19.04.1937
Neðri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í C-deild Alþingistíðinda. (1745)

84. mál, sala mjólkur og rjóma o. fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti! Góðir áheyrendur! Það er ekki hægt að segja mikið á þessum stutta tíma, sem ég hefi til umráða, en ég skal þó reyna að svara nokkru af því, sem fram hefir komið. Ég ætla ekki að brúka stóryrði hv. þm. V.-Húnv. eða hv. þm. Borgf. í þessari ræðu, því að þeirra orðbragð var ekki til fyrirmyndar.

Um mjólkurstöðina ætla ég að segja það, að öll skjöl henni viðvíkjandi skulu koma til ykkar bænda nú á næstunni, og þá munuð þið sjá, hvernig þetta mál stendur. En ég ætla að segja ykkur það, að eftir að hv. 1. þm. þing. hafði hlustað á umr. um mjólkurstöðina í Ed, rétti hann upp höndina hér í Nd. með því, sem hv. þm. G.-K. hafði talið stjórnarskrárbrot, vegna þess að hann þorði ekki að koma austur í Rang. án þess að hafa greitt atkv. með því máli.

Mjólkurverkfallið ætla ég ekki að rifja upp frekar heldur en þegar hefir gert verið. — Hv. þm. Borgf. deildi á jafnaðarmenn fyrir það, að hækka mjólkurverðið. En ein af ástæðum sjálfstæðismanna fyrir mjólkurverkfallinu var einmitt krafa þeirra um að lækka mjólkina niður í 35 aura.

Hv. þm. Borgf. óskapaðist yfir því, að of mikið hefði verið flutt af kjöti inn á Reykjavíkurmarkaðinn og hann þannig eyðilagður fyrir bændum hér í nágrenninu. En það hefir nýlega komið upp, að þeir, sem þessi hv. þm. hefir sérstaklega gerzt umbjóðandi fyrir, kaupmennirnir, fluttu inn á Reykjavíkurmarkaðinn á sviksamlegan hátt svo mikið af kjöti, að það var það, sem fyrst og fremst eyðilagði að nokkru leyti markaðinn fyrir bændum hér í nágrenninu.

Að lokum ætla ég að segja það, að ég hefi nú staðið í baráttunni um þetta mjólkurskipulag í 3 ár. Ég þekki, hvernig andstæðingarnir haga sér í þessu máli, Þeir tala nógu fallega nú fyrir kosningarnar. En það er ekkert, sem getur bjargað þessu máli annað en það, að bændur hér á Suðurlandi og í Borgarfirði – hvaða flokki, sem þeir tilheyra — standi í breiðfylkingu bak við Framsfl. til þess að vernda það, sem þeir hafa þegar náð, og ná því, sem þeir eiga rétt á. Hinsvegar er Sjálfstfl. bundinn af hagsmunum hv. þm. G.-K. og Korpúlfsstaða, og þess vegna verður þetta skipulag rifið niður, ef sjálfstæðismenn fá aðstöðu til þess, Það hefir tekizt að vernda þetta skipulag, en næsta sporið er að stiga í áttina til fulls réttlætis, og það stendur ekki á Framsfl. að heyja þá baráttu. Hinsvegar verður þingið rofið innan skamms, og þá veltur á skilningi bænda, hvernig um þessi mál fer. Innan fárra vikna afhendi ég ykkur, bændur, þá vernd, sem ég hefi yfir þessu máli. Þá baráttu, sem ég hefi háð fyrir þessu skipulagi, afhendi ég ykkur sjálfum. Undir afstöðu ykkar er það komið, hvernig þessum málum verður skipað á mestunni og hvernig ykkur tekst að vernda þessa hagsmuni, sem þið hafið nú fengið fyrir ykkur og skyldulið ykkar.

Ég sé, að hæstv. forseti gefur mér nú bendingu um, að minn tími sé búinn, og mun ég taka það til greina. En ég vil enda þessi orð á því, að brýna það fyrir bændum á Suðurlandi og í Borgarfirði, að standa fast utan um sinn rétt. Þessu máli verður því aðeins ýtt áfram af Framsfl., ef bændur standa í breiðfylkingu bak við flokkinn í þessu máli.