins, hve mjög framleiðslan hafi aukizt í mjólkurbúunum, síðan skipulagið komst á. Telur hann, að það stafi fyrst og fremst af stórbættu mjólkurverði til framleiðenda og svo af auknu framleiðsluöryggi. Enda þótt þessi 83 r aukning sr. Sveinbjarnar sé nú í alla staði mjög svo ýkt, þar sem vitað er, að mjög mikið af þeirri mjólkuraukningu, er komið hefir fram í mjólkurbúunum, var til, áður en skipulagið komst á, en var knúin inn í mjólkurbúin með skipulaginu, þá má þó hiklaust viðurkenna, að vegna hækkandi mjólkurverðs hefir og mun framleiðslan halda áfram að stóraukast, og að ekki minnkar hættan á því, að sú aukning takist ekki, ef svo er nú komið, að hinn mikli vágestur, Borgarfjarðarpestin, sé þegar byrjuð að gera strandhögg á Suðurlandsundirlendinu.

Með tilliti til alls þessa er auðsætt, hvílík reginvilla og ábyrgðarleysi um hag bændanna, austan sem vestan, er innifalið í frv. stj., sem ekki virðist hafa neitt annað takmark með því, en að geta nú komizt lítið eitt dýpra í vasa þeirra, er fram að þessu hafa greitt verðjöfnunargjaldið. Það er nú sennilega ekki orðið svo djúpt til botnsins í þeim vasa, að næsta milljón lítra, sem bætist við framleiðsluna til verðuppbótar, nægi ekki til að tæma hann með öllu. Og hvað tekur þá við annað en lækkað mjólkurverð yfir allt framleiðslusvæðið við hvern lítra, er við bætist til verðuppbótar úr því? Hvort þetta á að vera kosningabeita fyrir menn í Árnes- og Rangárvallasýslu, skal ósagt látið, en hitt er víst, að sunnan Hellisheiðar og Skarðsheiðar í Borgarfirði getur það tæplega orðið, þar sem bændur á því svæði þykjast tæplega fá staðizt síhækkandi verðjöfnunargjald. Það er mjög ósennilegt, að bændur á Suðurlandi og í Borgarfirði vilji gerast málsvarar þeirrar stefnu, að þrengja svo að stéttarbræðrum sínum sunnan Skarðsheiðar og í Gullbringu- og Kjósarsýslu, að búskapur þeirra hrynji í rústir fyrir síhækkandi verðjöfnunargjald, gjald sem þeim sjálfum getur heldur ekki komið að neinu verulegu leyti að gagni, og því minna sem mjólkurframleiðslan fer vaxandi. Hér er sama neikvæða stefnan á ferðinni, sem auðkennir svo mjög alla starfsemi stjfl. Það á að jafna allt niður á við, þangað til allir eru orðnir jafnaumir og ófærir um að láta atvinnureksturinn bera sig. Má furðu gegna, að bóndi úr nágrenni Reykjavíkur skuli ljá sig til að vera einn flm. að slíkum óskapnaði.

Við þetta má svo bæta því, að ekki vaxa líkurnar fyrir því, að unnt verði að lækka mjólkurverðið til neytenda, eins og sumir tala um, ef verðjöfnunargjaldið fer síhækkandi á þeirri mjólk, sem til þeirra fer. Nei, þetta skipulag verður öllum til tjóns. Framleiðendur, sem eiga að greiða verðjöfnunargjaldið, sligast undir þunga þess. Framleiðendum, sem eiga að taka við því, verður það ófullnægjandi, og þeir dragast niður með hinum. Og neytendum hverfur öll von um lækkun á verði mjólkurinnar.

Sé nú frv. þeirra hv. 2. þm. Rang. og hv. 10. landsk. athugað við hlið stjfrv., má, sem vænta mátti, fljótt reka augun í það, að hér er gerð veruleg tilraun til þess að ráða bót á því meini, er verið hefir ein höfuðorsök þeirrar hagsmunastreitu, er ríkt hefir innbyrðis milli framleiðendanna á verðjöfnunarsvæðinu fram til þessa, jafnframt því, sem reynt er að koma í veg fyrir, að bændur éti hver annan upp. Þetta er gert með því tvennu, að finna verðjöfnunarsjóði nýja tekjustofna, og með því að finna nýjar leiðir til þess að auka afsetningu á mjólkurvörum a þann hátt, að það gæti orðið vísir að nýrri grein mjólkuriðnaðar hér á landi, er til framkvæmda kemur.

