02.04.1937
Neðri deild: 29. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í C-deild Alþingistíðinda. (1764)

88. mál, atvinna við siglingar

*Páll Þorbjörnsson:

Það voru aðeins nokkur orð út af ræðu hv. þm. Borgf. Þetta einvígi þeirra hv. þm. Barð. og hv. 9. landsk. er svo skemmtilegt, að það er ekki vert að vera að koma þar upp á milli. Hv. þm. Borgf. var að tala um þá óánægju, sem hefði orðið vart út af l. um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum. Og hann talaði svo um þetta, að ekki var annað að heyra en að hann hefði aldrei fyrr orðið var við, að óánægjuraddir hefðu komið fram út af löggjöf. Það hefir nú hent hér í d., að við hv. þm. Borgf. höfum fylgzt að í máli. Það var frv. til l. um aukin réttindi fyrir mótorvélstjóra. Ég man eftir, að við unnum saman að framgangi þessa máls, og mér er það minnisstætt, að það var ekki lítill skerfur, sem hann lagði þessu máli, því að hann er kappsmaður mikill á hvora sveifina, sem hann leggst. Og mér er annað minnisstætt, sem virðist vera fallið honum úr minni, en það er, að það varð vart við miklar óánægjuraddir út af þessu máli. Það er eins og ég hefi tekið fram, að mér er ekki grunlaust um, að það sé ein fleyta í flotanum, sem sé orsök í því, að mál þetta er fram komið hér á Alþ. Ég hefi tekið það fram, að þetta skip er Laxfoss. Þó að þetta skip sé lítið og ómerkilegt, þá verður það ef til vill merkilegt að því leyti til, að það geymist í skjölum Alþ., að verið hafi farið að umsteypa heilli löggjöf, sem grípur mjög inn á atvinnulíf margra, vegna þessa skips. Mér skildist það á hv. þm. Borgf., að hann vildi halda fram, að þessi löggjöf væri sett af okkur sósíalistum. Það þarf náttúrlega ekki að taka það fram, að við komum engu máli í gegn einir hér á Alþ., enda var það svo, að þessi löggjöf fór hér í gegn um 8 umr. á Alþ., og það nær andstöðulaust, Enda var það ekki nema eðlilegt, að svo rækilega undirbúið mál sem þetta mætti ekki mikilli andstöðu. Það hafði verið undirbúið af 3 manna n., sem aðeins einn sósíalisti átti sæti í. Hinsvegar var í n. einn mikilsmetinn sjálfstæðismaður og maður, sem ég vil óhikað segja, að er einn okkar langbezt menntaði siglingafræðingur. Ennfremur var í n. sá maður, sem Fiskifélag Íslands á sínum tíma valdi út úr vélstjórastéttinni til þess að verða sinn starfsmaður og trúnaðarmaður. Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. Borgf. dragi það í efa, að þessir menn hafi verið vel til þess fallnir að semja þetta frv. Ég held, að þessir menn séu báðir sjálfstæðismenn, a. m. k. eru þeir hvorugur sósíalisti. Og ég hefi ekki mikla trú á, að þeir hafi verið mikið undir pólitískum áhrifum frá þriðja manni í n., þegar þeir sömdu þetta frv.