02.04.1937
Neðri deild: 29. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í C-deild Alþingistíðinda. (1759)

88. mál, atvinna við siglingar

Sigurður Einarsson:

Hv. 3. landsk. er búinn að taka fram ýmislegt af því, sem ég ætlaði að segja við þessa 1. umr. ég ætlaði sérstaklega að leggja áherzlu á það, að sú n., sem fengi þetta mál til athugunar, athugaði gaumgæfilega ýmislegt það, sem virðist liggja á bak við þau ákvæði, sem frv. gerir ráð fyrir, að verði lögfest. Ég held nefnilega, að bæði í ræðu flm. og í frv. sjálfu liggi skilningur, sem álítast verði stórkostlegt skref aftur á bak, frá því sem nú er í þessu máli. Að það sé of mikið réttindamannahald á skipum okkar, eins og hv. flm. orðaði það, nær ekki nokkurri átt að halda fram. Hv. flm. má vera þess alveg fullviss, að löggjöfin hefir í þessu efni ekki reynt að troða neinum kvöðum upp á sjávarútveginn, sem ekki voru nauðsynlegar, til þess að öryggi manna væri sæmilega borgið.

Þá sagði hv. flm. frv., að ákvæði þess færu ekki lengra en svo, að gætt sé fulls öryggis fyrir skipin. Þetta er vægast sagt algerlega út í loftið talað, enda reyndi hv. þm. ekki að færa rök fyrir þessari staðhæfingu sinni. Þessa hlið málsins álít ég, að hv. sjútvn. eigi að rannsaka sérstaklega vel og að hún þurfi að leita álits um þetta atriði frá Fiskifélagi Íslands, Eimskipafélagi Íslands og öðrum slíkum aðiljum, sem margra ára reynslu hafa um þetta mál. Þá er það engin röksemd í þessu efni, þó að rekstur þeirra skipa, sem annast flutninga á flóum og fjörðum inni, sé dýr og að miklu leyti borinn uppi af því opinbera. Þó að svo sé, þá er það augljóst, að hið opinbera mun aldrei tefla örygginu á sjónum í hættu fyrir það eitt, að kostnaður verði nokkru meiri, vegna þess að þess sé gætt. Tilgangur frv. getur verið góður, eins og hv. flm. sagði. En af sjómönnum og því fólki, sem afkomu sína á undir sjávarútveginum, mun vera litið svo á, að þetta frv., ef að l. verður, sé stórt spor aftur á bak, frá því sem nú er. Hv. 3. landsk. benti á, að það er alls ekki rétt, að í íslenzkri löggjöf séu gerðar harðari kröfur á hendur útveginum en hjá Dönum. Í þessu efni er íslenzk löggjöf sniðin á mjög svipaða lund og hjá öðrum þjóðum. Siglingar með ströndum fram við flutninga og fiskveiðar um dimmasta tíma ársins og á vetrarvertíð eru langt um hættulegri en siglingar á milli landa og heimsálfa eins og siglingar Norðmanna að miklu leyti eru. Þess vegna, þó að finna megi dæmi um það meðal annara þjóða, að slíkar kröfur um kunnáttumannahald á skipum séu ekki gerðar eins háar meðal þeirra eins og hjá okkur, þá er það út af fyrir sig engin sönnun þess, að okkur tjái að sníða löggjöf okkar eftir því, sem hjá Norðmönnum er gert.

Þá býst ég ekki við, að útgerðarmenn eða eigendur togara né aðrir slíkir séu eins bjartsýnir eins og hv. flm. á það, að hægt sé að bjarga við okkar sárþjáða sjávarútvegi, eins og hv. þm. Barð. sagði, með því að kippa einum réttindamanni úr vél og öðrum af þilfari, vegna þess að þetta hefir a. m. k. mjög takmarkaða þýðingu fjárhagslega fyrir útgerðina. En þetta getur auðveldlega orðið að meinum og slysum, sem gætu orðið margfalt dýrari en sem sparnaðinum næmi. Mér er kunnugt um það af persónulegum kynnum við ýmsa menn, að almenn ánægja er með löggjöfina um atvinnu við siglingar eins og hún er nú. Þessi löggjöf var tyggð á langri reynslu og sett samkvæmt óskum hlutaðeigenda, sem kunnar voru um mörg undanfarin ár. Og það er eftirtektarvert, að þótt l. séu búin að vera eins lengi í gildi og þau hafa verið, þá hefi ég ekki heyrt, að af hálfu útvegsmanna eða þeirra, sem gera út skip til siglinga hér, hafi verið kvartað um áníðslu vegna þessarar löggjafar. Hafa þeir þó borið fram kvartanir óhikað út af þeim l., sem þeir hafa álitið íþyngja sér, svo sem skattaálögum og öðrum slíkum.

Það er, að ég ætla, einhverra hluta vegna, meira áhugamál flokksþings framsóknarmanna heldur en þeirra, sem það kemur raunverulega meira við, að stíga þetta spor, að draga úr öryggi við atvinnu við siglingar þeirra manna, sem vinna við þær, og þeirra, sem skipin gera út.