Nú má að sjálfsögðu halda því fram, að hér sé ekki um annað að ræða en hreyfing á skatti á sömu mönnum, þannig að í stað þess að greiða hátt verðjöfnunargjald af mjólk sinni, greiði sömu bændur nú verðjöfnunargjald af kjarnfóðri sínu. En því fer fjarri, að svo sé. Það fer sem sé ekki milli mála, að aðstaða til heyafla getur verið meir en nóg hér á landi til þess að fullnægja innlendri neyzluþörf fyrir mjólk og mjólkurvörur. Í annan stað er hér atvinnuleysi á öllum tímum árs, svo að margir stunda nú orðið heyskap til sölu, eingöngu vegna atvinnuleysis. Hinsvegar sjá margir sér hag í því að gefa útlent kjarnfóður með heyjum sínum, bæði til heysparnaðar og til mjólkuraukningar. Hin aukna framleiðsla, sem af þessu stafar — og hún er mikil — kemur því fram sem ber samkeppni við hina innlendu framleiðslu bændanna í landinu, og er því fullkomlega sanngjarnt, að þeir, sem sjá sér hag í slíku, gjaldi eitthvað af gróða sínum til verðuppbótar hinni innlendu framleiðslu. Verki slíkt gjald hinsvegar í þá átt, að menn minnki þessi kjarnfóðurkaup, þá hverfur líka út af markaðinum sú mjólk, sem framleidd hefir verið á þeim, og minnkar þá tekjuþörf verðjöfnunarsjóðs að sama skapi eða meir, svo þetta virðist hafa skilyrði til að jafna sig sjálft að talsverðu leyti.

Frá þjóðhagslegu sjónarmiði virðist nú stefnt í rétta átt, því að ekki virðist ástæða til að ýta undir menn með innkaup á kjarnfóðri í slíkum gjaldeyrisvandraðum, sem nú ríkja, þegar vart verður leyft nægilegt af neinu inn í landið nema áfengi vegna gjaldeyrisskorts, og á sama tíma, sem menn standa hundruðum saman iðjulausir í landinu. Og ríkissjóðsframlagið, ef til þyrfti að taka, yrði þá verðlaun fyrir þá breytingu, sem hér yrði á framleiðslu mjólkur að þessu leyti.

Í sambandi við þetta má og benda á það, að allkynleg virðist sú ráðstöfun hafa verið hjá mjólkursölunefnd, að flytja út úr landinu í hundruðum smálesta osta á erlendan markað, er ekki seldist fyrir meira verð en svaraði innlendu verði smjörfeitinnar, er í honum felst, og verðuppbæta hann síðan með innlendu fé, Það sýnist hafa legið nær, að bændur sjálfir hefðu étið sitt ágæta smjör og fengið það verðuppbætt, heldur en að vera á þennan hátt knúðir til að éta smjörlíki á sama tíma, sem þeir gáfu Englendingum og Þjóðverjum undanrennuna í ostinum. Undanrennan, sem talin er ágætur fóðurbætir, hefir þó varla verið bændum einskisvirði í bú þeirra, og þótt nokkur gjaldeyrir hafi fengizt fyrir hinn selda ost, hefði hann getað sparazt aftur í minnkuðum innflutningi kjarnfóðurs og hráefna til smjörlíkisgerðar. Það verður tæplega litið á þessa ráðstöfun mjólkursölunefndar öðruvísi en svo, að hér sé enn á ferðinni hin alkunna umhyggja stjórnarflokkanna fyrir bændastéttinni, er sér ofsjónum yfir hverri smjörsköku, er þeim kynni að gefast aðstaða til að leggja sér til munns.

Hin hliðin á frv. þeirra hv. 2. þm. Rang. og hv. 10. landsk., sú sem snýr að aukinni neyslu á mjólkurvörum í nýjum myndum, er svo jákvæð, að ekki verður um deilt, og er mikið útlit fyrir, ef frv. þetta verður að l., að einmitt hér megi frelsa undan verðuppbótarskyldu verulegan hluta af því undanrennumagni, er við fram að þessu höfum verið að gefa út úr landinu, jafnframt því, sem risið gæti upp ný tegund mjólkuriðnaðar til hagsbóta fyrir mjólkurbúin.

Ég hefi heyrt, að í des. síðastl. hafi mjólkursölunefnd skipað nefnd manna til að gera till. til tekjuöflunar fyrir verðjöfnunarsjóð. Sú nefnd var, að því er ég bezt veit, skipuð mönnum frá öllum mjólkurbúum á verðjöfnunarsvæði Rvíkur og mönnum úr ýmsum flokkum stjórnmála. Till. þær, er þessi nefnd sendi mjólkursölunefnd, munu hafa gengið mjög í sömu átt eins og frv. þeirra hv. 2. þm. Rang. og hv. 10. landsk., svo að auðsætt er, að um allt svæðið er litið svipuðum augum á þessa hluti af kunnugum mönnum, sem ekki eru pólitískt blindir, og er gott til þess að vita.

Í umræðum sem þessum verður ekki gengið framhjá öðrum höfuðaðilja málsins, neytendunum. Margir úr hópi þeirra halda því fram, að allar framleiðsluvörur okkar bænda séu of dýrar. Víst er um það, að mikla peninga þarf til að kaupa mikið af mjólkurvörum með því verði, sem á þeim er. Er og eðlilegt, að neytendum sárni að vita þá vörutegund, er þeir sjá sér ekki fært að kaupa nóg af, gefna erlendum neytendum, og bætta upp til bændanna með fé því, er þeir af vanefnum sínum hafa greitt fyrir hina dýru vöru þeirra, því er það, að við bændaflokksmenn leyfum okkur, sem sannir fulltrúar hinna vinnandi stétta, að snúa okkur til neytenda Rvíkur og Hafnarfjarðar sem heildar, jafnt efnaðra sem fátækra, og skora á þá að standa nú með okkur bændunum í því að knýja það fram, að hinar viturlegustu og beztu leiðir náist, án tillits til þess, hvort einum eða öðrum stjórnmálaflokki kann að verða það til framdráttar eða ekki. Með því móti skapast fljótast sú aðstaða, er gerir bændum kleift að selja ykkur vörur sínar á því verði, að þið þurfið ekki að vera án þeirra fyrir þá sök, að útlend vara er ódýrari. Bændur munu ekki verða ykkur örðugir til samninga, ef þeir einhverntíma skyldu endurheimta þann rétt, sem nú hefir verið af þeim tekinn, að ráða yfir framleiðslu sinni sjálfir.

Ef Alþ. auðnast að gera frv. hv. 2. þm. Rang. og hv. 10. landsk.l., má óhætt fullyrða, að stórvægileg bót er ráðin á einum höfuðgalla hinna fyrri mjólkurlaga, sem sé þeim, að útrýma hagsmunatogstreitunni milli bændanna sjálfra, jafnframt því, sem mjög er aukið framleiðsluöryggi bænda, einkum hinna fjærliggjandi. Þótt margt verði enn óendurheimt, og hljóti að vera svo, meðan núverandi stjórnarfar ríkir, áttu samt allir, jafnt bændur sem neytendur, að lifa við þá von, að það verði lagað, ef mönnum, og þá einkum bændum, opnast augu fyrir því, að kjósa ekki fyrir fulltrúa sína á Alþ. þá menn, sem vilja jafna þeim út með sjálfum sér.

Bændur verða að standa saman um þetta mál, eins og öll önnur hagsmunamál sin. Bændur verða að læra að jafna sjálfir allar hagsmunadeilur, sem upp kunna að rísa meðal þeirra. Bændur verða að heimta rétt sinn til að koma fram sem sjálfstæður aðili í hagsmunamálum sínum gagnvart öðrum stéttum þjóðfélagsins. Ekki til þess að kúga og knésetja aðra, enda hafa þeir ekki gert það, og munu aldrei gera það, heldur til þess að bera mál sín fram til sigurs á réttlátum grundvelli. Þá munu hugsjónirnar um batnandi hag og hamingju þjóðarinnar rætast — þá mun aftur morgna.